Uppáhalds húðvörurnar 2016

Fyrsta færsla um bestu vörur er loksins komin inn. Hér tók ég saman þær húðvörur sem mér fannst standa upp úr á síðasta ári, ég gleymdi örugglega helling en það verður að hafa það. Ég ætla ekki að hafa þetta flókið heldur segja ykkur bara hvaða vörur voru á mínum topplista og kannski smá um þær (eftirá tek ég eftir að 2016 virðist hafa verið ár maskana, ég tók einhverja maska út því þetta var orðið fullmikið).

Origins Clear Improvement kolamaskinn sló í gegn hjá mér við fyrstu prufu en ég keypti mér hann í vor. Hann hreinsar húðina vel án þess að erta hana.

Lancome Bi-Facil augnfarðahreinsirinn. Hann er alltaf minn uppáhalds og ég hef ekki fundið neinn sem getur komið í staðinn fyrir hann hjá mér. Hann er tvískiptur og nær öllu af ásamt því að næra augnsvæðið.

Ultra Repair Cream frá First Aid Beauty er öflugt rakakrem sem hjálpar húðinni að vinna bug á þurrkablettum. Ég fékk túpu af því í Sephora í vor og finnst það ótrúlega þægilegt, ég nota það oftast á hné og olnboga en stundum í andlitið líka.

Skyn Iceland augngelpúðar verða að fá að vera á listanum en ég elska hvað þeir gera húðina frísklega og bjarga manni á þreyttum dögum og í miklu stressi. Ég spændi í gegnum einn stóran poka í prófatímabilinu og vil meina að það hafi hjálpað mér alveg heilan helling í að líða betur með sjálfa mig, ég hef nefnilega sjaldan litið eins illa út og núna í desember 2016 þar sem ég var alltof stressuð, þreytt og ef ég var ekki að læra eða í prófi var ég í vinnunni. Púðarnir voru kærkomin kælipása þar sem ég gat slakað á.

Yves Saint Laurent Lip Perfector er ný vara sem ég varð að setja á listann. Þetta er semsagt varasalvi  sem smýgur djúpt inn í varirnar og gefur þeim raka ásamt því “exfoliate”-a létt svo það sé ekki skorpa á vörunum. Mér finnst hann svo þægilegur undir varaliti því varirnar verða svo fullkomnar.

Skindinavia Makeup Primer Spray fannst mér eiga að vera í þessum flokki en þetta er besti primer sem ég hef prófað. Það er öll farðaásetning mikið auðveldari og fallegri ef maður undirbýr húðina með þessu spreyi. Sílíkonprimerar vilja oft þurrka húðina mína og því finnst mér þetta þægilegur og fljótlegur valkostur.

Lancome Énergie de Vie línan fær öll að rata hingað inn en þó sérstaklega raka”kremið” og maskinn. Ég elska hvað rakakremið er þægilegt og að það megi fara á augnsvæðið, það gefur passlegan raka og hann helst vel í. Maskinn er síðan bara einn besti rakamaski sem ég hef átt og við Alexander notum hann bæði reglulega.

Glamglow Powermud er ofurhreinsimaski sem er ein skrýtnasta vara sem ég hef átt. Maskinn er ískaldur á húðinni, fer á sem ljósgrágrænn leirmaski og verður svo að einhverskonar olíu þegar að maður bleytir hann þegar að hann er tekinn af. Hann hreinsar djúpt en gefur húðinni mikinn raka, lyktin er líka draumur.

Origins GinZing rakakremið er létt og með bestu lykt sem ég hef fundið af rakakremi. Elska það á dögum þar sem húðin er ekki mjög þurr (mín tekur tímabil). Lyktin hressir mann og kremið gefur húðinni smá líf.

Skyn Iceland Pure Cloud Cleanser er kremhreinsir sem er gríðarlega mildur en hreinsar húðina vel án þess að þurrka hana. Mér finnst hann svo þægilegur að hann varð að fá að vera með, það er svo þægilegt að húðin sé ekki stíf eftir hreinsun.

Biotherm Total Renew Oil frá Biotherm er uppáhaldið mitt þegar að ég kem heim eftir langan dag eða ef ég hef verið mikið förðuð en þetta er olía sem leysir upp farða og gefur húðinni raka og næringu en þegar að hún kemst í snertingu við vatn freyðir hún til að hreinsa enn dýpra. Ég nudda einni til einni og hálfri pumpu yfir allt andlitið og nudda vel, bleyti svo og þríf af með þvottapoka og húðin er tandurhrein.

Þá er ég búin að telja upp mínar uppáhalds húðvörur fyrir árið 2016. Næsta færsla er um uppáhalds augnfarðavörur svo stay tuned!

NÝTT: URBAN DECAY – FULL SPECTRUM

Varan er keypt af greinarhöfundi eða aðilum tengdum honum

Það hafa margir beðið spenntir eftir Full Spectrum pallettunni frá Urban Decay en hún lenti  í Urban Decay “counternum” í Hagkaup Smáralind nýlega. Í fyrra kom á markað palletta í takmörkuðu upplagi sem hét Spectrum sem einkenndist af björtum litum, hún sló í gegn hjá snyrtivöruunnendum og því ákvað Urban Decay að taka þá pallettu alla leið og nú höfum við Full Spectrum sem mér skilst að sé einnig í takmörkuðu upplagi. Pallettan mín var keypt  fyrir um það bil mánuði og ég var búin að prófa flesta liti áður en þær komu í sölu hér. Ég ætla bara að renna örsnöggt yfir og sýna ykkur myndir af pallettunni.

Full Spectrum minnir á regnboga enda er spectrum litróf á íslensku. Skuggunum er raðað eftir lita-fjölskyldum og við höfum allt frá björtum, skærum og áberandi litum út í dökka og meira “muted” liti, áferðirnar eru margar og mismunandi. Það er hægt að búa til svo margar samsetningar og mismunandi útkomur með þessari pallettu, ef þið ætluðuð að prófa þær allar væruð þið búin að blanda af ykkur húðina – nokkrum sinnum!

Augnskuggarnir eru flestir silkimjúkir og koma vel út á augnlokinu en ég mæli samt með að nota primer til að fá “intense” lit og líka svo skuggarnir liti ekki húðina undir. Ég hef verið að leika mér með pallettuna svona til að róa mig niður fyrir próf og er mjög hrifin. Ég hafði heyrt slæma hluti um nokkra staka liti sem áttu ekki að vera nógu góðir í blöndun eða ekki nógu góðir en verð að segja að þeir komu mér virkilega jákvætt á óvart. Litirnir eru mjúkir en ekki eins “buttery” og maður er vanur frá Urban Decay en það kemur ekki niður á blöndun eða “pigmenti” t.d. hvíti matti liturinn er svolítið púðurkenndur (sem getur verið algengt í möttum formúlum). Fade, Midnight Blaze, Bump og Goldmine eru litirnir sem mér finnst mega vera betri/mýkri/auðblandanlegri/litsterkari. Uppáhalds litirnir mínir eru Minx, Alchemy, Gossip, Jones og Warning.

Umbúðirnar eru mjög “massívar” sem mörgum hefur þótt frekar skrýtið en mér persónulega finnst vera snilld. Í lokinu er stór spegill og það er segull sem heldur henni lokaðri svo það er hægt að ferðast með hana. Á lokinu er regnbogalitað/litrófslitað UD merki og nafn pallettunnar sem gerir hana áberandi innan um aðrar svartar pallettur. Það fylgir tvöfaldur bursti með pallettunni, öðru megin er blöndunarbursti og hinum megin er bursti sem hentar vel í að pressa augnskugganum á augnlokið. Burstarnir sem fylgja Urban Decay pallettum eru gerviháraburstar og mjög hentugir í snyrtibudduna sem maður grípur með sér en mitt uppáhald er reyndar að nota þá í kremvörur.

Pallettan inniheldur 21 augnskugga sem eru 1,2 grömm hver svo þetta er ein veglegasta pallettan á markaðnum í dag. Mér skilst að verðið á henni sé í kringum 8490 krónur svo hver skuggi er að koma út á c.a. 404,3 krónur fyrir hvern augnskugga. Mér persónulega finnst pallettan 100% þess virði og ég ELSKA að kaupa pallettur því það eru alltaf einhverjir litir sem ég hefði ekki valið mér sjálf, ef ég væri að versla í stöku, sem ég enda svo á að elska þegar að ég prófa þá. Í þessari pallettu var það Hatter sem er mjööööög skærgrænn litur! Full Spectrum er fullkomin í jóla-/afmælis-/tækifærisgjafir fyrir alla snyrtivöruunnendur á öllum aldri, hún hefur gott “value-for-money” og ýtir manni í að prófa að fara út fyrir þægindarammann!

Þar til næst,
Þórunn

Jólakveðjan 2016

Hæ elsku lesendur! Ég ætla að byrja þessa endurkomufærslu á bloggið á því að óska ykkur gleðilegra jóla og vona að komandi ár verði ykkur gæfuríkt og fullt af gleði. Ég ákvað að skrifa niður nokkur orð í dag, liggjandi veik heima með 5 tíma gamla en mjög elskaða nettengingu (ég flutti 16. desember, korter í jól, klukkutíma eftir síðasta prófið mitt).

Ég vona að orðin hafi einhverja stefnu en mig langar alltaf að sýna ykkur aðeins persónulegri hlið á sjálfri mér. Ég forðast alltaf þessar persónulegu færslur því ég er rosalega feimin og finnst eiginlega óþægilegt þegar að fólk tengir saman internet-Þórunni og raunheima-Þórunni, sú síðarnefnda svitnar og roðnar þegar að viðskiptavinir sem hún afgreiðir þekkja hana af blogginu. Ég er samt alltaf að reyna að komast aðeins yfir þetta og ætla að skrifa smá um þakklætið og hvað ég er þakklát fyrir þessi jólin án þess þó að verða svo væmin að ég fari að grenja.

Ég er ekki trúuð en fyrir mér eru jólin mikilvægur samverutími fyrir vini og fjölskyldur til að njóta og elska, borða góðan mat og gleðjast. Ég gat því miður ekki eytt miklum tíma með fjölskyldunni þetta árið því ég fór beint að vinna eftir prófatímabilið og var ekki viðræðuhæf eftir langa vinnudaga (engar áhyggjur, eftir að hafa lagt mig eftir vinnu á aðfangadag fékk ég ljómandi góðan jólamat og naut kvöldsins með fólkinu (og dýrunum) sem ég elska mest). Ég er þó rosalega þakklát fyrir að vinna hjá góðu fyrirtæki með stórkostlegum vinnufélögum sem gera alla daga aðeins betri og þakklát fyrir að viðskiptavinirnir þessi jólin voru (langflestir) yndislegir. Ég er þakklát fyrir að hafa getað haldið jól með fjölskyldunni minni og gæludýrum því það er ekki sjálfgefið að allir séu alltaf til staðar. Ég er auðvitað líka þakklát fyrir vinina, Alexander og Lubba sem allir gefa mér ómælda gleði og hamingju (Lubbi fagnar fljótlega 13 ára afmælinu sínu svo ég verð eiginlega að þakka fyrir hverja stund með honum, þó hann sé stálsleginn og furðulegri en nokkru sinni fyrr).

Ég er þakklát fyrir lesendurna á blogginu, bæði þá sem lesa bara og líka þá sem senda mér skilaboð/email til að ræða hlutina eða fá upplýsingar. Ég fæ hlýtt í hjartað við lestur á fallegum skilaboðum og þegar að þið sendið mér myndir af ykkur kaupa/prófa/skoða það sem ég hef sagt ykkur frá. Ég er óendanlega þakklát fyrir bloggið sjálft og alla frábæru einstaklingana sem ég hef kynnst í gegnum það og förðunarheiminn, margir hverjir eru orðnir góðir vinir mínir sem gera alla daga betri.

Ég er þakklát fyrir að það að hafa horfið af blogginu tímabundið hafi skilað sér í virkilega góðum einkunnum og að ef allt fer að óskum útskrifist ég úr tölvunarfræðinni í vor með meðaleinkunn sem er meira en í lagi (þið fyrirgefið mér vonandi fjarveruna, ég lofa að þetta verður ekki svona dapurlega dauft blogg eftir áramótin). Ég er þakklát fyrir að hafa fundið íbúðina sem við fluttum í fyrir jólin, hún er frábær og við erum með stórkostlega nágranna (hænurnar í gróðurhúsinu fá sér “mention” því þær eru drepfyndnar og nei ég er ekki að grínast og nei ég flutti ekki út fyrir borgarmörkin). Ég er þakklát fyrir að vera þokkalega heilbrigð og að ég fái að sitja hér á náttsloppnum að segja ykkur frá því.

Ætla að segja þetta gott núna, ég enda í 84892749 orða ritgerð með þessu áframhaldi svo mig langar eiginlega bara að segja við alla hér
Takk fyrir að vera til!
Ég hlakka svo til að geta verið meira með ykkur núna þegar að nýja árið nálgast og gengur í garð. Ég mun skella inn færslu strax í fyrramálið og reyna að smella einhverju inn reglulega (ég er enn að vinna frekar mikið). Árslistarnir fyrir 2016 eru svo í vinnslu svo þeirra má vænta á næstunni. Það er komið TAX-FREE á snyrtivörum í Hagkaup svo ég reyni kannski að vera extra dugleg. Ég vona að ég hafi getað sagt ykkur eitthvað af viti og þakkað ykkur fyrir samfylgdina, hún er mér svo ótrúlega mikils virði.

NÝTT: MAC X MARIAH CAREY

Færslan er ekki kostuð

Í DAG kom nýjasta lína MAC í verslanir á Íslandi en það er samstarf söngkonunnar/dívunnar Mariah Carey og MAC. Eftirvæntingin hefur verið gríðarleg og línan selst upp mjög hratt allsstaðar þar sem hún fer í sölu og ég held sjálf að Ísland verði engin undantekning. Það var þó eitthvað til í Kringlunni áðan þegar að ég kom við á leiðinni úr vinnunni. Umbúðirnar eru einar mestu glam-umbúðir sem ég hef séð frá MAC og einkennast af silfurglimmeri og gulllit. Ég er búin að prófa þrjár vörur úr línunni; fljótandi eyelinerinn (This Is My Night), bleika kinnalitinn (You’ve Got Me Feeling) og gloss (Dreamlover). Ég ætla að sýna ykkur nokkrar vörur úr línunni og setja með komment við þær sem ég prófaði. Ég fékk myndirnar af netinu samt.

This Is My Night er brúnsvartur fljótandi eyeliner, frábær formúla sem er auðvelt að setja á og hreinsa af. Var búin að gleyma hvað þessi formúla er góð – ég átti einu sinni alltaf nokkur eintök í einu.

Glossarnir eru gullfallegir, ég fékk Dreamlover að gjöf og elska hvað það er áberandi en á sama tíma passlega “muted” (já ég veit að ég tala í þversögn þarna). Mig langar að bæta við Rainbow Interlude glossinu sem er þetta ljósasta.

Varalitirnir eru svo fallegir, ég átti erfitt með að hemja mig í búðinni áðan því mér þykja umbúðirnar svo fullkomnar.

 

Kinnalitirnir eru súper fallegir og ég á þennan efri sem kallast You’ve got me feeling.

 

 

Ég hvet ykkur til að kíkja í næstu MAC verslun og skoða línuna, ég er allavega að íhuga að koma við aftur og kannski mögulega bæta smá við.

Þar til næst,
Þórunn

MAC <3 VIVA GLAM

vivaglam

HÆ! Ég hef áður skrifað um Alþjóðlega alnæmisdaginn eða World AIDS Day hér á blogginu en fannst kjörið að skella inn nýrri færslu í tilefni hans, 1. desember og líkt og fyrri ár heldur MAC á Íslandi þennan dag hátíðlegan.

Yfir 40 milljón manns lifa með HIV-smit eða alnæmi (AIDS) í heiminum og rúmlega 5.000 manns láta lífið af völdum sjúkdómsins daglega. Þetta er því málefni sem snertir okkur öll þar sem engin lækning er fyrir hendi eins og er og HIV spyr ekki um kyn, húðlit eða kynhneigð. Það er mikilvægt að það sé almenn vitneskja að þó einstaklingur smitist af HIV-veiru þá þýðir það ekki að hann smiti aðra við daglega umgengni.

2785191

HIV/AIDS er málefni sem er MAC sérstaklega kært og hefur fyrirtækið starfrækt styrktarsjóð tileinkaðan málefninu í 22 ár en hann kallast The MAC AIDS Fund. Sjóðnum var komið á laggirnar 1994 og hafa frá stofnun safnast um 355 milljónir dollara, hvaðanæva af úr heiminum, það væri svosem ekki frásögum færandi nema fyrir það að hver einasta króna, hvert einasta sent sem safnast hefur, kemur af sölu Viva Glam varalita og glossa. Sjóðurinn styrkir mörg ólík samtök um allan heim sem öll eiga það sameiginlegt að veita þjónustu til þeirra sem smitaðir eru. Því má eiginlega segja að hver einasti dagur sé alþjóðlegur alnæmisdagur hjá starfsmönnum MAC þar sem að það skiptir engu máli hvar í heiminum maður verslar Viva Glam vörurnar, þú ert alltaf að styrkja sjóðinn. Á hverju ári er fengin ný talsmanneskja fyrir Viva Glam en undanfarin ár hafa t.d. Miley Cyrus, Ariana Grande, Rihanna og Lady Gaga gengt því hlutverki. Talsmenn Viva Glam fá einn lit sem lifir í ár í senn, að árinu loknu hverfur liturinn og annar kemur í hans stað, það hafa stundum komið 2 litir frá sama talsmanni en ég er nokkuð viss um að það er einn á ári.

  • 1 Viva Glam varalitur kaupir næg lyf til þess að hindra HIV-smit frá móður til barns, fyrir 2 börn í Afríku
  • 1 Viva Glamn varalitur kaupir skólabækur fyrir 7 HIV-smituð börn í Afríku
  • 1 Viva Glam varalitur kaupir ársbirgðir af lyfjum fyrir fullorðinn HIV-smitaðan einstakling í Zimbabwe
  • 1 Viva Glam varalitur kaupir jólagjöf fyrir HIV smitað barn svo það geti haldið áhyggjulaus og hátíðleg jól

vivaglammileycyrus

MAC á Íslandi hefur veitt félaginu HIV Ísland styrki úr sjóðnum oftar en einu sinni og hafa þeir styrkir farið í að fjármagna forvarnarstarf fyrir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla landsins. Í ár ætlar MAC á Íslandi að vera með Viva Glam gleði dagana 1.-3. desember þar sem starfsmenn MAC í Kringlu og Smáralind hjálpa ykkur við val á Viva Glam vörum og að fullkomna ykkar Viva Glam look. Kaup á Viva Glam vöru eru fullkomlega réttlætanleg (fyrir þá sem eru eins og ég og þurfa alltaf að réttlæta öll kaup) og má flokka sem góðverk í jólagjafainnkaupunum.

Sjáumst með Viva Glam á vörunum!

Þar til næst,
Þórunn

1 2 3 4 5 6 7 64