I’M BACK – DRAUMUR FRÁ GLAMGLOW

Varan sem fjallað er um var send greinarhöfundi sem gjöf en skrif höfundar endurspegla einungis heiðarlegt og hreinskilið álit hans á vörunni

Halló halló! Ég er snúin aftur á bloggið og hyggst vera hér áfram eftir svolitla fjarveru sem ég segi ykkur kannski eitthvað frá seinna. Ég er hingað komin í dag til að segja ykkur frá nýrri vöru frá Glamglow sem ég er búin að vera að prófa síðastliðinn mánuð en hún kallast Dreamduo og er tveggja fasa meðferð (treatment) til notkunar á kvöldin.

Meðferðin hentar öllum húðgerðum og gefur húðinni mikinn raka og næringu sem skilar sér í meiri ljóma, fallegri áferð og raka. Fyrri hlutinn er Dreamserum sem er hvíta/perlulitaða kremið en það er serum sem bráðnar inn í húðina og inniheldur meðal annars grænt kaffi Teaoxi sambandið sem unnið er úr grænum telaufum. Serumið er ríkt af andoxunarefnum og vítamínum sem eiga að bæta bæði ástand og ásýnd húðarinnar.
Seinni hlutinn er Dreamseal sem er gráa kremið. Það inniheldur hyaluronic sýru og Mozuku græna þörunga sem gefa húðinni raka og auka ljóma. Saman eiga fasarnir tveir að bæta húðina og draga úr þreytumerkjum (ég er búin að vera svo þreytt síðustu mánuði að þetta var gríðarlega vel þegið).

Fyrst af öllu vil ég segja að mér finnst lyktin af kremunum ótrúlega góð og hún minnir mig á nammi eða frostpinna en hún hverfur þó frekar fljótt eftir ásetningu svo maður geti hreinlega sofnað. Mér finnst ég ekki nota mjög mikið í hvert skipti af vöru svo ég get sagt að krukkan er ansi drjúg en það er auðvelt að dreifa úr kremunum á húðinni og það smýgur hratt inn án þess að skilja eftir filmu. Meðferðin (kremin) er notuð fyrir svefn og ég þvæ húðina og nota tóner áður en ég set hana á og ég sá mun sjálf eftir eina notkun, húðin var strax full af raka og áferðin var gullfalleg og það hefur haldist yfir notkunartímann (ég hef þó einasta sinnum gleymt mér á kvöldin). Kremin innihalda örfínar ljómaagnir sem sitja á yfirborði húðarinnar eftir ásetningu svo það er kannski helsti ókosturinn að maður glitrar kannski smá een persónulega finnst mér aldrei verra að glitra.

Ég fékk þessa krukku að gjöf og get vel séð fyrir mér að kaupa mér aðra þegar að ég klára þar sem mér finnst Dreamduo koma í stað hefðbundins næturkrems hjá mér. Mér finnst áferð húðarinnar mun fallegri, ég nota minni farða og hann endist betur yfir daginn því ég næ ekki að verða of þurr. Á sama tíma og þessi dásemd kom í verslanir komu líka rakakrem með ljóma sem ég skellti á óskalistann eftir heimsókn í Hagkaup þar sem ég eyddi vandræðalega löngum tíma að skoða standinn. Ég mæli allavega sjálf með Dreamduo og sé fyrir mér að kaupa aðra krukku ef ég næ einhverntíman að klára þessa!

Þar til næst,
Þórunn

P.S. Ég skal reyna að skella í smá persónulega færslu á næstunni að segja ykkur frá því sem hefur á daga mína drifið síðustu mánuði þar sem ég hef ekkert náð að skrifa (nema örbloggin á instagram/like síðunni fyrir bloggið). Takk fyrir að vera alltaf svona yndislegir lesendur og ég hlakka til að vera með ykkur áfram!

Uppáhalds húðvörurnar 2016

Fyrsta færsla um bestu vörur er loksins komin inn. Hér tók ég saman þær húðvörur sem mér fannst standa upp úr á síðasta ári, ég gleymdi örugglega helling en það verður að hafa það. Ég ætla ekki að hafa þetta flókið heldur segja ykkur bara hvaða vörur voru á mínum topplista og kannski smá um þær (eftirá tek ég eftir að 2016 virðist hafa verið ár maskana, ég tók einhverja maska út því þetta var orðið fullmikið).

Origins Clear Improvement kolamaskinn sló í gegn hjá mér við fyrstu prufu en ég keypti mér hann í vor. Hann hreinsar húðina vel án þess að erta hana.

Lancome Bi-Facil augnfarðahreinsirinn. Hann er alltaf minn uppáhalds og ég hef ekki fundið neinn sem getur komið í staðinn fyrir hann hjá mér. Hann er tvískiptur og nær öllu af ásamt því að næra augnsvæðið.

Ultra Repair Cream frá First Aid Beauty er öflugt rakakrem sem hjálpar húðinni að vinna bug á þurrkablettum. Ég fékk túpu af því í Sephora í vor og finnst það ótrúlega þægilegt, ég nota það oftast á hné og olnboga en stundum í andlitið líka.

Skyn Iceland augngelpúðar verða að fá að vera á listanum en ég elska hvað þeir gera húðina frísklega og bjarga manni á þreyttum dögum og í miklu stressi. Ég spændi í gegnum einn stóran poka í prófatímabilinu og vil meina að það hafi hjálpað mér alveg heilan helling í að líða betur með sjálfa mig, ég hef nefnilega sjaldan litið eins illa út og núna í desember 2016 þar sem ég var alltof stressuð, þreytt og ef ég var ekki að læra eða í prófi var ég í vinnunni. Púðarnir voru kærkomin kælipása þar sem ég gat slakað á.

Yves Saint Laurent Lip Perfector er ný vara sem ég varð að setja á listann. Þetta er semsagt varasalvi  sem smýgur djúpt inn í varirnar og gefur þeim raka ásamt því “exfoliate”-a létt svo það sé ekki skorpa á vörunum. Mér finnst hann svo þægilegur undir varaliti því varirnar verða svo fullkomnar.

Skindinavia Makeup Primer Spray fannst mér eiga að vera í þessum flokki en þetta er besti primer sem ég hef prófað. Það er öll farðaásetning mikið auðveldari og fallegri ef maður undirbýr húðina með þessu spreyi. Sílíkonprimerar vilja oft þurrka húðina mína og því finnst mér þetta þægilegur og fljótlegur valkostur.

Lancome Énergie de Vie línan fær öll að rata hingað inn en þó sérstaklega raka”kremið” og maskinn. Ég elska hvað rakakremið er þægilegt og að það megi fara á augnsvæðið, það gefur passlegan raka og hann helst vel í. Maskinn er síðan bara einn besti rakamaski sem ég hef átt og við Alexander notum hann bæði reglulega.

Glamglow Powermud er ofurhreinsimaski sem er ein skrýtnasta vara sem ég hef átt. Maskinn er ískaldur á húðinni, fer á sem ljósgrágrænn leirmaski og verður svo að einhverskonar olíu þegar að maður bleytir hann þegar að hann er tekinn af. Hann hreinsar djúpt en gefur húðinni mikinn raka, lyktin er líka draumur.

Origins GinZing rakakremið er létt og með bestu lykt sem ég hef fundið af rakakremi. Elska það á dögum þar sem húðin er ekki mjög þurr (mín tekur tímabil). Lyktin hressir mann og kremið gefur húðinni smá líf.

Skyn Iceland Pure Cloud Cleanser er kremhreinsir sem er gríðarlega mildur en hreinsar húðina vel án þess að þurrka hana. Mér finnst hann svo þægilegur að hann varð að fá að vera með, það er svo þægilegt að húðin sé ekki stíf eftir hreinsun.

Biotherm Total Renew Oil frá Biotherm er uppáhaldið mitt þegar að ég kem heim eftir langan dag eða ef ég hef verið mikið förðuð en þetta er olía sem leysir upp farða og gefur húðinni raka og næringu en þegar að hún kemst í snertingu við vatn freyðir hún til að hreinsa enn dýpra. Ég nudda einni til einni og hálfri pumpu yfir allt andlitið og nudda vel, bleyti svo og þríf af með þvottapoka og húðin er tandurhrein.

Þá er ég búin að telja upp mínar uppáhalds húðvörur fyrir árið 2016. Næsta færsla er um uppáhalds augnfarðavörur svo stay tuned!

Húðhreinsun með Luna frá Foreo!

foreo1ég keypti vöruna sjálf – umfjöllunin er ekki kostuð

Þið eruð búin að biðja um umfjöllun um Luna frá Foreo í alltof langan tíma og þetta er búið að vera alltof lengi á leiðinni hingað inn. Fyrir þá sem nenna ekki að lesa lengra (þetta verður langt!!) þá er þetta besta húðhreinsigræja sem ég hef prófað á ævinni!

Í lok sumars keypti ég mér Luna frá Foreo í Sephora í Frakklandi. Ég var búin að vera að skoða það í Douglas í Þýskalandi (þar sem það var ódýrara) en ég átti 25% afsláttarmiða í Sephora í Frakklandi og ákvað að stökkva á þetta þar. Alexander var ekkert rosalega kátur að heyra að ég hefði eytt yfir 100 evrum í eitthvað til að þvo mér í framan en hann var fljótur að fyrirgefa þegar að hann sá muninn á húðinni þegar að ég kom heim.

Luna er húðhreinsitæki, það kemur Sensitive/Normal, Combination og svo Ultra Sensitive útgáfum og ég keypti mér Sensitive/Normal. Allar útgáfurnar eru eins í grunninn en sílíkonið utaná er með mismunandi munstri sem henta mismunandi húðgerðum. Luna notar svokallaða T-Sonic™ tækni (8000 púlsar á mínútu) til að djúphreinsa húðina og samkvæmt framleiðanda á Luna að ná 99,5% óhreininda úr húðinni og mín reynsla er sú að Luna nær óhreinindum sem ekkert annað hefur náð úr húðinni. Ég hef haldið að húðin sé tandurhrein en ákveðið að renna yfir með góðum hreinsi og Luna og það kemur meira ógeð uppúr húðinni. Það eru mismunandi hraðastillingar á tækinu og maður skiptir milli þeirra með plús og mínus tökkunum, ég nenni eiginlega ekki að standa upp til að tjekka hvað þær eru margar en ég held ég noti 3 öflugustu stillinguna núna en ég byrjaði í mjög lágri stillingu. Sílíkonnabbarnir á tækinu hreinsa vel án þess að erta húðina, ég er með viðkvæma húð sem þolir t.d. illa bursta með hárum en ég hef aldrei fundið fyrir ertingu við notkun á Luna.

foreo

Notkunin er einföld, maður bleytir andlitið og setur hreinsinn á. Bleytir svo græjuna og kveikir á, gæti ekki verið einfaldara. Hreinsiprógrammið á tækinu tekur 1 mínútu og tækið leiðir mann áfram í ferlinu en þegar að maður er búinn að hreinsa tekur við Anti-aging nuddprógramm sem tekur 1 mínútu líka. Maður getur notað tækið lengur en í mínútu en það stoppar mann af eftir 3 mínútur held ég. Ég elska nuddprógrammið en þá leggur maður tækið á nokkra punkta þar sem maður fær álagshrukkur (milli augabrúnanna, við nefið og augun báðu megin) og þetta hjálpar vöðvunum að slaka aðeins á. Foreo lofar því að maður sjái mun eftir 3 daga af notkun bæði kvölds og morgna og ég trúði því nú eiginlega ekki fyrst en eftir að hafa verið samviskusöm og hreinsað með tækinu tvisvar á dag þá fór ég að sjá mun. Húðin var fallegri á litinn, húðliturinn jafnari og húðin ljómaði meira en áður. Ég verð því að segja að Luna stóðst væntingarnar 100% og jafnvel meira, tækið nær að losa dauðu húðina af og þið getið virkilega séð mun þegar að ég hætti að nenna að þvo mér.

Ég keypti fyrstu Luna en núna er komin Luna 2.0, ég get ekki réttlætt að kaupa mér nýja og ég sé eiginlega ekki tilgang í því þegar að þessi þjónar mér fullkomlega. Ég er ekki enn búin að þurfa að hlaða tækið eftir kaupin en Luna er semsagt endurhlaðanleg græja sem kemur með USB snúru til að hlaða í pakkanum. Ég reikna samt með að þurfa að hlaða tækið á næstunni því núna er ég búin að eiga það í meira en hálft ár! Það þarf ekki að skipta um neitt eins og þarf að gera með aðra húðhreinsibursta en flestir framleiðendur mæla með að skipta á 3 mánaða fresti, Luna á bara að þvo með heitu vatni og sápu (eða setja í uppþvottavélina, maður má það víst ef maður hendir þessu ekki beint á suðu). Luna er alveg vatnsheld og má fara með í sturtu, sílíkonið utanum er mjög vandað og safnar ekki í sig bakteríum.
Mér finnst það mikill kostur að Luna sé svona einföld og þægileg því mér finnst það bæði dýrt og umhverfissóðaskapur að henda plastbursta svona oft.

Ég mæli 100000000000% með Luna fyrir alla sem vilja fallegri húð. Það er líka til týpa fyrir karlmenn sem mig dauðlangar að kaupa fyrir Alexander (hann fær ekki að nota mitt). Þið fáið Luna útum allt í Evrópu í betri verslunum, þið fáið Luna í Sephora í Bandaríkjunum og svo auðvitað á heimasíðu Foreo. Ég mæli með að þið kynnið ykkur valmöguleikana því það eru líka til Luna Mini sem eru miniútgáfur (ekki það að hin sé stór).

Sorrý hvað þetta er langt hjá mér! Það var alveg óvart!
Þar til næst,
Þórunn

Beauty Flash Balm frá Clarins

gBeauty Flash Balm frá Clarins er falið leyndarmál sem leynist í hillum verslana, ég vissi ekki af því fyrr en yndisleg kona gaf mér túpu af kreminu og lofaði því að húðin yrði mikið fallegri og líflegri. Ég tók það loforð ekki alvarlega en var samt spennt að prófa (svo spennt að ég fór heim og prófaði kremið á andlitinu, hálsinum og bringunni, mikilvægustu staðina fyrir húðvörur).

Beauty Flash Balm er ein af stjörnuvörum Clarins og mjög vinsælt krem sem gefur húðinni útgeislun – samstundis. Kremið er fullkomið fyrir þreytta, stressaða eða þurra húð sem þarfnast smá ástar og umhyggju. Kreminu er ætlað að næra húðina, gefa henni fullkomna áferð og stroka út þreytumerkin sem sjást strax á húðinni. Ólífu- og nornaheslisextraktar blandast saman og hjálpa til við að slétta yfirborð húðarinnar og þar með gera hrukkur og fínar línur minna áberandi. Bisabolol gefur húðinni ljóma og útkoman er fullkomin húð sem er auðvelt að farða á fallegan hátt.

Núna er ég búin að nota kremið í langan tíma, ég tek stundum pásur en enda alltaf á að fara aftur í BFB (það er mjög þægilegt að skammstafa svona nöfn) því það er svo auðvelt að nota það og mér finnst það henta vel til að fríska aðeins upp á húðina. Kremið er gefur engan lit og hefur létta áferð, lyktin finnst mér helst til sterk en hún hverfur/venst eftir smá stund. Að finna krem sem er auðvelt að farða yfir er frekar erfitt, ég er endalaust að kaupa ný krem en þau henta því miður ekki öll undir farða.
Kremið er frábært eitt og sér, húðin verður stinnari, fallegri og mýkri en ég veit til þess að margar konur nota létta farða eða lituð dagkrem yfir. Ásetning BFB er frekar sérstök, það á að bera létt lag af kremi á húðina en það má ekki nudda það inn í hana. Ef húðin er mjög þurr má nota krem undir kremið en fyrir venjulega/blandaða húð er best að setja kremið á beint eftir hreinsun. Það er hægt að nota kremið sem maska en þá gefur það húðinni næringu og róar hana (það má segja að BFB sé smá orkubomba fyrir húðina), þá setur maður lag af kreminu yfir húðina og bíður í 10-15 mínútur og þurrkar svo með pappír.

Fyrir þá sem vilja létt krem sem gefur húðinni fallega áferð þá er Beauty Flash Balm frá Clarins frábær kostur, hentar flestum húðgerðum og hefur jákvæð langtímaáhrif á húðina. Mig minnir að verðið á kreminu sé í kringum 6 þúsund krónur og það ætti að vera til á öllum sölustöðum Clarins.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem er fjallað um í þessari grein voru sendar sem sýnishorn, greinin endurspeglar samt sem áður hreinskilið álit greinarhöfundar á vörunum.

 

 

Skýjakrem frá Skyn Iceland

IMG_7064

Á Kringlukastinu um daginn tók ég eftir að Lyf og Heilsa buðu 20% afslátt af vörunum frá Skyn Iceland. Ég hafði verið stuttu áður að skoða (og pota í) vörurnar og hafði kolfallið fyrir Pure Cloud Cream sem hefur eina skrýtnustu áferð sem ég hef prófað.

Kristjana frá Nola.is var á staðnum og sýndi mér hvaða vörur væru hentugar fyrir mig, ég prófaði Wipes, Nordic Skin Peel, Cooling Lotion og Pure Cloud Cream. Ég ákvað að kaupa Nordic Skin Peel (segi ykkur frá því fljótlega) og Pure Cloud Cream og fékk svo lítinn pakka af Wipes og litla túbu af rakakremi í kaupauka. Núna er ég búin að prófa vörurnar vel og finnst ég geta sagt ykkur frá þeim.

Á heimasíðu nola.is má sjá þessa lýsingu á Pure Cloud Cream:
“Miklar veðrabreytingar og mikill kuldi hefur slæm áhrif á húðina. Umhverfisáhrif eins og mengun og mikið sólarljós láta húðina eldast hraðar en ella. Pure Cloud Cream er mýkjandi og þæginlegt rakakrem sem er einstaklega létt í sér, veitir ákaflega mikinn raka, græðir og endurnýjar sérstaklega þurra og pirraða húð. Þetta krem er svokallað vind og veðrakrem, sérstaklega gert til að minnka áhrif mikils kulda og hita á húðina og veitir vörn. Pure Cloud Cream gerir húðina heilbrigðari og mýkri samstundis, þú hefur aldrei prófað annað eins.”

IMG_7061

Mín reynsla er að þetta er eitt léttasta og öflugasta rakakrem sem ég hef prófað, Pure Cloud Cream gefur raka sem endist allan daginn og er algjör þurrkabani. Þegar að ég keypti kremið var ég komin með þurrkabletti yfir báðar kinnar og nef en eftir tveggja daga notkun á Nordic Skin Peel og Pure Cloud Cream var húðin komin aftur í fullkomið ástand. Kremið er frábær grunnur áður en húðin er förðuð, húðin verður áferðarfalleg, silkimjúk og ekki “greasy”. Ég sé virkilegan mun á húðlitnum sem er orðinn jafnari og fallegri en áður (munurinn á litnum fór að sjást eftir vikunotkun, roðinn sem hafði plagað mig hvarf). Aðalinnihaldsefni Pure Cloud Cream eru meðal annars: Sodium Hyaluronate (rakagefandi), hafra-extrakt (hefur róandi áhrif á húðina), Neuropeptide (róandi áhrif á húð og eykur losun endorfíns í líkamanum), niðurbrotið hrísgrjónaprótein (hefur áhrif á kollagen húðarinnar), Bisabolol (unnið úr Kamillu, róar húðina), Aloe (græðir og gefur húðinni raka), möndluolía (inniheldur nauðsynleg vítamín og gefur mikinn raka) og að lokum sérstaka “Íslenska efnablöndu”.

Ég hvet ykkur öll (já ykkur líka strákar, ég veit að þið leynist inn á milli) til þess að kynna ykkur vörurnar frá Skyn Iceland. Vörur Skyn Iceland eru parabenalausar, lausar við hráolíu og súlfatslausar. Skyn Iceland prófar ekki á dýrum og vörur þeirra henta fólki sem lifir Vegan-lífsstíl. Skyn Iceland fæst hjá Nola.is og í Lyfjum og Heilsu í Kringlunni.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem fjallað er um í þessarri grein voru keyptar af greinarhöfundi eða aðilum tengdum honum. Greinin endurspeglar hreinskilið álit greinarhöfundar á vörum.

1 2 3