Lancôme – Teint Idole gleði

Vörur sem fjallað er um eru gjafir

Teint Idole línan frá Lancôme er klassík fyrir þær konur sem vilja vörur sem endast vel á húðinni, haldast mattar og eru olíulausar. Upprunalegi farðinn fékk smá yfirhalningu og svo eru snillingarnir hjá Lancôme á Íslandi að gera frábæra hluti með því að bjóða okkur upp á að gera umbúðirnar af cushion-farðanum aðeins persónulegri. Fyrir frekari útskýringar þá lesið þið bara áfram!

Teint Idole farðinn frá Lancôme er löngu orðinn klassískur enda hefur hann verið í framleiðslu hjá Lancôme í rúm 20 ár. Hann fékk nýlega nýtt nafn og nýja flösku – en ekki nýja formúlu og kallast hann nú Teint Idole Ultra Wear sem lýsir eiginleikum hans frekar vel. Hann á að hafa 24 klukkustunda endingu án lagfæringar og hann á ekki að smitast.
Farðinn á sér marga aðdáendur um allan heim og má ætla að þeim fjölgi þessa dagana þar sem að litaúrvalið hefur verið bætt og nú eiga allir að geta fundið sér tón við hæfi.

Formúlan er þekjandi en á sama tíma létt og minnir mig svolítið á “second-skin” farða þar sem farðinn bráðnar einhvernvegin inn í húðina en samt myndi ég ekki setja hann í þann flokk. Áferðin á húðinni er frekar mött en samt með ljóma svo útlitið er náttúrulegt en það eru efni í farðanum sem sjúga í sig olíu til að minnka gljáa. Ég hafði aldrei prófað þennan farða fyrr en ég fékk þetta glas hér að ofan og ég sé svolítið eftir því að hafa ekki prófað fyrr því ég er mjög hrifin. Mér finnst svolítið sterk lykt af farðanum fyrst eftir að maður setur hann á en mér finnst hún hverfa eða venjast hratt samt. Mér finnst farðinn endast vel á mér, hann gefur fallega áferð og það er auðvelt að stýra þekjunni með mismunandi áhöldum og t.d. ef maður vill blanda í rakakrem. Formúlan er með SPF 15 sólarvörn.
Ég nota lit 010 í Teint Idole Ultra Wear og í Teint Miracle og myndi segja að litirnir væru frekar svipaðir og ég varð ekki vör við að þessi farði oxaðist á húðinni eins og “long-wear” farðar gera venjulega.


Teint Idole Ultra Cushion er svo önnur útgáfa af Teint Idole farða en sú er fljótandi farði í “svamp”-formi en hann er aðeins léttari og með náttúrulegri áferð (minni þekju) en fljótandi farðinn hér að ofan. Ég myndi lýsa áferðinni á þessum sem demi-mattri og endingin er mjög góð þó hún nái hinum ekki alveg. Formúlan gefur meiri raka og kælir húðina við ásetningu svo þetta er fullkomið til að laga förðun yfir daginn/kvöldið. Allure verðlaunaði cushion-farðann árið 2016 og ég verð að vera sammála þeirri úthlutun því þetta er svo þægilegt fyrir okkur sem eigum það til að mála okkur í bílnum. Formúlan er með SPF 50 sólarvörn svo farðinn er fullkominn fyrir sumarið.

Þessa dagana stendur yfir spennandi kynning í Lyfjum og Heilsu í Kringlunni og Glerártorgi (frá fimmtudeginum 30. mars til sunnudagsins 2. apríl) þar sem allar vörur frá merkinu eru á 20% afslætti og þar eru kaupaukar í boði. Það sem gerir þessa kynningu þó extra spennandi er það að þið getið fengið áletrun á Teint Idole Ultra Cushion boxin sem þið kaupið eða ef þið eigið box fyrir þá getið þið keypt fyllingu og látið merkja boxið. Það er fátt eins skemmtilegt og persónulegt eins og merktar snyrtivörur. Áletrunin verður í boði milli 14 og 18 á bæði fimmtu- og föstudag en á laugardaginn frá 13 til 17. Ég mæli með að þið kíkið við og skoðið þær nýjungar sem eru í boði og nýtið afsláttinn á kynningunni.

Undanfarið á instagram

Fyrir ykkur sem eruð ekki að fylgjast með mér á instagram þá langaði mig að sýna ykkur aðeins það sem hefur ratað þangað undanfarið hjá mér.

a

Ég fór á matarmarkaðinn í Hörpu seinustu helgi og framlengdi afmælisdaginn örlítið. Ég átti semsagt afmæli á föstudaginn og varð 23 ára, ég er afmælissjúk og er meira eins og ég sé 5 ára þegar að kemur að afmælum. Á markaðnum skoðaði ég og smakkaði frá mér allt vit og endaði að sjálfsögðu á að fara heim með fjöldan allan af pokum fullum af gúmmelaði.

b

Elsku Alexander var svo yndislegur að gefa mér nýjan iPhone í afmælisgjöf, hann var orðinn þreyttur á að hlusta á mig bölva hinu og þessu í þeim gamla og leysti vandamálið á þennan hátt. Ég er hrikalega hrifin af símanum (iPhone 6) og þó svo að mér hafi fundist hann alltof stór fyrst um sinn.

e

Við Alexander keyptum okkur miða á Alt-J tónleikana í júní og erum gríðarlega spennt. Ég held að það sé ekki orðið uppselt á tónleikana svo þið getið enn tryggt ykkur miða.

dAfmælisgjafir frá mér til mín þetta árið voru kannski óþarflega margar en þessar tvær splunkunýju pallettur frá YSL voru sú gjöf sem ég var hvað spenntust fyrir (og spurði alltof oft hvort væri komin í búðir). Vorpallettan frá Yves Saint Laurent og Tuxedo, 10 skugga pallettan sem mig bráðvantaði urðu mínar.

f

Við Alexander erum (loksins) að skríða úr hreiðrinu og þessa dagana ganga framkvæmdir þokkalega. Ég get ekki beðið eftir að flytja inn og búa í svona fallegu gömlu húsi með stórum gluggum en það verður þó að bíða því eins og staðan er núna er baðherbergið bara ekki til staðar og engin gólfefni. Það er þó allt á fullu í að bæta úr þessu öllu saman og vonandi er hægt að flytja undir lok mánaðar eða í byrjun næsta.

h

Ég fékk nokkrar af mínum bestu vinkonum í saumaklúbb þar sem ég bauð meðal annars upp á þessa dásemd. Ég er alveg veik fyrir þessarri köku og gæti sjálf alveg gúffað í mig hálfri en hér sjáið þið súkkulaðiköku með saltkaramellumarengssmjörkremi!

c

Elsku Lubbinn minn sem varð 11 ára í janúar varð að fá að vera með. Þetta litla krútt (sem er orðið alltof loðið og þarf að fara í klippingu) er alltaf jafn kátur þegar að ég kem heim og vill knúsast endalaust. Það þarf ekki að taka fram að ég er hundasjúk, ég á erfitt með að hugsa til þess að búa hundlaus (mjög frábrugðið því að vera með 4 hunda til að kúra með).

g

Hundasýkin heldur áfram á seinustu myndinni en hér sjáið þið Ljúfu horfa á 3D barnaefni með 3D gleraugu. Hún glápir á sjónvarpið með manni og sýnir dýrum í sjónvarpinu sérstakan áhuga, við ákváðum því að prófa að sýna henni 3D barnaefni með dýrum og mín var svona sérlega áhugasöm um þetta allt saman.

Ég vona að ég hafi ekki drepið ykkur úr leiðindum með þessu þvaðri í mér en stundum langar mann bara að sýna smá persónulega hlið. Það er margt sniðugt á leiðinni (um leið og ég get tekið myndir, ég er ekki fótógenísk þessa dagana með bólur og ljótan varaþurrk) svo fylgist með, það er aldrei að vita að ég meira að segja skelli í gjafaleik á næstu dögum.

Þar til næst,
Þórunn