NÝLEGT Í MAC: Colour Rocker og varaskrúbbar

Nýlega komu tvær nýjar línur í MAC á Íslandi, Colour Rocker og varaskrúbbarnir sem ég hef setið á mér með að skrifa um síðan í janúar. Ég var búin að kaupa mér úr báðum línum í New York fyrr á þessu ári og þegar að vörurnar komu hingað var ég svo lánssöm að fá einn varalit í viðbót að gjöf út Colour Rocker línunni.

Fyrst vil ég segja ykkur frá Colour Rocker línunni sem samanstendur af 28 möttum varalitum í mismunandi litum. Ég keypti mér Mud Wrestler sem er að mínu mati fallegasti nude-litur sem ég hef prófað. Hann er silkimjúkur og fullkominn litur fyrir mig, hlutlaus beige sem er ekki of “peachy” og ekki of brúnn. Liturinn sem ég fékk frá MAC á Íslandi var svo Evening Buzz sem er gráleitur-lavender litur, litur sem ég hefði ekki valið mér sjálf en þegar að ég prófaði hann var ég mjög hrifin. Hann er enn mýkri en Mud Wrestler og áferðin á báðum er mjög “smooth”. Línan er í klassískum MAC umbúðum og henni fylgir ekki nein skreyting. Mig minnir að varalitir í MAC kosti 3490 krónur (ég keypti varalit um daginn en finn ekki kvittunina til að kíkja á verðið).

Næsta vara er Lip Scrubtious varaskrúbbur og ég keypti mér Summer Berry sem er dökkur berjalitur sem ilmar dásamlega. Skrúbburinn er sykurskrúbbur og olían í honum gefur vörunum næringu og gerir þær mjúkar. Mér finnst hann mjög þægilegur og ég er mjög sátt með hvað hann undirbýr varirnar vel fyrir varaliti, sérstaklega þegar að maður ætlar að nota matta varaliti sem vilja ýkja allar misfellur. Mig langar í vanilluskrúbbinn og hef hann á óska-innkaupalistanum mínum svo ég get sagt að ég mæli með Lip Scrubtious skrúbbunum.

Endilega kíkið á þessar nýju og vönduðu varavörur í MAC en þið fáið faglega aðstoð í verslununum við val á vörum frá snillingunum sem vinna þar.

NÝTT: MAC – WORK IT OUT

Vörur sem fjallað er um eru bæði keyptar af greinarhöfundi og sendar sem gjöf

Nýlega kíkti ég á kynningu í MAC í Smáralind þar sem margar af samfélags- og fjölmiðlakonum landsins komu saman til að sjá nýjustu línu MAC sem kallast Work It Out. Línan er innblásin af litasprengju áttunda áratugarins og litapallettan endurspeglar það fullkomlega, vörurnar koma í áberandi sterkum og fallegum litum og heildarmynd línunnar er ótrúlega vel heppnuð. Ég fékk eina vöru úr þessari línu með mér heim í poka og fór svo daginn eftir og bætti við annari.

Hér er varan sem ég keypti mér en þetta er glossið Crystal Glaze Gloss og ég keypti litinn Sixxx Pack sem er barbíbleikur. Glossið er silkimjúkt og gefur vörunum mikla næringu en það minnir mest á lituðu varasalvana sem MAC seldi fyrir mörgum árum og voru í miklu uppáhaldi hjá mér því formúlan er laus við klístur og er “instant” rakabomba. Liturinn er passlega sterkur og er frekar kaldbleikur á vörunum og glossið helst frekar vel á. Ég tók það með til London yfir helgina og er alveg heilluð og er alvarlega að íhuga að kaupa mér Nice Cheeks litinn.

Hér er svo varan sem ég fékk í pokanum heim en það er In Extreme Dimension maskari í litnum Warm Up. Formúlan er mjög sérstök en hún minnir mig meira á “mousse” heldur en venjulegan maskara. Formúlan á að vera nærandi og á ekki að flagna af/molna niður yfir daginn. Þessi maskari kom í 16 litum í þessari línu og ég var spenntust fyrir bláum lit sem ég prófaði á kynningunni en þessi kom mér ótrúlega á óvart. Burstinn er sérstaklega stór og tekur í sig mikla formúlu og dreifir henni jafnt yfir hvert einasta augnhár. Endinn á burstanum er með hárum og hann nær vel í bæði innri og ytri augnkrók og líka góður í að setja maskara á neðri augnhárin. Mér finnst formúlan klessast svolítið en það er í góðu lagi því “klessurnar” gera litinn meira áberandi. Liturinn sést ekki vel í fjarlægð en “up close” er hann frábær, sérstaklega við bláa/fjólubláa augnförðun eins og þið sjáið hér að neðan.

Jújú, mikið rétt, ég get enn málað mig þó þið sjáið það sjaldan. Ég er þó að taka mig á í því og reyna að vera aðeins duglegri að nota snyrtivörurnar mínar en ég hef verið í rosalegri lægð, andlega og líkamlega, en vonandi fer að birta til. Litagleðin í þessari línu hressti mig allavega svolítið við (og að skreppa til London síðustu helgi) svo þið gætuð farið að sjá aðeins meira af mér á næstunni þó það séu alveg að koma próf og ég alveg núll undirbúin.

Nóg um mig í bili! Þið finnið þessa gullfallegu línu einungis í MAC í Smáralind og það er gaman að segja frá því að verðin í MAC lækkuðu hressilega fyrir ekkert svo löngu síðan og því enn skemmtilegra að versla en áður, ég er búin að tapa kvittuninni minni fyrir því sem ég keypti en mig rámar í að ég hafi séð augnhár á 2490 krónur sem voru áður mun dýrari. Ég hvet ykkur til að kíkja!

NÝTT: Makeup Art Cosmetics frá MAC

Vörurnar eru gjafir

Nýjasta línan frá MAC var að koma í verslanir og ég ætla að segja ykkur svolítið frá henni, undirlínunum 3 og fólkinu á bakvið þær. Þetta gæti orðið löng færsla en ég reyni að halda henni eins stuttri og hægt er svo þið getið haldið áfram með daginn.

MAC Makeup Art Cosmetics er nafn línunnar og að henni standa Kabuki, James Kaliardos og Diane Kendal sem eru öll heimsfrægir listamenn þegar að kemur að förðun. Línan inniheldur rúmlega 50 vörur í heildina og þetta er í fyrsta skipti þar sem MAC fer í samstarf við sjálfstæða förðunarlistamenn til að búa til “limited” línu en þetta er auðvitað frábær tilbreyting því í slíku samstarfi er ætti áherslan að liggja í gæðum og notkunarmöguleikum, að búa til eitthvað sem þeim fannst vanta. Þetta eru allt ólíkir listamenn með mismunandi áherslur og því gaman að sjá hvað útkoman er mismunandi.

James Kaliardos er sá listamaður sem mér þótti mest spennandi að sjá útkomuna hjá því áherslan hjá honum hefur alltaf verið glæsileiki, að þú sért glæsilegasta útgáfan af sjálfum þér og hlutlausir litir hafa svolítið einkennt hans vinnu. Hann hefur áorkað ýmsu í gegnum tíðina og til dæmis þá hefur hann unnið mikið með Hillary Clinton, Julianne Moore, Miley Cyrus og Anne Hathaway.

Diane Kendal hefur einkennst af klæðilegum-glamúr og áherslan hjá henni í gegnum tíðina hefur verið á bronslituð augnlok og kinnar með sterkum litum. Hún hefur verið áberandi í förðunarheiminum í mörg ár og virðist hafa unnið fyrir flest stærstu merki heims í bæði í auglýsingaherferðum og á tískusýningum.

Kabuki er svo umtalsvert dramatískari og línan hans er litríkust. Hann leggur áherslu á að notendur línunnar prófi sig áfram og í viðtali við Bustle bendir hann á að ef þú setur blá-fjólubláa Dazzleshadow skuggann úr línunni hans yfir dekksta Retro Matte litinn úr línunni færðu út burgundy með bjölluáferð (þ.e. minnir á bjöllur). Kabuki segir að MAC hafi tekist að gera óskalistann hans að raunveruleika í þessari línu og ég verð að segja, óskalistinn hans höfðar ansi vel til mín.

Ég fékk 3 vörur úr línunni hans James og ég er bókstaflega og mjög eðlilega ástfangin. Fyrst ber að nefna augnskuggann en ég fékk Pressed Pigment í litnum Black Grape sem við höfum séð áður hjá MAC en James lýsir þessu sem demanta-“accent” fyrir augun því skugginn glitrar svo fallega á augunum. Ég verð að segja að ég er sammála honum og var reyndar mjög spennt fyrir þessu því hún Birna vinkona mín er mikill aðdáandi þessa skugga sem ég hafði aldrei komist í fyrr en nú. Hann er bara alltaf fallegur, sem augnskuggi, sem smáatriði í förðun, yfir varalit og svo framvegis. Ég elska fjólubláa skugga svo þetta var eiginlega “meant to be”.

Næsta vara sem ég vil sýna ykkur er Into the well augnskuggi í litnum Matte Galena sem er eyeliner í púðurformi sem má nota bæði blautan og þurran en það er dæld í miðjunni á skugganum sem hentar vel ef maður ákveður að bleyta skuggann. Það má auðvitað líka nota vöruna sem augnskugga og liturinn minn er svona grákaldblár. Hann blandast vel og er silkimjúkur en alveg mattur.

Síðasta varan er sú vara sem mér þótti mest spes en það er Strataglass glossið sem kallast Pyrite og er þriggja lita gloss. Glossið er semsagt í þremur lögum í glasinu, neðst er dökkbleikt gloss með satínáferð, miðjan er ljósbleik með gylltu glimmeri og efsta lagið er glært með gylltu glimmeri. Þetta blandast samt allt saman í fallegan lit á vörunum sem fer vel með flestum varalitum/blýöntum ef maður vill bæta við smá glimmeri/ljóma í förðunina. Mér finnst glossið mjög fallegt og þægilegt á vörunum því það gefur svolítinn raka (mér finnst það meira rakagefandi en t.d. Lipglass formúlan).

Þið getið kíkt í MAC verslanir og skoðað línuna og séð hvað gæti hentað ykkur!

Uppáhalds förðunarvörur fyrir varir 2016

Jæja jæja, síðasti kaflinn í þessum árslistum er kominn svo ég ætla bara að vinda mér í þetta. Þetta eru mínar uppáhalds varavörur fyrir árið 2016.

Vice varalitir frá Urban Decay, ég á 3 í nýju (núverandi) umbúðum og svo einn sem hélt áfram úr gömlu línunni, ég er búin að tjekka og hann hefur ekkert breyst þrátt fyrir formúlu og umbúðabreytingu. Þessir varalitir eru með formúlu sem er ofur-“pigmentuð” og þurrkar ekki varirnar. Það eru til allskonar áferðir og ótal litir og ég hlakka til að kaupa fleiri, ég renni hýru auga til möttu formúlunnar sem ég hef ekki prófað enn. Litur sem ég elska og mæli með að allir prófi er Rejected með Metallized áferð.

Lipglass frá MAC Cosmetics. Ég hef lengi verið aðdáandi og áhuginn var endurvakinn á þessu ári eftir að ég fann fyrsta glossið mitt aftur ofaní skúffu. Mér finnst Lipglass frábær formúla ásamt Dazzleglass sem ég er alltaf veik fyrir þegar að ég sé nýja liti í því. Formúlan er passlega létt, ekki of klístruð en ekki of fljótandi. Ég elska glimmerliti og var því mjög kát að skella Dreamlover úr Mariah Carey línunni hérna inn.

Rouge Pur Couture frá Yves Saint Laurent. Gullfallegir, rakagefandi og fallegir varalitir sem hefur verið hægt að fá merkta við sérstök tilefni. Það koma alltaf reglulega nýir litir og ég er alltaf fljót að skjótast út í búð að prófa að swatcha þá. Það er klassískur glamúr í þessum umbúðum og litirnir sem ég hef prófað eru langflestir klæðilegir og henta mörgum húðgerðum/litum/aldurshópum.

Nýjustu Lancôme varalitirnir, L’Absolu Rouge, sem eru einmitt að koma inn á bloggið mjög fljótlega. Lancôme endurbætti varalitaformúluna sína, umbúðirnar og jók litaúrvalið svo um munar á árinu 2016 undir listrænni stjórn Lisu Eldridge. Svo ég skemmi ekki komandi færslu ætla ég bara að segja að þið ættuð að kíkja á næsta sölustað og sjá einar sniðugustu varalitaumbúðir sem þið finnið.

Lancôme ratar aftur á listann með uppáhalds varaolíunni minni sem er Juicy Shaker. Cushion “ásetjari” sem gefur fullkomið magn af lit og olíu án þess að það sé allt útum allt. Allir litir ilma vel og eru með samsvarandi bragði, gljáinn á vörunum er klísturlaus og passlega mikill og Berry In Love er minn uppáhalds litur. Það er bæði hægt að nota Juicy Shaker einan og sér og með varalit.

Varaliturinn Faux frá MAC Cosmetics hefur verið í miklu uppáhaldi á árinu 2016 frá því ég keypti hann úti í Boston síðasta vor. Hann er hinn fullkomni bleik-nude varalitur fyrir mig og það besta er að það var ekki ég sem “fattaði” að hann væri til – ég var að kaupa einn fyrir vinkonu mína og ákvað að kaupa einn fyrir mig. Ég notaði hann sama dag og hef ekki gengið frá honum síðan.

Nýjung sem rataði á listann er Vinyl Cream Lip Stain frá Yves Saint Laurent sem kom á markað seint á síðasta ári. Ég er búin að vera á leiðinni að setja þá hingað inn alltof lengi, ég á tvo liti og ELSKA þá. Þetta er háglans varalitur án klísturs, með fáránlega mikinn lit, gefur mikinn raka og hentar mér vel. Það er auðvelt að setja formúluna á og hún endist vel. Þið sjáið þessa vöru á blogginu fljótlega.

Nú þegar að listarnir eru allir komnir inn þá munu “venjulegu” færslurnar fara að detta inn um allskonar vörur, eldri og nýrri. Ég hef verið að velta fyrir mér að bæta inn liðum hér á bloggið og ætla að liggja á því áfram en ég ætti að hafa meiri tíma á þessari önn til að skrifa og spjalla við ykkur.

Þar til næst,

Bestu andlitsförðunarvörur 2016

ÚFF! Ég skil ekki hvað tíminn líður hratt og því mikilvægt að drífa þessa árslista af svo við getum farið að byrja á einhverjum nýjum og ferskum umfjöllunum um nýjar, nýlegar og eldri vörur (því við erum auðvitað alltaf að kynna okkur eitthvað nýtt). Hér eru að mínu mati bestu andlitsförðunarvörur ársins 2016.

Við byrjum auðvitað á “all-time” uppáhalds farðanum mínum, Teint Miracle frá Lancôme sem ég var einmitt að kaupa nýtt eintak af. Hann er alltaf fullkominn, áferðin, þykktin, þekjan og bara allt. Það verður erfitt fyrir aðra farða að reyna að velta þessum úr sessi.
Shimmering Skin Perfector í vökvaformi frá Becca hefur ekki verið að fá næga ást hjá mér hérna á blogginu en ég elska að blanda þessum fljótandi highlighter við farða, nota hann undir farða sem og yfir hann fyrir smá auka, náttúrulegan ljóma. 
Touche Éclat penninn frá Yves Saint Laurent, gull-ljóma-penninn víðfrægi verður að sjálfsögðu að fá að vera með á listanum. Ég nota 2 liti af pennanum og eeeelska hvað þetta er góð formúla og gefur ljóma sem er svo fullkomlega eðilegur og maður virðist hafa sofið í 16 klst.
Le Cushion Encre De Peau farðinn frá Yves Saint Laurent er nýjung sem fór strax á listann um leið og ég prófaði hana í fyrsta skipti. Þetta er handhægasti “on-the-go” farði sem ég hef nokkurntíman prófað, þekjan er góð og hann helst vel á. Umbúðirnar eru líka gullfallegar (bókstaflega).
Les Sahariennes Bronzing Stones frá YSL er uppáhalds sólarpúðrið mitt. Það er í nokkrum litum, ég á þann ljósasta og get gluðað því framan í mig alveg að vild. Púðrið er eitt það fínmalaðasta sem ég hef prófað og það er örfín sansering í mínum lit. Það er bara ekki hægt að klúðra förðuninni með þessu sólarpúðri.
RCMA No-Color Powder er alveg litlaust, hræódýrt púður sem allir geta notað (ég borgaði 9 dollara í USA). Það er einn ókostur og það er að umbúðirnar henta manni ekkert sérstaklega vel dagsdaglega svo mér finnst alltaf eitthvað fara til spillis, ekki það að ég kvarti þegar að einn dunkur er 3oz. Ég sá að RCMA var að vara við fölsuðum púðrum í umferð svo ég mæli ekki með að rjúka til á Ebay eða Aliexpress að versla púður (ekki versla snyrtivörur á Aliexpress, ever! alveg bannað!)
Lancôme Effacernes hyljarinn, vatnsheldur, táraheldur, hylur allt og maður þarf svo pínulitla bólu af hyljara til að hylja verstu bauga/bólur/allskonar. Mér finnst hann líka mjög þægilegur til að setja í kringum varirnar, bæði til að “eyða” útlínunum og vera smá grunnur undir varablýant/lit og svo til að lagfæra línu sem er ekki alveg nógu skörp.
Urban Decay Naked Skin farði og hyljari, skothelt kombó. Báðar vörur innihalda efni sem hafa jákvæð áhrif á húðina, þekjan er góð, áferðin er frábær og ég bara get ekki mælt nógu mikið með þeim.
theBalm Mary-Lou Manizer er “my girl”. Þessi highlighter er minn uppáhalds, fínmalaður og með hinn fullkomna lit fyrir mína hálfglæru hvítu húð. Það þarf að fara varlega svo maður blindi fólk ekki í réttri lýsingu en þetta er einn af fáum highlighterum sem er bara sanseraður en ekki með neinu glimmeri.
MAC kinnalitir og þá sérstaklega bleiki kinnaliturinn úr samstarfslínu Mariah Carey og MAC sem kom mér ótrúlega á óvart og ég nota hann vandræðalega mikið. Ég mæli líka með kremkinnalitunum eins og t.d. Posey sem ég keypti í vor, mér finnst hann snilld!

Eins og ég hef sagt milljón og þrisvar gleymdi ég örugglega helling svo þið verðið bara að fyrirgefa það. Síðasti hlutinn er tilbúinn en það eru vörur fyrir varir sem stóðu uppúr á árinu 2016. Fylgist með honum og svo getum við farið að spjalla um meira sniðugt því það lítur út fyrir að ég muni að öllum líkindum (nú jinxa ég þetta) hafa tíma til að skrifa meira og sýna ykkur meira. Þið getið fylgst með mér á snapchat undir notandanafninu thorunns þar sem ég segi ykkur stundum frá einhverju sniðugu þegar að ég er í stuði og ef þið viljið sjá eitthvað sérstakt eða mynduð vilja lesa eitthvað sérstakt þá hafið þið bara samband við mig hér, á facebook, snapchat eða í tölvupósti.

Þar til næst,