I’M BACK – DRAUMUR FRÁ GLAMGLOW

Varan sem fjallað er um var send greinarhöfundi sem gjöf en skrif höfundar endurspegla einungis heiðarlegt og hreinskilið álit hans á vörunni

Halló halló! Ég er snúin aftur á bloggið og hyggst vera hér áfram eftir svolitla fjarveru sem ég segi ykkur kannski eitthvað frá seinna. Ég er hingað komin í dag til að segja ykkur frá nýrri vöru frá Glamglow sem ég er búin að vera að prófa síðastliðinn mánuð en hún kallast Dreamduo og er tveggja fasa meðferð (treatment) til notkunar á kvöldin.

Meðferðin hentar öllum húðgerðum og gefur húðinni mikinn raka og næringu sem skilar sér í meiri ljóma, fallegri áferð og raka. Fyrri hlutinn er Dreamserum sem er hvíta/perlulitaða kremið en það er serum sem bráðnar inn í húðina og inniheldur meðal annars grænt kaffi Teaoxi sambandið sem unnið er úr grænum telaufum. Serumið er ríkt af andoxunarefnum og vítamínum sem eiga að bæta bæði ástand og ásýnd húðarinnar.
Seinni hlutinn er Dreamseal sem er gráa kremið. Það inniheldur hyaluronic sýru og Mozuku græna þörunga sem gefa húðinni raka og auka ljóma. Saman eiga fasarnir tveir að bæta húðina og draga úr þreytumerkjum (ég er búin að vera svo þreytt síðustu mánuði að þetta var gríðarlega vel þegið).

Fyrst af öllu vil ég segja að mér finnst lyktin af kremunum ótrúlega góð og hún minnir mig á nammi eða frostpinna en hún hverfur þó frekar fljótt eftir ásetningu svo maður geti hreinlega sofnað. Mér finnst ég ekki nota mjög mikið í hvert skipti af vöru svo ég get sagt að krukkan er ansi drjúg en það er auðvelt að dreifa úr kremunum á húðinni og það smýgur hratt inn án þess að skilja eftir filmu. Meðferðin (kremin) er notuð fyrir svefn og ég þvæ húðina og nota tóner áður en ég set hana á og ég sá mun sjálf eftir eina notkun, húðin var strax full af raka og áferðin var gullfalleg og það hefur haldist yfir notkunartímann (ég hef þó einasta sinnum gleymt mér á kvöldin). Kremin innihalda örfínar ljómaagnir sem sitja á yfirborði húðarinnar eftir ásetningu svo það er kannski helsti ókosturinn að maður glitrar kannski smá een persónulega finnst mér aldrei verra að glitra.

Ég fékk þessa krukku að gjöf og get vel séð fyrir mér að kaupa mér aðra þegar að ég klára þar sem mér finnst Dreamduo koma í stað hefðbundins næturkrems hjá mér. Mér finnst áferð húðarinnar mun fallegri, ég nota minni farða og hann endist betur yfir daginn því ég næ ekki að verða of þurr. Á sama tíma og þessi dásemd kom í verslanir komu líka rakakrem með ljóma sem ég skellti á óskalistann eftir heimsókn í Hagkaup þar sem ég eyddi vandræðalega löngum tíma að skoða standinn. Ég mæli allavega sjálf með Dreamduo og sé fyrir mér að kaupa aðra krukku ef ég næ einhverntíman að klára þessa!

Þar til næst,
Þórunn

P.S. Ég skal reyna að skella í smá persónulega færslu á næstunni að segja ykkur frá því sem hefur á daga mína drifið síðustu mánuði þar sem ég hef ekkert náð að skrifa (nema örbloggin á instagram/like síðunni fyrir bloggið). Takk fyrir að vera alltaf svona yndislegir lesendur og ég hlakka til að vera með ykkur áfram!

Hinn goðsagnakenndi gullpenni YSL

IMG_7083

Ein frægasta förðunarvara í heimi er gullpenninn, Touche Éclat, frá Yves Saint Laurent. Það hafa örugglega flestar konur heyrt um hann á einhverjum tímapunkti. Penninn kom á markað árið 1991 og hefur haldið vinsældum sínum í 24 ár, fyrst um sinn voru fáir litir í boði en þeim er alltaf að fjölga og núna nýlega komu út nokkrir nýjir litir svo flestir ættu að finna lit við sitt hæfi því nú eru litirnir 12.

b

Útgáfa Touche Éclat var byltingarkennd, gullpennanum var ætlað að gefa húðinni ljóma og birtu. Farðar og hyljarar þessa tíma voru hnausþykkir og mattir og því gaf penninn samstundis ljóma, þökk sé lita-pigmentunum í formúlunni sem endurspegluðu ljósinu sem féll á þau (fínar línur, baugar og önnur þreytumerki hverfa með aðstoð þessarra lita-pigmenta). Með einu klikki hurfu baugar, kinnbein urðu áberandi og förðunin umtalsvert fallegri en áður og því sló gullpenninn í gegn. Förðunarfræðingar og konur um allan heim tóku pennanum fagnandi og í dag selst einn penni á hverjum tíu sekúndum samkvæmt Yves Saint Laurent.

Ég var frekar sein að taka við mér, ég kynntist ekki gullpennanum fyrr en seinasta vetur og dauðsá eftir að hafa ekki prófað hann fyrr. Ástrós hjá YSL á Íslandi var svo yndisleg að gefa mér penna í lit 2 sem er hinn fullkomni “highlight” litur fyrir mig, aðeins ljósari en minn húðlitur svo ég féll samstundis fyrir honum. Hann gerir augun bjartari og opnari og kinnbeinin verða umtalsvert fallegri. Ég hef notað pennann minn óspart og hann er enn að gefa mér fullkomna áferð í hverjum smelli.
Ég var reyndar líka svo heppin um daginn að hún Ástrós gaf mér annan penna, nú var það litur 2.5 sem er aðeins öðruvísi en sá fyrri. Litur 2.5 er glænýr og er nákvæmlega minn húðlitur, ég nota hann mjög mikið bæði einan og sér eða í bland við lit 2. Liturinn 2.5 er fullkominn fyrir mig til að jafna út litaójöfnurnar í andlitinu (ég fæ dökk ör og er með rauðar doppur reglulega í fésinu) og gefa létta hulu (Touche Éclat er ekki hyljari). Ég er mjög ánægð með Touche Éclat og kem til með að kaupa hann örugglega það sem eftir er, að virðast úthvíld á ömurlegum og þreyttum dögum er algjör draumur.

IMG_7087

Ég gef Touche Éclat toppeinkunn (annars færi ég ekki að kaupa hann aftur) og hvet ykkur allar til að kynna ykkur gullpennan víðfræga á sölustöðum YSL. Einhverjum gæti fundist gullpenninn vera algjör óþarfi en að mínu mati er hann frábær viðbót og einföld leið til að gera fallega förðun enn fallegri.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem er fjallað um í þessari grein voru sendar sem sýnishorn, greinin endurspeglar samt sem áður hreinskilið álit greinarhöfundar á vörunum.

Teint Miracle ofurfarði frá Lancôme

IMG_5869

 

Ég er búin að liggja á þessarri snilld í frekar langan tíma og hef dregið í allt of langan tíma að setja Teint Miracle frá Lancôme á bloggið. Núna þegar að það eru Tax-Free dagar í Hagkaup og afsláttardagar í Debenhams er fullkominn tími til að segja ykkur frá þessum farða sem er einn af mínum uppáhalds.

Teint Miracle er ekki nýr af nálinni en hann er einn sá allra vinsælasti í heiminum í dag. Hann fullkomnar áferð húðarinnar og Aura-Inside™ tæknin frá Lancôme gefur húðinni ljóma. Formúlan er olíulaus, lyktarlaus og hefur sólarvarnarstuðulinn SPF 15. Formúlan gefur raka, róar húðina með rósaextrakti og hefur meðalþekju með náttúrulegri áferð.

Ég fell fyrir nánast hverri einustu vöru sem ég prófa frá Lancôme og Teint Miracle var engin undantekning. Ég nota (að ég held) ljósasta litinn sem er í boði en hann er númer X og fellur óaðfinnanlega að mínum ótrúlega hvíta og föla húðlit og gefur húðinni fullkomna áferð. Það er auðvelt að stýra þekjunni, ég nota eina pumpu fyrir meðalþekju og eina og hálfa fyrir mikla þekju, burstarnir sem ég nota helst í farðann eru Expert Face Brush frá Real Techniques og F80 burstann frá Sigma en báðir virka eins og strokleður með Teint Miracle.
Hún Kristjana vinkona mín, National Makeup Artist Lancôme á Íslandi, segist nota farðann óspart í farðanir fyrir myndatökur og hún fær alltaf fyrirspurnir hvað hún noti því það þurfi lítið sem ekkert að vinna myndirnar. Það eitt og sér ætti að vera meðmæli í lagi.

Sérfræðingar Lancôme á Íslandi standa að venju vaktina á tilboðsdögum eins og Tax-Free í Hagkaup og afsláttardögum í Debenhams og þær geta svarað öllum spurningum ykkar og ráðlagt hvaða vörur henti ykkur. Ég mæli með að sem flestir geri sér ferð og finni sinn lit af Teint Miracle og kippi kannski með kinnalit (Blush Subtil er mögnuð formúla), maskara (Hypnôse maskararnir eru heimsfrægir) eða öðrum gæðavörum frá Lancôme í leiðinni.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem er fjallað um í þessari grein voru sendar sem sýnishorn, greinin endurspeglar samt sem áður hreinskilið álit greinarhöfundar á vörunum.

Helena Rubinstein – Magic Concealer (uppfært)

IMG_3039

Ég ákvað að uppfæra eldri grein með nýjum myndum þar sem ég er alveg að komast upp á lagið með myndatökurnar.

Magic Concealer er hálfgerð “holy-grail” vara sem hægt er að finna endalaust magn af umfjöllunum um, lang lang lang lang flestar eru jákvæðar. Hyljarinn er ætlaður á svæðið undir og í kringum augun þar sem hann á að birta yfir svæðinu og róa húðina undir augunum og minnka þrútna poka undir augunum og honum er ætlað að haldast á allan daginn án þess að setjast í línur eða þorna upp eins og svo margir aðrir gera.
Til þess að róa húðina inniheldur hyljarinn kamilluextrakt og til að gefa ljóma og birta yfir augnsvæðinu inniheldur hyljarinn örfínar perluagnir sem endurkasta ljósi og fela bauga undir augunum enn betur.

IMG_3043

Allt hljómaði þetta rosalega vel þegar að ég var að kynna mér hyljarann en öllum yfirlýsingum var tekið með fyrirvara, stundum eiga snyrtivöruframleiðendur það til að koma með yfirlýsingar sem eiga sér svo ekki stoð í raunveruleikanum, svo var alls ekki með þessa vöru sem gladdi mig mikið.
Stundum á ég það til að vera rosalega þrútin í kringum augun, sérstaklega þegar að ég sef ekki nóg (ég gleymi mér stundum í Netflix glápi á kvöldin).
Dagurinn sem ég fékk Magic Concealer var einmitt einn af þessum dögum, ég prófaði strax að setja hann á og sá að þrotinn minnkaði sjáanlega innan 5 mínútna frá ásetningu svo ég varð strax mjög kát með árangurinn en samt hrædd um að hann myndi setjast í línur og þorna yfir daginn og verða eins og svo margir aðrir hyljarar sem ég hef prófað.
Liturinn sem ég nota er í litnum light og er sá ljósasti sem boðið er upp á, hann er mjög ljós þegar að maður setur hann fyrst á en verður mjög eðlilegur strax og dreift er úr honum en áferðin er mjög létt og maður þarf ekki nema pínulítið, mikið minna en er á handarbakinu mínu á myndinni hér fyrir neðan. Mér finnst best að bera hann á með bursta númer 287 frá MAC því hann hefur tvær mismunandi tegundir af hárum og auðvelt að “buffa” formúluna inn en það er samt mjög þægilegt og auðvelt að nota fingurna því formúlan er svo létt (hyljarinn er í túpu, hreinlegt og auðvelt að skammta sér passlegt magn).

IMG_1155

Eitt sem ég vil skjóta inn í núna er að ég er mjög löt við að kíkja í spegil og fríska upp á útlitið yfir daginn, ég vil getað málað mig að morgni og að það sé enn fullkomið allavegana þegar að ég kem heim úr vinnunni uppúr klukkan 6 ef ekki lengur, helst vil ég ekki einu sinni þurfa að bæta á varalit eða gloss en ég er raunsæ og veit að formúlurnar eru mjög misjafnar þegar að kemur að endingu svo ég læt mig hafa það en húðina vil ég hafa fullkomna allan daginn.

Aftur að hyljaranum, þegar að ég fór að þvo mér í framan eftir daginn tók ég eftir því að hyljarinn var enn á, ég hafði alveg gleymt því að ég væri með hann á mér en hann var ennþá nákvæmlega eins og þegar að ég setti hann á, hafði ekkert þornað og hafði enn fullkomna þekju sem var skemmtilega óvænt. Ég ákvað að halda prófinu samt áfram, hann skilaði alltaf sömu niðurstöðu svo ég ákvað að leggja fyrir hann það próf að fljúga með hann sem venjulega gengur ekki upp með neina snyrtivöru á andlitinu mínu. Við komu á hótelið í Orlando, eftir 7 tíma flug, allskyns flugvallarbið bæði heima og úti og klukkutíma akstur í fáránlegum raka var allt enn á sínum stað, ekkert runnið í línur og húðin undir augunum þrotalaus og mjúk (venjulega er hún mjög þurr eftir svona vesen) og þess vegna get ég gefið Magic Concealer toppeinkunn og sagt að þegar að þessi klárast kaupi ég nýjan.
Ég myndi mæla með honum fyrir konur á öllum aldri sem vilja ljóma, passlega þekju og að þurfa ekki að bæta á hyljara yfir daginn.

Á höfuðborgarsvæðinu fást vörur frá Helena Rubinstein í; Hagkaup í Kringlunni, Smáralind, Holtagörðum og Garðatorgi, Lyfjum og Heilsu Kringlunni, Debenhams í Smáralind og Snyrtivöruversluninni Glæsibæ. Hægt er að fylgjast með Helena Rubinstein á Íslandi á facebookþar sem dömurnar setja inn nýjungar og allskyns upplýsingar.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem er fjallað um í þessari grein voru sendar sem sýnishorn, greinin endurspeglar samt sem áður hreinskilið álit greinarhöfundar á vörunum.

Yves Saint Laurent – Le Teint Touche Éclat

IMG_2603

Ég var búin að lofa sjálfri mér að kaupa ekki þennan farða, ég ætti nóg af allskyns förðum í skúffunum heima en þegar að það var Tax-Free í Hagkaup um daginn réði ég ekki við mig og keypti mér eitt stykki. Hún Ástrós hjá YSL á Íslandi hjálpaði mér að finna rétta litinn og liturinn sem ég nota heitir BD20 og er með gulum unditón. Ég er búin að nota farðann mikið og vildi ekki gefa ykkur review fyrr en ég væri 100% búin að mynda mér skoðun.

IMG_2604

Farðinn er byggður á gullpennanum frá YSL, ég er ekki svo heppin að eiga einn svo ég get ekki sýnt ykkur pennan sjálfan en hann er einn frægasti hyljari/highlight penni í heimi. Penninn er frægur fyrir ljóma formúlunnar og því fannst snillingunum hjá YSL kjörið að búa til farða með sömu eiginleika, sérstaklega nú þegar að falleg og ljómandi húð er aðalmálið. Tæknin bakvið formúluna er mjög áhugaverð, í flestum förðum eru ógegnsæ uppfylliefni sem geta verið frábær en geta líka verið stór mistök, í Teint Touche Éclat farðanum er svokallað “soft focus gel” sem blörrar misfellur í húðinni svo það má eiginlega segja að farðinn sé instant Photoshop í flösku.

Þekja farðans er létt til miðlungsþekja en það er auðvelt að setja bara aðeins meira þar sem maður þarf það en ég hef svosem ekki tekið eftir því á mér að ég þurfi meiri þekju þótt ég sé með misfellur í andlitinu. Ef baugarnir fara í taugarnar á mér nota ég oftast bara Magic Concealer frá Helena Rubinstein og finnst ég fullkomin. Ég næ alltaf að minnsta kosti 12 klukkutímum af notkun án þess að þurfa að laga nokkuð en finnst auðvelt að fríska uppá farðann bara með Fix+ spreyi því húðin mín er mjög þurr og gerir marga farða frekar skrýtna til lengri tíma. Þegar að ég er búin að spreyja yfir finnst mér gott að strjúka með bursta yfir andlitið og þá er farðinn alveg eins og nýr.
Áferðin þegar að búið er að bera farðann á er mjög falleg, hún minnir svolítið á silki því húðin ljómar án þess að glitra og verður strax mjög frískleg og liturinn jafn. Mér finnst best að bera hann á með Expert Face Brush eða svampinum frá Real Techniques en bursti númer 130 frá MAC hentar líka ágætlega (ég nota sjaldnast hendur í farðaásetningu) en þegar að ég hef ótakmarkaðan tíma til að dúlla mér fyrir framan spegilinn nota ég stundum bursta númer 286 frá MAC sem er mjög lítill Duo-fiber bursti sem gefur fallega áferð en krefst meiri vinnu en ásetning með Real Techniques. Kannski er frábært að nota YSL bursta í farðann en ég á bara engan bursta frá merkinu svo ég get ekki sagt til um það.

Flaskan er í mjög klassískum YSL stíl, gyllt smáatriði á annars einföldum umbúðum. Flaskan kemur með pumpu sem er alltaf mikill kostur svo maður noti passlegt magn af farða í andlitið og einnig af hreinlætisástæðum, það komast færri sýklar ofaní í gegnum pumpuna heldur en ef flaskan myndi opnast alveg. Ég finn enga lykt af formúlunni, ef það er einhver er hún allavega mjög lítið áberandi. Þessi farði er líklega sá eini sem ég set aldrei ofaní skúffu, bara því mér finnst svo gaman að horfa á hann.

[twentytwenty]IMG_2611 IMG_2610[/twentytwenty]

[twentytwenty]IMG_2614 IMG_2613[/twentytwenty]
Ég gef þessum farða fullt hús stiga en ég nota hann oftast meira spari heldur en aðra farða þar sem mér finnst hann eiginlega bara svo fallegur. Ég vil endilega mæla með honum fyrir konur á öllum aldri, hann hentar flestum húðgerðum og mér persónulega finnst hann æðislega fallegur á húð sem er farin að eldast örlítið því hún er oft farin að missa ljómann svolítið en þetta reddar því og gott betur! Farðinn hefur sólarvarnarstuðulinn SPF 19 sem er náttúrulega bara snilld, sólarvörn er af hinu góða svo maður haldi í æskuljómann aðeins lengur og líka því húðkrabbamein er ekkert til að grínast með.

Hann fæst á öllum sölustöðum YSL á Íslandi og kostar 7759 krónur í Hagkaupum seinast þegar að ég athugaði sem er að mínu mati ekki mikið fyrir farða í þessum gæðaflokki.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem fjallað er um í þessarri grein voru keyptar af greinarhöfundi eða aðilum tengdum honum. Greinin endurspeglar hreinskilið álit greinarhöfundar á vörum.