Bestu húðvörur ársins 2017

Jæja, fyrsti árslistinn af þremur er kominn í loftið og mig langar að óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs. Ég trúi því varla að árið sé á enda en 2017 var bara ágætis ár í mínu lífi þó það hafi skipst á skin og skúrir, ég útskrifaðist úr grunnnáminu í háskólanum og ferðaðist heilan helling og ég hlakka til að sjá hvað drífur á daga mína árið 2018. Fyrsti listinn sem ég ætla að taka fyrir er húðvörulistinn en á honum má finna 10 vörur sem mér finnst hafa skarað fram úr á síðasta ári þó þær hafi ekki allar komið á markað 2017.

Fyrsta varan sem ég setti á þessa mynd er Rubber Mask Bright Lover frá Dr. Jart+ sem ég ferja heim úr hverju einasta fríi, ég var samt að sjá í síðustu viku að ég get pantað mér þessa maska frá Selfridges sem er mjöööög góð tilfinning. Maskinn er ekki týpískur tuskumaski heldur gelmaski í tveimur pörtum sem kemur með krukku af maska sem maður ber á andlitið, hálsinn og bringuna áður en gelin eru sett á andlitið. Mér finnst húðliturinn jafnari og fallegri eftir að hafa notað maskann og elska að skella á mig maska á kvöldin og læt hann vera þangað til að gelin eru farin að þorna (ég er ekkert mjög mikið að pæla í tímanum). Ég elska líka Hydration Lover týpuna og hef keypt Firm Lover fyrir mömmu sem eru líka frábærar týpur.

Bi-Facil augnfarðahreinsirinn frá Lancome rataði auðvitað á listann minn og verður líklega þar það sem eftir er. Augnfarðahreinsirinn bræðir allan farða af og nærir augnhárin svo þau verða lengri og fallegri.

Skin Oxygen Strengthening Concentrate rakaserumið frá Biotherm er fislétt, andoxandi og frískandi. Ég fékk serumið ásamt hreinsi úr Skin Oxygen línunni í vetur og finnst línan vera fullkomin fyrir þennan árstíma þegar að kuldi, mengun og svifryk gera húðinni grikk. Línan er ætluð til að verjast þeim skemmdum sem mengun veldur djúpt í húðinni ásamt því að gera við skemmdir sem eru þegar til staðar, eftir áramótasprengjurnar er þetta akkúrat það sem ég er að marinera mig uppúr.

MAC Lip Scrubtious varaskrúbburinn kom inn í líf mitt í byrjun ársins og hefur hjálpað mér að losa skorpuna af vörunum svo ég naga þær síður, ég á berjableikan varaskrúbb sem gefur vörunum smá lit líka og er alltaf á leiðinni að fá mér glæran.

Dreamduo frá Glamglow er nætur-“treatment” sem gefur húðinni ljóma og raka og hefur reynst mér vel á árinu sem nú er liðið. Formúlan er tvöföld svo maður setur fyrst annað kremið og stuttu síðar hitt yfir. Mér finnst húðin svo þétt, falleg og ljómandi þegar að ég er dugleg að muna eftir að nota duoið öll kvöld og þetta er kannski ágætis áminning fyrir sjálfa mig að endurnýja krukkuna.

Leg Lifts frá Origins hefur gjörsamlega bjargað mér síðustu mánuði með þreytta fætur eftir langa daga. Kreminu er nuddað inn í fæturna en það kælir leggina og þreytan einhvernvegin líður úr manni, ég mæli sérstaklega með því fyrir þá sem standa mikið í fæturna í vinnunni eins og t.d. starfsfólk verslana og flugþjóna. Túpan endist mjög lengi (ég er ekki hálfnuð) og mér finnst kremið meira að segja hjálpa mér með fótapirring á nóttunni.

Paula’s Choice Skin Perfecting 2% BHA Liquid held ég að verði á mínum topplistum að eilífu en þessi sýra hjálpar mér að halda húðinni hreinni, skorpulausri og fallegri. Ég var búin að gleyma hversu fáránlega góður þessi vökvi er og keypti mér nýjan brúsa þegar að húðin var að stríða mér og ég steyptist út í bólum og fílapenslum og hún hefur hagað sér þokkalega síðan þá. Mæli með þessu fyrir alla sem vilja hreinni og fínni húð.

Tidal Brightening Enzyme Water Cream frá Sunday Riley kom inn í líf mitt í janúar/febrúar þegar að ég fékk stóra lúxusprufu í Sephora í New York og seint á árinu pantaði ég mér stóra krukku á netinu. Kremið gefur húðinni ótrúlega mikinn raka, mýkir hana og maður finnur raunverulegan mun djúpt í húðinni eftir notkun í lengri tíma. Ég fann muninn eftir að ég kláraði prufuna í vor (hún entist fáránlega lengi) því eftir smá tíma fannst mér húðin þurrkari en áður þó ég væri að nota mjög góð krem en þar sem kremið er frekar dýrt beið ég þangað til í vetur og sé ekki eftir kaupunum.

Lip Perfector úr Top Secrets línunni hjá Yves Saint Laurent er einn af mínum uppáhalds varasölvum en þessi smýgur djúpt ofan í varirnar og gefur þeim raka en losar líka um dauðu húðfrumurnar sem liggja á yfirborðinu. Rakinn og þetta létta “exfoliation” er fullkomin byrjun á varaförðun því rakinn helst lengi og varalitirnir eru fallegri eftir ásetningu.

Síðasta varan sem ég vil minnast á eru Peace Of Mind úr Sensory Therapy línunni frá Origins. Ég ELSKA þessa vöru en þetta er fislétt og þunnt krem sem vinnur á höfuðverk og stressi. Ég hélt í alvöru að þetta væri algjört bull en ákvað að prófa áður en ég gæti dæmt og hef ekki séð eftir því í eina sekúndu en ég fæ stundum slæman höfuðverk sem verkjalyf virka ekkert sérstaklega vel á og þá nota ég örlítið (ein pumpa er of mikið) af kreminu á gagnaugun, aftan á hálsinn og á eyrnasneplana. Þetta krem fæst á öllum sölustöðum Origins og fær mín bestu meðmæli.

Ég vona að þessi samantekt hafi ekki verið of ruglandi og mögulega kannski smá fræðandi í leiðinni en við sjáumst aftur hér á blogginu fyrir næsta part strax á morgun!

 

No Comments

Leave a Reply