Bestu hárvörur ársins 2017

Velkomin í round 2 af árslistum, ég ætlaði að hafa þá þrjá eeeen það gæti breyst örlítið. Hér höfum við mínar uppáhalds hárvörur á árinu 2017 en ég er þokkalega viss um að einungis ein þeirra hafi komið á markað árið 2017 en þið fyrirgefið mér það vonandi. Svo þið hafið smá upplýsingar um hárgerðina mína þá er ég með ótrúlega fíngert hár sem er frekar flatt og leiðinlegt og allar greiðslur leka úr því (ég er búin að finna aðferð til að það haldist fínt). Endarnir eru skraufþurrir en rótin á það til að verða fitug (eða hún virðist fitug því hárið verður svo flatt) en þessar vörur hafa hjálpað mér að halda því í skefjum á síðasta ári svona þegar að ég nenni að hafa fyrir því.

Fyrsta varan á listanum er ROD VS10 frá HH Simonsen sem er furðulegasta krullujárn sem ég hef prófað en á sama tíma eitt það þægilegasta. Krullujárnið er keilujárn með kúlum á svo krullurnar verða óreglulegri og líflegri heldur en þessir klassísku slöngulokkar. Járnið er fljótt að hitna en það er hægt að stilla hitastigið og það er ótrúlega auðvelt að gera fallegar krullur með því. HH Simonsen hefur reynst mér vel í gegnum tíðina en ég á sléttujárn frá merkinu fyrir og langar að fá mér ROD VS4 keilujárnið á næstunni.

Texture Tonic saltspreyið frá Aveda, eina varan á listanum sem kom á markað 2017, held ég að verði í uppáhaldi hjá mér að eilífu. Saltspreyið er extra hentugt fyrir fíngert hár en hárið verður meðfærilegra. Spreyið gerir hárið stamara og mér finnst það fá meiri lyftingu og fyllingu en það má nota það bæði í rakt eða þurrt hár til að ná fram mismunandi áferð. Mér finnst saltið líka aðeins ná að þurrka húðfituna úr hárinu svo með smá þurrsjampói og Texture Tonic má draga næsta hárþvott um 1-2 daga og hárið enn fallegt.

Le Pro hárblásarinn frá Babyliss er algjör draumur. Ég hafði prófað hann nokkrum sinnum í Byggt og búið en þetta er einn besti og öflugasti hárblásari sem ég hef notað. Ég var heila eilífð að þurrka á mér hárið með gamla blásaranum mínum en ég held ég sé 3-4 mínútur að þurrka það með Le Pro sem gerir það að verkum að ég nenni frekar að blása það eftir sturtu. Mér finnst stútarnir algjör snilld til að ná smá lyftingu í rótina og svo er hárið almennt mikið heilbrigðara og meira glansandi heldur en ef ég sleppi blásaranum og það allra besta er að litlu hárin sem eru blanda af sliti og endurnýjun sjást minna. Ég mæli 10000000000% með þessum, það eru til meira “fancy” útgáfur af honum en mér finnst þessi á myndinni vera fullkominn.

450° Blow Out hitavörnin frá Sexy Hair sem ég fékk að gjöf frá Hárvörur.is í sumar er ein sú allra besta sem ég hef prófað en hún er létt, þyngir ekki hárið eða gerir það olíukennt. Formúlan hefur örlítið hald sem mér finnst mjög gott (ég spreyja stundum smá auka yfir til að halda öllum lokkum á sínum stað) en hárið gljáir meira og allar greiðslur endast mikið lengur í hárinu. Hitavörnin ver hárið fyrir allt að 230°C heitum hártækjum (þó ég reyndar noti ekki svo mikinn hita) og formúlan flýtir enn meira fyrir þurrkun.

Perfect Hair Day línan frá Living Proof (hún heitir Healthy Hair á Evrópumarkaði) er í miklu uppáhaldi hjá mér en ég hef á þessu árið verið að nota sjampóið, næringuna, þurrsjampóið og “styling treatment”. Línan gerir hárið meðfærilegra og heilbrigðara en línan er súlfat- og sílíkonfrí og gefur hárinu meiri gljáa, lyftingu og með reglulegri notkun þarf maður að þvo hárið sjaldnar.

Air Control hárspreyið frá Aveda held ég að sé komið til að vera hjá mér en hárgreiðslukonan mín (Alma á Unique Hár og Spa) kynnti mig fyrir því fyrir löngu. Ég sló til á þessu ári og keypti mér brúsa en þetta hársprey er þurrt, með léttu haldi sem er vel hægt að vinna með og það allra besta er að það afrafmagnar hárið. Til að láta krullur endast extra lengi má spreyja létt yfir lokka áður en krullað er en þetta sprey gerir krullurnar ekki harðar/ljótar eins og sum geta gert. Ég hef prófað heilan helling af hárspreyjum í gegnum tíðina en ekkert þeirra kemst með tærnar þar sem Air Control hefur hælana.

Jæja, þá er samantektin fyrir hárvörurnar búin en aðrar vörur sem vert er að minnast á er vörulínan frá Briogeo sem kom í sölu á Íslandi á þessu ári ásamt Ouai Volume línunni sem ég tek reglulega skorpur með. Ég vona að lesturinn hafi gefið ykkur einhverjar hugmyndir að vörum til að prófa ef þið eruð með fíngert eða illviðráðanlegt hár.

 

No Comments

Leave a Reply