Lancôme – Teint Idole gleði

Vörur sem fjallað er um eru gjafir

Teint Idole línan frá Lancôme er klassík fyrir þær konur sem vilja vörur sem endast vel á húðinni, haldast mattar og eru olíulausar. Upprunalegi farðinn fékk smá yfirhalningu og svo eru snillingarnir hjá Lancôme á Íslandi að gera frábæra hluti með því að bjóða okkur upp á að gera umbúðirnar af cushion-farðanum aðeins persónulegri. Fyrir frekari útskýringar þá lesið þið bara áfram!

Teint Idole farðinn frá Lancôme er löngu orðinn klassískur enda hefur hann verið í framleiðslu hjá Lancôme í rúm 20 ár. Hann fékk nýlega nýtt nafn og nýja flösku – en ekki nýja formúlu og kallast hann nú Teint Idole Ultra Wear sem lýsir eiginleikum hans frekar vel. Hann á að hafa 24 klukkustunda endingu án lagfæringar og hann á ekki að smitast.
Farðinn á sér marga aðdáendur um allan heim og má ætla að þeim fjölgi þessa dagana þar sem að litaúrvalið hefur verið bætt og nú eiga allir að geta fundið sér tón við hæfi.

Formúlan er þekjandi en á sama tíma létt og minnir mig svolítið á “second-skin” farða þar sem farðinn bráðnar einhvernvegin inn í húðina en samt myndi ég ekki setja hann í þann flokk. Áferðin á húðinni er frekar mött en samt með ljóma svo útlitið er náttúrulegt en það eru efni í farðanum sem sjúga í sig olíu til að minnka gljáa. Ég hafði aldrei prófað þennan farða fyrr en ég fékk þetta glas hér að ofan og ég sé svolítið eftir því að hafa ekki prófað fyrr því ég er mjög hrifin. Mér finnst svolítið sterk lykt af farðanum fyrst eftir að maður setur hann á en mér finnst hún hverfa eða venjast hratt samt. Mér finnst farðinn endast vel á mér, hann gefur fallega áferð og það er auðvelt að stýra þekjunni með mismunandi áhöldum og t.d. ef maður vill blanda í rakakrem. Formúlan er með SPF 15 sólarvörn.
Ég nota lit 010 í Teint Idole Ultra Wear og í Teint Miracle og myndi segja að litirnir væru frekar svipaðir og ég varð ekki vör við að þessi farði oxaðist á húðinni eins og “long-wear” farðar gera venjulega.


Teint Idole Ultra Cushion er svo önnur útgáfa af Teint Idole farða en sú er fljótandi farði í “svamp”-formi en hann er aðeins léttari og með náttúrulegri áferð (minni þekju) en fljótandi farðinn hér að ofan. Ég myndi lýsa áferðinni á þessum sem demi-mattri og endingin er mjög góð þó hún nái hinum ekki alveg. Formúlan gefur meiri raka og kælir húðina við ásetningu svo þetta er fullkomið til að laga förðun yfir daginn/kvöldið. Allure verðlaunaði cushion-farðann árið 2016 og ég verð að vera sammála þeirri úthlutun því þetta er svo þægilegt fyrir okkur sem eigum það til að mála okkur í bílnum. Formúlan er með SPF 50 sólarvörn svo farðinn er fullkominn fyrir sumarið.

Þessa dagana stendur yfir spennandi kynning í Lyfjum og Heilsu í Kringlunni og Glerártorgi (frá fimmtudeginum 30. mars til sunnudagsins 2. apríl) þar sem allar vörur frá merkinu eru á 20% afslætti og þar eru kaupaukar í boði. Það sem gerir þessa kynningu þó extra spennandi er það að þið getið fengið áletrun á Teint Idole Ultra Cushion boxin sem þið kaupið eða ef þið eigið box fyrir þá getið þið keypt fyllingu og látið merkja boxið. Það er fátt eins skemmtilegt og persónulegt eins og merktar snyrtivörur. Áletrunin verður í boði milli 14 og 18 á bæði fimmtu- og föstudag en á laugardaginn frá 13 til 17. Ég mæli með að þið kíkið við og skoðið þær nýjungar sem eru í boði og nýtið afsláttinn á kynningunni.

Bestu andlitsförðunarvörur 2016

ÚFF! Ég skil ekki hvað tíminn líður hratt og því mikilvægt að drífa þessa árslista af svo við getum farið að byrja á einhverjum nýjum og ferskum umfjöllunum um nýjar, nýlegar og eldri vörur (því við erum auðvitað alltaf að kynna okkur eitthvað nýtt). Hér eru að mínu mati bestu andlitsförðunarvörur ársins 2016.

Við byrjum auðvitað á “all-time” uppáhalds farðanum mínum, Teint Miracle frá Lancôme sem ég var einmitt að kaupa nýtt eintak af. Hann er alltaf fullkominn, áferðin, þykktin, þekjan og bara allt. Það verður erfitt fyrir aðra farða að reyna að velta þessum úr sessi.
Shimmering Skin Perfector í vökvaformi frá Becca hefur ekki verið að fá næga ást hjá mér hérna á blogginu en ég elska að blanda þessum fljótandi highlighter við farða, nota hann undir farða sem og yfir hann fyrir smá auka, náttúrulegan ljóma. 
Touche Éclat penninn frá Yves Saint Laurent, gull-ljóma-penninn víðfrægi verður að sjálfsögðu að fá að vera með á listanum. Ég nota 2 liti af pennanum og eeeelska hvað þetta er góð formúla og gefur ljóma sem er svo fullkomlega eðilegur og maður virðist hafa sofið í 16 klst.
Le Cushion Encre De Peau farðinn frá Yves Saint Laurent er nýjung sem fór strax á listann um leið og ég prófaði hana í fyrsta skipti. Þetta er handhægasti “on-the-go” farði sem ég hef nokkurntíman prófað, þekjan er góð og hann helst vel á. Umbúðirnar eru líka gullfallegar (bókstaflega).
Les Sahariennes Bronzing Stones frá YSL er uppáhalds sólarpúðrið mitt. Það er í nokkrum litum, ég á þann ljósasta og get gluðað því framan í mig alveg að vild. Púðrið er eitt það fínmalaðasta sem ég hef prófað og það er örfín sansering í mínum lit. Það er bara ekki hægt að klúðra förðuninni með þessu sólarpúðri.
RCMA No-Color Powder er alveg litlaust, hræódýrt púður sem allir geta notað (ég borgaði 9 dollara í USA). Það er einn ókostur og það er að umbúðirnar henta manni ekkert sérstaklega vel dagsdaglega svo mér finnst alltaf eitthvað fara til spillis, ekki það að ég kvarti þegar að einn dunkur er 3oz. Ég sá að RCMA var að vara við fölsuðum púðrum í umferð svo ég mæli ekki með að rjúka til á Ebay eða Aliexpress að versla púður (ekki versla snyrtivörur á Aliexpress, ever! alveg bannað!)
Lancôme Effacernes hyljarinn, vatnsheldur, táraheldur, hylur allt og maður þarf svo pínulitla bólu af hyljara til að hylja verstu bauga/bólur/allskonar. Mér finnst hann líka mjög þægilegur til að setja í kringum varirnar, bæði til að “eyða” útlínunum og vera smá grunnur undir varablýant/lit og svo til að lagfæra línu sem er ekki alveg nógu skörp.
Urban Decay Naked Skin farði og hyljari, skothelt kombó. Báðar vörur innihalda efni sem hafa jákvæð áhrif á húðina, þekjan er góð, áferðin er frábær og ég bara get ekki mælt nógu mikið með þeim.
theBalm Mary-Lou Manizer er “my girl”. Þessi highlighter er minn uppáhalds, fínmalaður og með hinn fullkomna lit fyrir mína hálfglæru hvítu húð. Það þarf að fara varlega svo maður blindi fólk ekki í réttri lýsingu en þetta er einn af fáum highlighterum sem er bara sanseraður en ekki með neinu glimmeri.
MAC kinnalitir og þá sérstaklega bleiki kinnaliturinn úr samstarfslínu Mariah Carey og MAC sem kom mér ótrúlega á óvart og ég nota hann vandræðalega mikið. Ég mæli líka með kremkinnalitunum eins og t.d. Posey sem ég keypti í vor, mér finnst hann snilld!

Eins og ég hef sagt milljón og þrisvar gleymdi ég örugglega helling svo þið verðið bara að fyrirgefa það. Síðasti hlutinn er tilbúinn en það eru vörur fyrir varir sem stóðu uppúr á árinu 2016. Fylgist með honum og svo getum við farið að spjalla um meira sniðugt því það lítur út fyrir að ég muni að öllum líkindum (nú jinxa ég þetta) hafa tíma til að skrifa meira og sýna ykkur meira. Þið getið fylgst með mér á snapchat undir notandanafninu thorunns þar sem ég segi ykkur stundum frá einhverju sniðugu þegar að ég er í stuði og ef þið viljið sjá eitthvað sérstakt eða mynduð vilja lesa eitthvað sérstakt þá hafið þið bara samband við mig hér, á facebook, snapchat eða í tölvupósti.

Þar til næst,

YSL Fusion Ink farðinn – nú bæði í cushion og fljótandi!

dsc_0005vörurnar eru gjafir

Ég hef setið á mér frekar lengi með að segja ykkur frá Le Teint Encre De Peu farðann frá YSL eða Fusion Ink eins og þeir kjósa að kalla hann á ensku. Ég er búin að eiga fljótandi útgáfuna í nokkra mánuði en vissi að það væri cushion útgáfa á leiðinni svo ég ákvað að bíða og geta sagt ykkur frá báðum í einu. Nú er þetta ágæta cushion (svampfarði, púðafarði, hvað eigum við að kalla þetta?) komið til Íslands og því kominn tími á orðaflaum.

Fusion Ink eru ofurléttir “long-wear” farðar sem eiga að endast allan daginn. Þeir innihalda rokgjarnar olíur (eru þunnfljótandi, sambærilegt við Air De Teint frá Lancôme) og “bráðna” við húðina og gefa að mínu mati miðlungsþekju. Það hafa allir og amma þeirra heyrt um fljótandi farðann (ég var mjög sein að taka við mér) en hann gefur semi-matta áferð og ljóma á sama tíma og hann er svo léttur að maður finnur ekki fyrir honum á húðinni. Hann hefur hentað best fyrir þær sem hafa smá olíu í húðinni (blönduð húð út í feita húð) og ég gat byrjað að nota hann í sumar þegar að húðin mín tók stakkaskiptum og fór að fá bólur á fullu (þið sjáið hvað húðliturinn er ójafn á fyrir-myndinni hér að neðan). Ég hef verið mjög ánægð með fljótandi farðann og hef aðallega notað hann með bursta 187 frá MAC sem er duo fiber bursti. Þið sjáið fljótandi farðann á hægri hlið andlitsins á eftir-myndinni hér að neðan.

dsc_0025

Nú að þessum nýja. Ég get sagt strax að mér finnst þessi farði mjög góður og hann hentar mér eiginlega betur en fljótandi útgáfan. Litirnir eru aðeins ljósari (ég nota B10 í fljótandi, er með B20 í þessum) og eru passlega hlutlausir, ekki of bleikir og ekki of gulir. Formúlan er rakagefandi og með meiri ljóma en sú fyrri en mörgum þótti fljótandi útgáfan festast svolítið í þurrkablettum en þessi gerir það ekki. Áferðin er þar af leiðandi ekki eins mött  en ég myndi segja að þekjan í þessum sé meiri en í hinum svo hann er mjög drjúgur því maður notar ekki mikið í einu. Formúlan oxast ekki mikið (oxun er mikið vandamál hjá sumum) svo það er hægt að treysta á litinn þegar að formúlan hefur þornað (það gerist hratt, ekki setja klessu á kinnina og ætla að blanda hana út á eftir).

Ég er týpan sem málar sig oftast á ferðinni (sit venjulega í bílnum og mála mig áður en ég fer inn einhversstaðar) svona dagsdaglega og finnst snilld að fá farða sem ég þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af í töskunni og að ég þurfi ekki að taka burstana mína með mér. Mér finnst gott að geta lagfært förðunina yfir daginn (ég er dugleg að nudda allt af mér yfir daginn, sérstaklega ef ég er mjög þreytt) og þá er gott að vera með farðann í litlu boxi með spegli.

combine_imagesFyrir: einungis rakakrem – Eftir: <– Cushion | Fljótandi –>

Í lokin er hér samsett mynd. Ég er alveg ómáluð með rakakrem á fyrir-myndinni en á eftir-myndinni er ég með cushion farðann vinstra megin og þann fljótandi hægra megin. Ég er ekki með neina aðra förðunarvöru framan í mér og engan primer. Ég er bæði með bólur og sár sem eru áberandi dökkrauð og leiðinleg svo ég vildi sýna ykkur hvernig farðarnir hylja það.

Ég er gríðarlega ánægð með farðann og hvet alla til að skoða hvort cushion-farði sé eitthvað sem henti þeim. Það hófst YSL kynning í Lyfjum og heilsu í Kringlu í morgun (fimmtudag) sem stendur út sunnudag þar sem þið getið leitað til sérfræðinga sem geta ráðlagt ykkur við val á vörum. Samkvæmt facebook er 20% afsláttur af öllum YSL vörum og kaupaukar ef keyptar eru tvær vörur eða fleiri.

Þar til næst,
Þórunn

Uppáhalds farðar í apríl 2016

fardarfærslan er ekki kostuð

Hæ! Ég er að reyna að bæta mig í blogginu og auðvitað að reyna að komast hjá því að læra heima eins og allir sem eru að byrja í prófum. Þegar að það er mikil að gera í skólanum hjá mér (ég er í 38 einingum, það er ekkert grín) þá þarf bloggið að sitja á hakanum en ég er að reyna að skipuleggja mig betur svo ég þurfi ekki að yfirgefa ykkur svona oft. Ég ákvað að taka saman lista yfir uppáhalds farðana mína þessa stundina, ég fæ margar spurningar þessa dagana frá ykkur um farða og fannst fínt að smella inn svona færslu núna. Farðarnir eru ekki í sérstakri röð, ég raðaði þeim bara inn á myndina handahófskennt. Suma farða hef ég talað um áður hér inni en aðra ekki, ég set litinn sem ég nota með til að auðvelda ykkur sem eruð í sama lit að ég að velja.

1. Lancôme – Miracle Air de Teint: Léttur olíufarði sem blörrar í burtu allar misfellur og húðin virðist algjörlega lýtalaus. Ég á hann reyndar ekki í réttum lit þessa dagana en bæti líklega úr því í sumar. Hann er örþunnur og það er fallegast að setja hann á húðina með stórum duo-fiber bursta. Áferðin er ljómandi en á sama tíma mött. Ég er ekki viss hvaða litur passar mér akkúrat núna en liturinn sem ég á er 01 og er of dökkur.
2. Urban Decay – Naked Skin Weightless Foundation: Léttur farði sem gefur ljómandi flauelsáferð, ekki alveg matta en gríðarlega fallega. Hann er með meðalþekju og gefur húðinni raka svo hún verður “betri” yfir daginn (húðin undir farðanum þ.e.). Hann er mjög léttur og þægilegur og ég var að kaupa mér nýjan núna í útlandaferðinni. Ég nota lit 2.0 eins og er, það var að koma litur 1.5 sem ég náði ekki að skoða úti og er ekki viss hvort hann passi mér betur.
3. MAC – Studio Waterweight Foundation:  Vatnskenndur og léttur farði með létta til meðalþekju. Hann gefur húðinni rosalega ljómandi áferð og hentar líklega bara fyrir þurra húð þar sem hann gefur mikinn raka og olíukennd húð yrði líklega bara eins og hún væri sveitt. Ég nota hann ekkert mjög mikið, hann gleymist alltaf ofaní skúffu en hann er samt einn af þeim allra þægilegustu fyrir hversdagsnotkun. Ég nota lit NC15.
4. Makeup Forever – Ultra HD Foundation Stick: Stiftfarði sem ég átti ekki von á að vera svona ánægð með. Hann spannar eiginlega öll þekjubil, það er auðvelt að stýra þekjunni bara með því að nota minna eða meira eftir þörfum. Ég nota oftast þéttan busta eins og Sigma F80 sem ég er búin að spreyja með Fix+ eða öðru spreyi eða rakan beautyblender til að blanda farðann. Hann blandast fullkomlega inn í húðina og helst vel á, það þarf að púðra hann örlítið á T-svæðinu á mér en hann er mjög góður. Ég veit ekki hversu lengi maður er að fara í gegnum eitt stifti og það er eiginlega það eina sem ég óttast, að hann endist kannski ekki jafn lengi og fljótandi farðar. Ég nota lit 117 = Y225.
5. Lancôme – Teint Miracle: Ókei hér get ég sagt að sé einn af mínum allra mest uppáhalds förðum í heiminum. Ég er á glasi númer 2 núna og ég er ekki að grínast, ég fór eiginlega bara að grenja þegar að ég kláraði fyrsta glasið. Hann er með meðalþekju og blandast fullkomlega við húðina svo það sést varla að maður sé með nokkuð framan í sér. Ég nota oftast þétta bursta eins og Sigma sem ég talaði um rétt áðan, Expert Face Brush frá Real Techniques eða beautyblender til að setja hann á. Ég nota lit 010 sem er svona á mörkum þess að vera of dökkur en liturinn fyrir ofan er of ljós. Ég elska þennan mjög heitt!
6. YSL – Touche Éclat Le Teint: Nýja útgáfan af Touche Éclat farðanum frá YSL, hann er með enn meiri ljóma, helst betur á og er gullfallegur. Ég átti í byrjunarerfiðleikum með þennan, alveg eins og með gamla, en um leið og ég komst yfir þá þá var þetta leikur einn. Mér finnst allir burstar henta vel í farðann og hann er með meðalþekju. YSL segir að farðinn sé eins og 8 klukkustunda svefn í einni pumpu og ég er ekki frá því að það sé sannleikurinn, maður virðist vera útsofinn og fullkominn þó maður sé grútúldinn klukkan 8 á mánudagsmorgni. Ég nota lit B10.

Ég vona að þetta gefi ykkur hugmyndir og auðveldi ykkur við val á næsta farða. Ég er haldin (ekkert mjög) nettri söfnunaráráttu og er algjör farðaperri svo ég á ansi myndarlegt safn en þetta eru þeir sem ég nota mest þessa dagana. Ég vil svo endilega mæla með að þið prófið farða í búðunum áður en þið festið kaup á honum og prófið að fara út í dagsbirtu og sjáið hvort hann sé enn jafn fallegur og í búðinni, ég veit ekki hversu oft ég hef hætt við að velja farða eða lit útaf því hvernig hann var í dagsbirtu. Þetta minnkar líka svekkelsið yfir að hafa eytt nokkrum þúsundköllum í eitthvað sem maður notar kannski aldrei.

Þar til næst,
Þórunn

Teint Miracle ofurfarði frá Lancôme

IMG_5869

 

Ég er búin að liggja á þessarri snilld í frekar langan tíma og hef dregið í allt of langan tíma að setja Teint Miracle frá Lancôme á bloggið. Núna þegar að það eru Tax-Free dagar í Hagkaup og afsláttardagar í Debenhams er fullkominn tími til að segja ykkur frá þessum farða sem er einn af mínum uppáhalds.

Teint Miracle er ekki nýr af nálinni en hann er einn sá allra vinsælasti í heiminum í dag. Hann fullkomnar áferð húðarinnar og Aura-Inside™ tæknin frá Lancôme gefur húðinni ljóma. Formúlan er olíulaus, lyktarlaus og hefur sólarvarnarstuðulinn SPF 15. Formúlan gefur raka, róar húðina með rósaextrakti og hefur meðalþekju með náttúrulegri áferð.

Ég fell fyrir nánast hverri einustu vöru sem ég prófa frá Lancôme og Teint Miracle var engin undantekning. Ég nota (að ég held) ljósasta litinn sem er í boði en hann er númer X og fellur óaðfinnanlega að mínum ótrúlega hvíta og föla húðlit og gefur húðinni fullkomna áferð. Það er auðvelt að stýra þekjunni, ég nota eina pumpu fyrir meðalþekju og eina og hálfa fyrir mikla þekju, burstarnir sem ég nota helst í farðann eru Expert Face Brush frá Real Techniques og F80 burstann frá Sigma en báðir virka eins og strokleður með Teint Miracle.
Hún Kristjana vinkona mín, National Makeup Artist Lancôme á Íslandi, segist nota farðann óspart í farðanir fyrir myndatökur og hún fær alltaf fyrirspurnir hvað hún noti því það þurfi lítið sem ekkert að vinna myndirnar. Það eitt og sér ætti að vera meðmæli í lagi.

Sérfræðingar Lancôme á Íslandi standa að venju vaktina á tilboðsdögum eins og Tax-Free í Hagkaup og afsláttardögum í Debenhams og þær geta svarað öllum spurningum ykkar og ráðlagt hvaða vörur henti ykkur. Ég mæli með að sem flestir geri sér ferð og finni sinn lit af Teint Miracle og kippi kannski með kinnalit (Blush Subtil er mögnuð formúla), maskara (Hypnôse maskararnir eru heimsfrægir) eða öðrum gæðavörum frá Lancôme í leiðinni.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem er fjallað um í þessari grein voru sendar sem sýnishorn, greinin endurspeglar samt sem áður hreinskilið álit greinarhöfundar á vörunum.