NÝLEGT Í MAC: Colour Rocker og varaskrúbbar

Nýlega komu tvær nýjar línur í MAC á Íslandi, Colour Rocker og varaskrúbbarnir sem ég hef setið á mér með að skrifa um síðan í janúar. Ég var búin að kaupa mér úr báðum línum í New York fyrr á þessu ári og þegar að vörurnar komu hingað var ég svo lánssöm að fá einn varalit í viðbót að gjöf út Colour Rocker línunni.

Fyrst vil ég segja ykkur frá Colour Rocker línunni sem samanstendur af 28 möttum varalitum í mismunandi litum. Ég keypti mér Mud Wrestler sem er að mínu mati fallegasti nude-litur sem ég hef prófað. Hann er silkimjúkur og fullkominn litur fyrir mig, hlutlaus beige sem er ekki of “peachy” og ekki of brúnn. Liturinn sem ég fékk frá MAC á Íslandi var svo Evening Buzz sem er gráleitur-lavender litur, litur sem ég hefði ekki valið mér sjálf en þegar að ég prófaði hann var ég mjög hrifin. Hann er enn mýkri en Mud Wrestler og áferðin á báðum er mjög “smooth”. Línan er í klassískum MAC umbúðum og henni fylgir ekki nein skreyting. Mig minnir að varalitir í MAC kosti 3490 krónur (ég keypti varalit um daginn en finn ekki kvittunina til að kíkja á verðið).

Næsta vara er Lip Scrubtious varaskrúbbur og ég keypti mér Summer Berry sem er dökkur berjalitur sem ilmar dásamlega. Skrúbburinn er sykurskrúbbur og olían í honum gefur vörunum næringu og gerir þær mjúkar. Mér finnst hann mjög þægilegur og ég er mjög sátt með hvað hann undirbýr varirnar vel fyrir varaliti, sérstaklega þegar að maður ætlar að nota matta varaliti sem vilja ýkja allar misfellur. Mig langar í vanilluskrúbbinn og hef hann á óska-innkaupalistanum mínum svo ég get sagt að ég mæli með Lip Scrubtious skrúbbunum.

Endilega kíkið á þessar nýju og vönduðu varavörur í MAC en þið fáið faglega aðstoð í verslununum við val á vörum frá snillingunum sem vinna þar.

Mjúkar og fallegar varir með Clarins

IMG_5129

 

Instant Light Lip Perfector varagljáinn frá Clarins er vara sem að ég hafði aldrei tekið eftir í snyrtivörurápinu, þegar að mér var gefið eitt stykki kom ég algjörlega af fjöllum og vissi ekkert hversu miklu ég hafði misst af að kynnast honum svona seint. Hann gengur einnig undir nafninu Eclat Minute sem þið sjáið hérna að ofan, franska nafnið er á annarri hliðinni og það enska á hinni.

IMG_5131

Það er rétt að taka það fram að það er eiginlega ekki hægt að kalla þetta gloss heldur er þetta meira í áttina að gljáandi varanæringu. Umbúðirnar eru mjög þægilegar, plasttúpa með flauelspúða á endanum sem formúlan kemur í gegnum og púðinn auðveldar ásetningu á varirnar. Mér finnst þær mjög þægilegar til að hafa í veskinu svo ég geti gripið í og frískað upp á mig í neyð.

Formúlan er þó aðalmálið í þessu öllu saman, ástæðan fyrir að ég vildi skrifa um vöruna. Formúlan er silkimjúk og rennur vel á vörunum en hún inniheldur meðal annars shea-butter, extrakt úr villtu mangói, lakkrísjurt og ólífum sem vinna saman að því að næra varirnar eins mikið og hægt er og gera við þau svæði sem þarfnast smá hjálpar til að vera sem fallegust. Afleiður af A-, og E-vítamínum aðstoða við þessar viðgerðir og vernda varirnar fyrir utanaðkomandi áhrifum. Formúlan er alls ekki klístruð og endist ágætlega á vörunum miðað við varasalva/glossa en meðalending hjá mér eru um 3-4 tímar en varirnar eru þó mjúkar og nærðar mun lengur. Lyktina verð ég að minnast á en hún er það góð að ég sit stundum og þefa af túpunni, formúlan ilmar af vanillu en lyktin er þó ekki yfirþyrmandi og venst mjög hratt. Ég fékk fallegan bleikan lit sem kallast Rose Shimmer og gefur vörunum ekki mikinn (eða sterkan) lit en virðist magna upp og fegra litinn sem er á vörunum fyrir en það eru 6 litir í vörulínunni svo ég verð eiginlega að prófa annan til að sjá muninn.

IMG_5130

 

Ég geymi mitt eintak alltaf í veskinu því þetta er hin fullkoma hversdagsvara til að fá strax fallegri og mýkri varir. Útkoman er náttúruleg en auðvitað er hægt að smella smá lagi yfir uppáhalds varalitinn (mér finnst hann koma sérstaklega vel út með ljósbleikum möttum varalitum sem þurrka oft varirnar). Instant Light Natural Lip Perfector er vara sem hentar öllum aldurshópum og ætti eiginlega að leynast eitt stykki í öllum veskjum eða skrifborðsskúffum. Mér finnst hann fullkominn til þess að fríska upp á annars þreytulega vinnudaga eða ef ég þarf að hafa mig til í flýti, það er ekki hægt að klúðra þessu!

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem er fjallað um í þessari grein voru sendar sem sýnishorn, greinin endurspeglar samt sem áður hreinskilið álit greinarhöfundar á vörunum.

Syndsamlega fallegur varalitur frá MAC!

macsin

Á samfélagsmiðlum rekst ég reglulega á sömu myndirnar, ótrúlega fallegar konur með fullkoma förðum og extra dökkrauðar og “vampy” varir. Minn helsti veikleiki þegar að kemur að varalitum eru einmitt dökkir litir, fjólubláir, rauðir og bleikir og því þegar að ég sá þær í fyrsta skipti lagðist ég í langt og mikið “gúgl” til að finna út hvaða liti þessar skvísur væru að nota. Margar hverjar af mínum uppáhalds förðunum áttu sameiginlegt að varaliturinn Sin frá MAC var þessi extra fallegi litur sem var notaður og því fór hann efst á innkaupalistann en þar sem hann var merktur með “pro” varalitur þá gat ég ekki keypt hann hér á Íslandi. Ég var svo heppin að vera á leið til Bandaríkjanna þar sem MAC Pro-búðir eru margar og því var fyrsta búðin sem heimsótt var ein slík þar sem ég var mögulega spenntasti viðskiptavinur dagsins.

Vamp2

Þetta er mín uppáhalds förðunarmynd, ég hef ekki glóru hvaðan hún kemur eða hver farðaði módelið en liturinn er eins og Sin í dagsljósi. Sin er mattur, dökkrauður varalitur frá MAC með smá bláum tón. Hann er ótrúlega auðveldur í ásetningu, hann er ekki þurr eins og margir mattir litir svo hann rennur mjúklega eftir vörunum. Hann er rakagefandi svo varirnar þorna ekki á meðan að notkun stendur, meðalending hjá mér eru um 5-6 tímar en hann litar varirnar svolítið svo það er ekki mjög áberandi þegar að hann byrjar að fara af. Liturinn rennur ekki í línur í kringum varirnar en það eiga flestir möttu litirnir frá MAC sameiginlegt, þeir t0lla vel á og renna ekki í varir en þeir eru mis-þurrir. Eins og allir varalitir frá MAC ilmar hann af sætri vanillu og kemur í klassísku (og mjög þægilegu) varalitapakkningunum sem merkið notast við.

Ég ákvað að sýna ykkur Sin án varablýants en liturinn gengur með ótal blýöntum í mismunandi tónum en hver einasti þeirra breytir litnum örlítið. Til að fá svona dökka og fallega áferð eins og á myndinni fyrir ofan myndi ég mæla með varablýöntunum Nightmoth, Vino eða Currant frá MAC. Flassið lætur litinn líta út fyrir að vera mun ljósari en hann er í raun og veru en ég næ einhvernvegin aldrei að taka myndir í betra ljósi, þegar að ég verð komin með almennilega förðunaraðstöðu með góðri lýsingu þá verður það auðveldara.

IMG_5684

 

IMG_5758

 

IMG_5726

Sin er einn af mínum uppáhalds litum en fyrir þær sem hafa ekki tækifæri á að eignast hann (ég er ekki viss hvort hann sé farinn að fást á Íslandi) þá er liturinn Diva frá MAC mjög svipaður en aðeins hlýrri og fæst í MAC í Kringlunni og Smáralind. Ef Sin eða Diva eru ekki þínir litir þá geta stelpurnar hjá MAC hjálpað þér að velja lit sem hentar.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem fjallað er um í þessarri grein voru keyptar af greinarhöfundi eða aðilum tengdum honum. Greinin endurspeglar hreinskilið álit greinarhöfundar á vörum.

Varalitir frá e.l.f. – ódýrir og litsterkir

elf

Fyrir stuttu fékk ég póst þar sem mér bauðst að prófa nokkrar vörur frá e.l.f. sem er ódýrt snyrtivörumerki sem fæst hér á Íslandi á þessarri vefsíðu hér. Ég fékk að prófa einn varalit úr hverri “vörulínu” en þær eru þrjár, Essentials, Studio og Mineral. Litirnir sem ég fékk eru Beautiful Berry, Classy og Coral Cutie.

elf1

Formúlurnar eru allar mjög mismunandi en ég myndi segja að Studio Moisturizing varaliturinn (Coral Cutie) sé sá sem ég sé mig fyrir mér nota sem hversdagsvaralit. Allar formúlur voru rakagefandi, mismikið en Studio Moisturizing hafði vinninginn í þeirri deild þar sem hann mýkti varirnar vel upp svo þær voru áferðarfallegri en venjulega og með fylgdi þéttur litur sem var hvorki of mjúkur né of stífur. Coral Cutie er eins og nafnið gefur til kynna kórallitaður varalitur en er að mínu mati sérstaklega vel heppnuð blanda, kórallitur er stundum of appelsínugulur og stundum of bleikur. Lyktin er sæt vanillulykt og það er lítil bragð af varalitnum sem er mikill kostur. Formúlan inniheldur shea-butter og A, E og C vítamín sem næra varirnar og varirnar eru ekki þurrar þegar að maður tekur litinn af. Eftir rúmlega 4 tíma notkun var liturinn orðinn daufur og illa farinn svo endingin er meðalgóð. Varaliturinn kostar 1190 kr og fæst hér og myndin hér að neðan sýnir hann á vörunum mínum.

IMG_5190

Essentials liturinn (Classy) er sá litur sem ég sá mig ekki fyrir mér nota sérstaklega oft, aðallega því lyktin af honum er rosalega sterk og höfðar ekki til mín þar sem ég er ótrúlega viðkvæm fyrir lykt af snyrtivörum. Ef ég lít fram hjá lyktinni er varaliturinn þó ágætur, passlega rakagefandi og þéttur litur. Classy er blátóna bleikur litur. Endingin er ágæt, 3 klukkutímar á vörunum en fyrir varalit í þessum verðflokki er það bara mjög fínt. Umbúðirnar fóru líka svolítið í taugarnar á mér en það var hrikalega erfitt að fá hann til að skrúfast upp og niður, ekkert óyfirstíganlegt en þær voru bara svo stífar en á sama tíma voru þetta umbúðirnar sem mér fannst hvað “massívastar” upp á það þegar að allt hrynur úr veskinu niður á gólf þá er ég nokkuð viss um að þær brotni ekki. Essentials varalitirnir kosta 590 krónur og fást hér. Myndin hér að neðan sýnir Classy á mínum vörum.

IMG_5180

Mineral formúlan var svo sú formúla sem hentaði mér og mínum áherslum síst, kannski var þessi eini varalitur sem ég prófaði bara ekki rétti liturinn fyrir mig en liturinn var mjög gegnsær og ekki nógu þéttur. Liturinn sem ég fékk var Beautiful Berry og er berjalitur sem mér finnst leynast örlítill brúnn blær í sem sést kannski ekkert rosalega mikið á myndinni og hann er mjög glansandi. Hann var aðeins of mjúkur (líklegast glansinn sem veldur) og rann í línur eftir smá stund, endingin var rúmir 2,5 klukkutímar á vörum og eftir það var hann nánast horfinn af. Umbúðirnar voru þó mjög sterklegar og þrátt fyrir að veltast um í veskinu opnaðist hann aldrei svo það er mikill plús. Hann er eins og þið sjáið kannski á textanum sá sem mér finnst sístur af týpunum en hann hentar eflaust vel fyrir þær sem vilja glossaðar varir (endingin er lengri en á meðalglossi) og muna eftir að laga litinn til (ég vil helst ekki þurfa að laga mig til yfir daginn). Mineral varalitirnir fást hér og kosta 1690 kr.

IMG_5181

 

elf2

Hér eru litirnir “swatchaðir” á innanverðan framhandlegg til að sýna ykkur litina í dagsljósi.

Ég á eflaust eftir að nota Classy og Coral Cutie áfram þar sem litirnir eru báðir áhugaverðir og Coral Cutie er einn best heppnaði kórallitur sem ég man eftir, lyktin af Classy er kannski eitthvað sem venst. Ég vil þó taka sérstaklega fram að hvað hentar fyrir hvern og einn er mjög mismunandi, öll erum við að leita að mismunandi kostum og höfum mismunandi áherslur. Það sem hentar mér eða hentar mér ekki getur verið frábært fyrir einhvern annan. Verðið á varalitunum er þó mikill plús því það er enginn stórskaði ef varan hentar manni svo ekki, ég hef keypt keypt dýra varaliti sem hentuðu mér svo enganvegin og svo akkúrat öfugt, varaliti sem kostuðu eitthvað klink en voru frábærir. Kynnið ykkur því endilega snyrtivörurnar en þær fást bæði á Deluxe snyrtistofu í Glæsibæ og á heimasíðu merkisins.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem er fjallað um í þessari grein voru sendar sem sýnishorn, greinin endurspeglar samt sem áður hreinskilið álit greinarhöfundar á vörunum.

Stórir trélitir fyrir varirnar? Nýju varalitirnir frá Maybelline teknir fyrir

IMG_4542

Þær sem hafa lagt leið sína í Hagkaup og fleiri sölustaði Maybelline á Íslandi hafa eflaust rekið augun í þessa þykku varablýanta, ég segi þykku varablýanta því það er það sem ég hélt að þessir varalitir væru. Ég var á ráfi á miðnæturopnun í Smáralind og rakst á hana Ernu Hrund og Maríu hjá Maybelline á Íslandi og þær leiddu mig í allan sannleikann um málið, að þetta væru nýjir og rosalega sniðugir varalitir sem væri umtalsvert auðveldara að móta varirnar með heldur en þessir klassískur kremuðu. Tegundin heitir Color Drama Lipstick og er auðþekkjanlegt á þessu “chubby stick” útliti.

IMG_4538

Ég fékk svo aðeins seinna tvo svona að gjöf, einn bleikann (Minimalist)  og svo dökkan berjalitaðan (Berry Much) sem fór strax á topp 10 yfir dökku varalitina. Minimalist er lágstemmdur bleikur litur með smá sanseringu sem kemur vel út á vörum, mér finnst hann smá “barbílegur” því ég virðist vera með mikið dekkri húð þegar að ég nota hann. Berry Much er hinn fullkomni hátíðalitur að mínu mati, dökkur en ekki of dökkur og svo er berjaliturinn (vínrauðbleikur) fallegur á langflestum. Ég er bæði búin að prófa hann á sjálfri mér og svo notaði ég hann í förðun fyrir vetrarlookbookið hjá SHE, ætla að fá að smella inn einni mynd úr tökunni en Kristján Eldjárn tók myndirnar. Ég á eflaust eftir að lauma inn aðeins fleiri myndum úr myndatökunni en þessi kápa er ómótstæðileg og eiginlega skuggalega falleg svona í raunveruleikanum.

she

Báðir eru í aðeins þurrari kantinum svo þeir minna pínulítið á varablýanta að því leitinu til, þeir eru passlega þurrir til að varaliturinn renni ekkert í línur en eru samt “creamy” þegar að þeir renna yfir varirnar. Ég móta varirnar með oddinum og fylli svo inn í með hliðunum og finnst það mjög þægilegt. Endingin er samt aðalmálið, að meðaltali eru þeir að endast í rúmlega 6 klukkutíma án þess að haggast á mér sem mér finnst vera einn af bestu kostunum því ég þoli ekki að þurfa að laga varalitinn eða förðunina yfir höfuð. Ég held að endingin komi vegna þess að þeir eru ekki alveg silkimjúkir. Ég hef þó eitt út á litina að setja en það er að vegna þess að þetta eru ekki skrúfblýantar þarf að ydda þá sem getur orðið smá maus (og það tapast alltaf smá litur með) en ég hef þó fundið lausn á þessu yddveseni en ég skelli þeim í frystinn í svona korter og ydda þá svo, þá er varaliturinn alveg eins harður og hann getur orðið og ekkert mál að fá fallegan odd til að móta með. Yddarinn sem ég nota er tvöfaldur yddari frá Urban Decay en ég er búin að prófa með venjulegum yddara fyrir breiða blýanta og það virkar alveg jafn vel.

download (1)Berry Much

downloadMinimalist

Color Drama varalitirnir fá mín meðmæli bæði fyrir það að þeir eru á góðu verði og líka mjög vandaðir. Endingin er til fyrirmyndar og ég er búin að ákveða þegar að ég leyfi mér aftur að fara að kaupa snyrtivörur að kaupa mér alla hina litina úr línunni (Alexander, ef þú ert að lesa þetta þá færðu engu um það ráðið).

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem er fjallað um í þessari grein voru sendar sem sýnishorn, greinin endurspeglar samt sem áður hreinskilið álit greinarhöfundar á vörunum.

1 2 3