Uppáhalds rakakremin þessa stundina

Jæja, eftir að hafa brainstormað heilan helling ákvað ég að skella í færslur þar sem ég tek fyrir allar mínar uppáhalds húðvörur sem ég man eftir í augnablikinu, listinn breytist samt oft þegar að ég sé eitthvað sem heillar.

Svo ég byrji nú einhversstaðar ætla ég að taka rakakremin mín fyrst fyrir:

IMG_2501Þessi þrjú og Studio Moisture Cream frá MAC eru rakakremin sem ég nota hvað mest. Í dollunni á myndinni er Complete Comfort Cream frá MAC sem er gott rakakrem með mjög góðri lykt sem hentar vel á normal húð, það smýgur vel inn í húðina og maður finnur hvernig það byrjar að virka. Það er ekki alveg nógu rakagefandi fyrir mig eitt og sér því ég er með mjög þurra húð sem minnir einna helst á eyðimörk en ég ákvað samt að hafa það með því það virkar vel með hinum kremunum. Ég ætlaði nú reyndar ekki að kaupa Complete Comfort en greip vitlausan kassa í MAC í Búdapest og uppgvötaði ekki mistökin fyrr en ég var komin heim og búin að opna krukkuna. Kremið sem ég ætlaði að kaupa er Studio Moisture Cream sem mér finnst vera himnasending í dós, sama frábæra lyktin og mikill raki sem heldur húðinni góðri á þurrustu frostdögunum (sem er nóg af á Íslandi) sem og yfir sumartímann, það smýgur enn hraðar en hitt inn í húðina og mér finnst hún miklu stinnari og fallegri en áður. Bæði kremin finnst mér frábær undir meik en ég nota sjálf Studio Sculpt meikið sem er frekar rakagefandi og finn þá minna fyrir þurrki en annars.

Serumið er úr Lightful húðlínunni hjá MAC og hún Þóra hjá MAC í Kringlunni mælti með því þegar að ég fór til hennar og spurði hana ráða eftir að hafa uppgvötað feilinn sem ég gerði í Búdapest. Ég set það á húðina þegar að hún er alveg hrein, á undan rakakremi og öllu öðru og ég er ekki frá því að þetta svínvirki. Serumið er þunnt krem sem er stútfullt af vítamínum og öðru gúmmelaði fyrir húðina og er unnið úr þangi eða þara. Línan var upphaflega markaðssett fyrir Asíumarkað þar sem það jafnar út húðlit og vinnur á dökkum blettum sem geta myndast í húðinni en svo ljómar húðin líka fallega eftir að hafa notað serumið í svolítinn tíma. Ég sé allavega mikinn mun á því hvað liturinn á húðinni er jafn og finnst ég vera að fá auka rakaboost.

Seinasta kremið er frá Bioderma, frönsku húðvörufyrirtæki sem ég elska. Það er fyrir alveg skraufþurra húð og ég nota það mjög spart. Einstaka sinnum fæ ég slæma þurrkabletti sem ég reyndi og reyndi að maka allskyns gumsi á áður en ég kynntist þessu kremi.
Ég prófaði kókosolíu og allskyns rakakrem og var meira að segja farin að íhuga að prófa eitthvað feitt sterakrem sem vinkona mín mælti með (fór samt aldrei svo langt, einshversstaðar verður maður að setja línuna), ég var komin með sár á hökuna útaf þurrk og úlpan mín var alltaf að nuddast við húðina og stækka sárið. Mamma hafði keypt sér þetta krem og ég fékk að prófa smá á þurrkablettina og þetta var bara allt annað líf. Kremið er frekar þunnfljótandi og er mjög feitt og lyktar mjög lítið, varla að maður finni það. Það er mjög fljótt að ganga inn í húðina og hún verður vel nærð og falleg, án þess þó að maður líti út eins og maður hafi borið smjörlíkisstykki framan í sig.

Bioderma fæst því miður ekki á Íslandi en ég krossa fingur að einhver taki sig til og fari að flytja þessar vörur inn. Ég mun fjalla eitthvað í viðbót um vörur frá þeim en ég, mamma og systir mín notum allar vörur frá þeim. Mamma er með húð sem er að byrja að eldast, systir mín með acne og ég með viðkvæma húð og þeir eiga línur handa okkur öllum og svo miklu fleiri í viðbót.

Vörur frá MAC fást á Íslandi í MAC Kringlunni og MAC Debenhams í Smáralind en Bioderma fæst því miður ekki á Íslandi eins og er.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem er fjallað um í þessari grein voru keyptar af greinarhöfundi, greinin endurspeglar álit greinarhöfundar á vörunum.

MAC Lipstick – Diva

Einn vinsælasti varaliturinn hjá MAC er Diva, dökkrauður og dásamlegur varalitur með mattri áferð.

Mac Diva

Þegar að ég var í einni af þessum milljón ferðum mínum í Kringluna varð ég bara að stoppa hjá MAC í Kringlunni og skoða hvaða gúmmelaði þær ættu handa mér í það skiptið kom ég auga á þennan í varalitarekkanum og það var ást við fyrstu sýn. Ég VARÐ að eignast hann, alveg sama hvað. Reyndar kom smá babb í bátinn því hann var uppseldur hjá þeim og smá bið eftir honum. Heppnin var þó með mér því ég átti bókað flug til Þýskalands stuttu seinna þar sem ég nældi mér í varalitinn og blýantinn sem mér finnst fallegastur með honum.

Samkvæmt heimasíðu MAC er liturinn “reddish-burgundy” sem ég vil þýða sem rauðleitur vínrauður sem mér finnst lýsa litnum ansi vel, hann er fallega vínrauður og tónar vel við flesta húðtóna (það er ótrúlega gaman að skoða hashtögg á instagram tengd þessum lit) og öll season. Hann er alveg mattur en þó ekki þurr og rennur vel eftir vörunum þegar að maður ber hann á.
Mér persónulega finnst mikill kostur ef varalitir eru mattir þar sem það þarf ekki að bera þá eins oft á og þeir renna oftast ekki í línur í kringum varir (ég nota hann MIKIÐ á mig og viðskiptavini).  Þó er mjög mikilvægt að skrúbba varirnar vel og losna við dauða húð og næra varirnar vel eftirá með góðum varasalva, mínir uppáhalds eru frá Blistex og ég nota mismunandi varasalva eftir hversu þurr og sprungin ég er. Best finnst mér að láta varasalvan bíða á vörunum meðan að ég klára að mála allt annað í andlitinu og þurrka hann þá af og set varalitinn á.

IMG_2513

Það er ofur auðvelt að skapa flott look með því að nota blýant frá MAC sem heitir Vino með og móta varirnar með honum og fylla svo inn í með Diva, annaðhvort með pensli eða varalitnum sjálfum. Þetta kombó sá ég fyrst hjá henni Þóru Kristínu sem vinnur hjá MAC í Kringlunni og er algjör snillingur í öllu förðunartengdu og frábær kennari.

Diva-vinoHér er ég með kombóið á vörunum og finnst það æði, þessi er einn af uppáhalds og er óspart dreginn fram hvort sem er sumar eða vetur, alveg sama hvert tilefnið er.

Endilega látið mig vita hvað ykkur finnst 🙂
Þórunn

 

Varan sem er fjallað um í þessari grein var keypt af greinarhöfundi og er hreinskilið álit höfundar á vörunni.

Eitthvað nýtt

Halló halló, ég veit nú eiginlega ekki alveg hvað ég er að koma mér út í hérna en ætla að prófa þetta og sjá svo hvað setur. Mér þætti gaman að vita til þess að einhver lesi þetta kannski en það er svosem ekkert sem ég missi svefn yfir.

10171817_841485312534002_897975225_n

Þetta er semsagt ég en ég er 22 ára dama úr Reykjavík með brennandi áhuga á snyrtivörum, tísku, hönnun og tækni og ákvað að slá til og fara að blogga um það sem á daga mína drífur. Ég útskrifaðist frá Mood Makeup School í júní 2012 og er alltaf að fikta við snyrtivörur og skoða upplýsingar á netinu (og kaupa, kærastanum og bankareikningnum til mikillar ánægju).

Ég lærði tölvunarfræði í 2 ár í Háskóla Íslands og fór svo út til Ungverjalands að læra læknisfræði en ákvað að taka mér smá leyfi frá læknanáminu og fara og gera eitthvað alveg nýtt í smá tíma. Úti átti ég dálítið erfitt með að hemja mig í snyrtivörukaupum þökk sé hagstæðu gengi og því að í Ungverjalandi fást mörg frábær merki sem ég hef ekki séð í sölu á Íslandi ennþá og klæjaði í fingurna og förðunarburstana að prófa (húðvöruúrvalið var líka ótrúlega gott, Bioderma á hjarta mitt í þeim efnum og ég segi ykkur aðeins frá því seinna).
Ég hef líka verið ansi dugleg að kíkja vestur um haf til Bandaríkjanna og þá halda mér sko engin bönd, með Mac Pro kort í annarri og debetkort í hinni (og að sjálfsögðu dygga aðstoðarmenn til að halda á pokum) hef ég þrætt hverja verslunargötuna/miðstöðina á fætur annarri og svo skotist inn í Sephora og Ulta þegar að ég kem auga á þær. Ferðafélagar mínir vita að það er engin leið að hemja mig í að prófa eitthvað nýtt og sætta sig við sífellt þyngri poka og lengri kvittanir og alltaf skælbrosi ég og held áfram.

Mér hefur fundist vanta snyrtivöruumfjallanir á Íslandi þar sem ég get verið viss um að sá sem fjallar um vöruna sé hlutlaus og ég sem lesandi er mjög hrifin af því þegar að snyrtivörublogg taka fram hvort vara er keypt af greinarhöfundi eða send frá heildsölu til kynningar. Allar mínar snyrtivörur hef ég keypt sjálf eða fengið að gjöf frá vinum og fjölskyldu svo mér finnst ég ekki vera undir neinni pressu að skrifa eitthvað sérstaklega jákvætt og frábært um vörur sem ég er kannski ekki 100% ánægð með. Til að byrja með hef ég hug á að reyna að taka fyrir eina til tvær vörur á dag en það gæti þó verið breytilegt og svo kannski skýtur maður inn einhverjum greinum inn á milli með óskalistum og allskyns öðru sem mér dettur í  hug að skrifa.

Þar til næst,
Þórunn

1 61 62 63 64