NÝLEGT Í MAC: Colour Rocker og varaskrúbbar

Nýlega komu tvær nýjar línur í MAC á Íslandi, Colour Rocker og varaskrúbbarnir sem ég hef setið á mér með að skrifa um síðan í janúar. Ég var búin að kaupa mér úr báðum línum í New York fyrr á þessu ári og þegar að vörurnar komu hingað var ég svo lánssöm að fá einn varalit í viðbót að gjöf út Colour Rocker línunni.

Fyrst vil ég segja ykkur frá Colour Rocker línunni sem samanstendur af 28 möttum varalitum í mismunandi litum. Ég keypti mér Mud Wrestler sem er að mínu mati fallegasti nude-litur sem ég hef prófað. Hann er silkimjúkur og fullkominn litur fyrir mig, hlutlaus beige sem er ekki of “peachy” og ekki of brúnn. Liturinn sem ég fékk frá MAC á Íslandi var svo Evening Buzz sem er gráleitur-lavender litur, litur sem ég hefði ekki valið mér sjálf en þegar að ég prófaði hann var ég mjög hrifin. Hann er enn mýkri en Mud Wrestler og áferðin á báðum er mjög “smooth”. Línan er í klassískum MAC umbúðum og henni fylgir ekki nein skreyting. Mig minnir að varalitir í MAC kosti 3490 krónur (ég keypti varalit um daginn en finn ekki kvittunina til að kíkja á verðið).

Næsta vara er Lip Scrubtious varaskrúbbur og ég keypti mér Summer Berry sem er dökkur berjalitur sem ilmar dásamlega. Skrúbburinn er sykurskrúbbur og olían í honum gefur vörunum næringu og gerir þær mjúkar. Mér finnst hann mjög þægilegur og ég er mjög sátt með hvað hann undirbýr varirnar vel fyrir varaliti, sérstaklega þegar að maður ætlar að nota matta varaliti sem vilja ýkja allar misfellur. Mig langar í vanilluskrúbbinn og hef hann á óska-innkaupalistanum mínum svo ég get sagt að ég mæli með Lip Scrubtious skrúbbunum.

Endilega kíkið á þessar nýju og vönduðu varavörur í MAC en þið fáið faglega aðstoð í verslununum við val á vörum frá snillingunum sem vinna þar.

Nýir og endurbættir L’Absolu Rouge varalitir frá Lancôme

Varan er gjöf

Nýlega komu í verslanir endurbættir L’Absolu Rouge varalitir frá Lancôme sem hafa fylgt okkur síðustu 25 ár. Hönnun þeirra hefur breyst í gegnum tíðina og sú nýjasta er sú allra glæsilegasta (og praktískasta) en markmiðið hefur alltaf verið að hafa þær sígildar og fallegar. Ég ELSKA nýju umbúðirnar sem eru “veskisheldari” heldur en flestar því þær opnast ekki nema smellt sé á rósina svo maður hefur aldrei áhyggjur af því að veskið verði bleikt að innan. Mér þykir líka fallegt að hafa umbúðirnar “sleek” og svartar og tilfinningin að taka þær upp er hreinn lúxus því það er svolítil þyngd í þeim.

Eftir að Lisa Eldridge tók við keflinu hjá Lancôme hafa margar gríðarlega jákvæðar breytingar átt sér stað og þessir varalitir eru sérstaklega vel heppnaðir. Í dag eru 36 litir í línunni, 16 söluhæstu litirnir úr gömlu týpunni héldu áfram í nýju umbúðunum og Lisa hannaði 14 í viðbót.

Formúlan kemur í þremur áferðum, sheer, cream og matte. Hún á að gefa vörunum raka og mýkja þær í allt að 8 klukkustundir. Á þeim 2 litum sem ég hef prófað hef ég verið að fá u.þ.b. 4-5 klst sem er mjög gott miðað við “sheer” áferð. Formúlan inniheldur meðal annars Pro-Xylane™ og Ceramide V fyrir raka og vernd, sérstaka rakasameind og svo eru The Satin Color™ sameindir sem tryggja að liturinn dreifist jafnt yfir varirnar og litarefnin gefa sterkan lit. Einnig er að finna E vítamín í formúlunni. Mér finnst rakinn mjög góður þar sem ég er alltaf með þurrar varir og liturinn nær að mýkja skorpuna á vörunum svo það séu misfellur í litnum útaf nöguðum vörum.

Sheer áferðin gefur létta þekju, ljóma og gefur vörunum léttan gljáa. Það eru 9 litir með þessari áferð.
Cream áferðin gefur meðal til mikla þekju, djúpa liti og hefur satínáferð. Hér höfum við 23 liti en 22 þeirra koma til Íslands. 
Matte áferðin gefur þéttan lit sem endist á vörunum án þess að þurrka þær. Það eru 6 litir með þessari áferð en 5 þeirra koma til Íslands.

Ég prófaði litina 317 Pourquoi Pas og 202 Nuit & Jour sem eru báðir með sheer áferð. Mér þykja báðir virkilega góðir en 202 er þó í aðeins meira uppáhaldi. Ástæðan fyrir því er liturinn sem virðist henta flestum og hvað hann er mismunandi eftir einstaklingum. Mér finnst hann ekki eins á mér og öðrum sem ég sé með hann en það er auðvitað rökrétt þar sem hann er hálfgegnsær svo varirnar koma í gegnum litinn. Endingin er eins og áður segir góð og ekki áberandi þegar að liturinn fer að dofna (þegar að ég er búin að borða hann af). Lyktin af formúlunni hverfur fljótt (það er rósalykt) og liturinn er jafn og þéttur.

Ég elska mína liti og hvað þeir eru handhægir og ég vona að þið getið fundið liti við ykkar hæfi. Ég hef augastað nokkrum möttum litum og nokkrum krem sem mig langar að prófa við tækifæri en það bíður betri tíma (ég hef svo mikið að prófa og skrifa um að ég er með hálfgerðan verkkvíða yfir því. Ég hlakka til að sýna ykkur meira af þeim nýjungum sem uppáhaldið mitt hún Lisa hefur unnið að með Lancôme og finnst hún vera að beina merkinu í rétta átt að meiri sérstöðu og enn betri og praktískari vörum.

Ég ætlaði að vera rosa dugleg núna í janúar að skrifa en hef verið svolítið “under the weather” og ekki í miklu stuði fyrir neitt (mér finnst janúar vera mánuður með 31 mánudegi).  Ég var að koma heim úr smá skreppiferð til New York í gærmorgun svo ég er aðeins hressari og líflegri heldur en áður. Ég hef margt að sýna ykkur (það er svo sannarlega að koma snyrtivöru-vor með tilheyrandi nýjungum) og ég vona að ég nái að vera nokkuð virk í skrifum.

 

Dose Of Colors: Liquid Lipsticks

DSC_0328
greinarhöfundur keypti vörurnar sjálfur

Dose Of Colors hafa gjörsamlega heillað mig í netvafrinu mínu  og þegar að við fórum til Boston nýtti ég tækifærið og pantaði í bullandi hvatvísikasti smá pakka frá þeim. Pakkinn innihélt 2 varaliti í litunum Stone og Mood og Eyedeal Duo, í dag ætla ég að segja ykkur frá varalitunum. Ég fékk (og fæ enn) fáránlegt magn af skilaboðum þar sem ég var spurð út í varalitina og fyrirtækið svo ég ákvað að setja bara saman bloggfærslu um varalitina og fyrirtækið. Ég ætla að setja það bara beint inn hér að þið getið keypt til Íslands í gegnum fyrirtækið sjálft og í gegnum Beautybay.com.

DSC_0331

Dose of Colors var stofnað af makeup artistanum Anna Petrosian og það hefur verið frekar áberandi á samfélagsmiðlum og youtube frá upphafi. Möttu varalitirnir eru þeirra stjörnuvara (og reyndar ný augnskuggapalletta sem er gjörsamlega búin að tröllríða öllu) um þessar mundir og það eru alltaf nokkrir litir uppseldir. Ég valdi mér litina Stone og Mood og er strax farin að plana kaup á Desert Suade og Berry Me 1 og 2. Þið sjáið hér á myndinni fyrir neðan hvernig þeir koma út á mínum vörum, önnur myndin er samt hlýrri en hin og varaliturinn er kannski ekkert endilega fullkominn. Mér finnst skemmtilegast að nota varablýant (ég er svo skjálfhent að ég á stundum erfitt með liquid lipsticks) því þá er línan oftast fallegust. Mood er ekki alveg þurr á myndinni, smá feill.

doseofcolors

Formúlan er ein sú allra besta liquid lipstick formúla sem ég hef prófað, hún helst á heila eilífð (ég kemst í gegnum 8 tíma vinnudag og það sér ekki á varalitnum) en það er samt frekar auðvelt að taka varalitinn af með tvöföldum augnfarðahreinsi eða hreinsiolíu. Formúlan er ekki þurrkandi en hún virðist ekki þorna alveg heldur bara mynda mjúka filmu yfir vörunum. Lyktin og bragðið af formúlunni er gott, ég get eiginlega ekki lýst því almennilega en það er einhverskonar kökunammieitthvaðgúmmelaði sem er góð tilbreyting frá varalitum sem lykta í sumum tilvikum eins og bensín. Fyrirtækið virðist nota sama umbúðaframleiðanda og Jeffree Star því umbúðirnar eru eins í laginu nema DOC eru með hvítum tappa en JS eru með bleikum. Burstinn er frekar skrýtinn en venst hratt, hann er frekar stór og það er auðvelt að stýra ásetningunni með honum. Varalitirnir kosta 18 dollara stykkið á heimasíðu fyrirtækisins en 19 evrur á BeautyBay, Beautybay held ég að sendi frítt til Íslands svo það er örugglega bara fínn díll og varalitirnir eru 1000000% þess virði.

Þar til næst,
Þórunn

Nýjung frá Clinique – Pop Lip Colour + Primer

combine_imagesClinique setti nýja og fallega varaliti á markað í sumar, mér til mikillar gleði! Ég hef verið mikill aðdáandi Clinique síðan að ég fékk fyrsta þriggja þrepa settið mitt (ætli ég hafi ekki verið 13 eða 14 ára) og það eru ótal vörur frá merkinu sem ég hef keypt aftur og aftur (minnir mig einmitt á að ég ætlaði að fara að versla mér nokkrar vörur, þarf virkilega að fara að sýna ykkur uppfærðan óskalista). Ég hafði aldrei prófað varalitina frá Clinique og þegar að hún Eva hjá Clinique hafði samband við mig og sagði mér að velja mér liti af nýjustu varalitunum þá langaði mig auðvitað að eignast þá alla en mér tókst að minnka það niður í þrjá.

Pop Lip Colour + Primer er glæný formúla frá merkinu og er eins og nafnið gefur til kynna bæði primer og varalitur. Primerinn sléttir og nærir varirnar og auðvitað hjálpar hann varalitnum að vera á réttum stað sem allra lengst en varaliturinn sjálfur er með frábærum litapigmentum. Formúlan inniheldur Shea- og Murumuru-smjör sem mynda sveigjanlega fjölliðublöndu sem gefur vörunum hámarksnæringu, fjölliðan auðveldar ásetningu og viðheldur litnum svo hann endist sem allra best með hámarks lit. Meðalending á mínum vörum eru 5-6 tímar en formúlan litar þó ekki varirnar undir varalitnum svo það er eiginlega must að taka varalitinn með og bæta á ef maður gleymir sér aðeins í áti. Varaliturinn rennur ekki í línunum í kringum varirnar og línan helst skörp svo lengi sem maður þurrkar ekki munninn með handarbakinu (því miður þá er það ekki frábær hugmynd). Formúlan lyktar ekki og er prófuð af ofnæmislæknum. Formúlan er strax orðin ein af mínum uppáhalds, ástæðurnar eru nokkrar en ég held að lyktarleysið og það hversu auðvelt er að setja litinn á séu þær sem standa upp úr.

Litirnir sem eru í boði eru 16, 4 flokkar með 4 litum hver. Nude flokkurinn inniheldur Nude Pop, Bare Pop, Cola Pop og Beige Pop. Tawnies-flokkurinn (ég bara get ekki fundið rétta orðið) hefur litina Melon Pop, Poppy Pop, Passion Pop og Cherry Pop. Bleiki flokkurinn inniheldur litina Sweet Pop, Punch Pop, Wow Pop og Fab Pop. Fjólublái flokkurinn inniheldur svo Love Pop, Plum Pop, Berry Pop og Grape Pop. Litirnir sem ég valdi eru Cherry Pop, Sweet Pop og Wow Pop.

clinique

Ég á eftir að bæta fleiri litum í safnið en Melon Pop, Grape Pop, Punch Pop og Plum Pop eru ansi líklegir til þess að rata í varalitahirslurnar mínar (já í fleirtölu, ég fékk áfall þegar að ég áttaði mig á því að ég yrði að bæta við einni eða tveimur í viðbót, örugglega tveimur því ég er sko ekki hætt að kaupa varaliti, allavega ekki rétt fyrir utanlandsferð). Ég hvet ykkur til að kynna ykkur litina 16 og sjá hvort einhver þeirra grípi ykkur ekki, Pop varalitina fáið þið á öllum sölustöðum Clinique en ég er alveg klár á því hvað þeir kosta (ég hef ekki verið nógu dugleg að fara í búðir undanfarið, Alexander til mikillar ánægju).

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem er fjallað um í þessari grein voru sendar sem sýnishorn, greinin endurspeglar samt sem áður hreinskilið álit greinarhöfundar á vörunum.

Nýjasta viðbótin við Viva Glam!

combine_images

Viva Glam Miley Cyrus er nýjasta viðbótin við Viva Glam vörulínu MAC og er komin til Íslands! Miley Cyrus er nýjasti talsmaður Viva Glam sjóðsins og eru glossinn og varaliturinn fyrstu afurðir samstarfsins. Ég skrifaði smá um Viva Glam og MAC AIDS fund í vetur og ætla að setja texta úr þeirri grein hérna með til að minna ykkur á Viva Glam og hvað er svona sérstakt við Viva Glam vörur.

““The MAC AIDS Fund” er annar stærsti sjóður sinnar tegundar í heiminum og styrkir hann börn, konur og menn á öllum aldri og öllum kynstofnum um allan heim sem þjást beint eða óbeint af HIV/AIDS.
Yfir 40 milljón manns lifa við HIV-smit eða alnæmi í heiminum og rúmlega 5.000 manns láta lífið af völdum sjúkdómsins daglega, þetta er málefni sem snertir okkur öll þar sem engin lækning er fyrir hendi eins og er og HIV spyr ekki um kyn, húðlit eða kynhneigð. Sjóðnum sem úthlutað er úr var komið á laggirnar 1994 og hafa frá stofnun safnast um 355 milljónir dollara, hvaðanæva af úr heiminum, það væri svosem ekki frásögum færandi nema fyrir það að hver einasta króna, hvert einasta sent sem safnast hefur, kemur af sölu Viva Glam varalita og glossa. Sjóðurinn styrkir mörg ólík samtök um allan heim sem öll eiga það sameiginlegt að veita þjónustu til þeirra sem smitaðir eru.”

Á hverju ári er nýr talsmaður og Miley Cyrus tekur við í ár. Liturinn hennar er skærbleikur, extra áberandi og glossið er eins og fullkomin diskókúla með fallegu glimmeri. Ég keypti mér bæði glossið og varalitinn og er hæstánægð. Varaliturinn rennur vel á vörunum við ásetningu en rennur ekki í línur yfir daginn. Ein umferð af varalit gefur nánast 100% þekju svo liturinn er gríðarlega drjúgur. Viva Glam Miley Cyrus varaliturinn er mjög sterkur og litar vörina undir litnum svo það er ekkert sérstaklega áberandi þegar að hann byrjar að fara af. Glossið er frekar þykkt en ekki of klístrað, glimmerið er fíngert og passar fullkomlega með varalitnum til að gera varirnar ómótstæðilegar. Myndin hér að neðan sýnir bæði glossið og varalitinn í dagsljósi og svo litina saman á vörunum með flassi.

1

 

Bæði glossinn og varaliturinn fá mín meðmæli og voru frábærar viðbætur í alltof (en samt ekki) stóra snyrtivörusafnið mitt. Þið fáið báðar vörur í MAC Kringlunni og MAC Smáralind. Veljið ykkur Viva Glam og styrkið gott málefni í leiðinnni! HIV og AIDS er eitthvað sem kemur okkur öllum við og því er hverri einustu krónu sem varið er í rannsóknir og umönnun HIV smitaðra vel varið. Kíkið á MAC skvísurnar og fáið að prófa, þið verðið ekki sviknar!

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem fjallað er um í þessarri grein voru keyptar af greinarhöfundi eða aðilum tengdum honum. Greinin endurspeglar hreinskilið álit greinarhöfundar á vörum.

1 2 3 4