Jólagjafahugmyndir fyrir heimilið

Hér er heimilisfærslan sem ég lofaði ykkur en ég tók saman ýmist vörur sem mig langar sjálfri í eða á hérna heima. Færslan er ekki kostuð á nokkurn hátt en ég vinn hlutastarf í Byggt og búið svo einhverjar af vörunum á listanum fást þaðan og þær eru raunverulega eitthvað sem ég er hrifin af eða er jafnvel búin að kaupa mér sjálf. Allar skoðanir eru mínar eigin og ég henti inn verðunum sem ég fann í fljótu bragði en þau gætu auðvitað breyst og ég get ekki lofað að ég muni uppfæra þau.

Á þessum hugmyndalista er fyrst uppáhalds ilmkertið mitt sem heitir Makassar Ebony & Peach frá Voluspa og fæst hjá Maia í Kringlunni og á Laugavegi. Ilmurinn er dásamlegur og ég á sjálf kerti sem fer reyndar alveg að klárast svo ég kannski þarf að fara að bregða mér til þeirra og splæsa í annað. Ég er líka með ilmstangir með sama ilm sem er líka mjög næs því það ilmar allt svo vel og það dugar alveg í 3-4 mánuði.  Ég gæti ekki sagt ykkur hvað kertin kosta þótt líf mitt liggi við en skvísurnar í Maia gætu kannski svarað þeim spurningum (ég í alvöru get aldrei hamið mig í Maia og borga alveg blint svo ég man aldrei verð á neinu).

Næsti hlutur á lista eru Pavina glösin frá Bodum en ég keypti mér einn kassa í síðustu viku af 350 ml glösum og ég er mjööög nálægt því að splæsa í annan. Kassinn er á 3995 í Byggt og búið og glösin eru tvöföld svo þau halda heitu/köldu. Það er einhver hátæknilegur ventill undir glösunum svo það komi ekki móða á milli og það myndast ekki móða utan á glösunum heldur sökum þessa tvöfalda glers. Ég veit ekkert um tæknina en mér finnst mjög gott að drekka úr þeim og þau henta mér ágætlega í kvöld-tedrykkjuna og Pepsi Maxið.

Ég keypti mér þennan Globe vasa frá AYTM þegar að Modern var með einhvern afsláttarkóða um daginn en hann er hrikalega sætur. Vasinn sjálfur er kúla og hún liggur í þessum gyllta hring sem þið sjáið á botninum. Það má snúa honum á alla vegu og ég hef séð hann notaðan undir kerti, jólaskreytingar og auðvitað blóm. Ég er svo léleg að koma heim með blóm að hann stendur reyndar bara tómur á kommóðu hérna heima en er engu að síður mjög smart. Hann kemur líka í grænu og þeir kosta 13790 (stærsta gerð) en eru líka til minni og ég keypti í Modern.

Stelton Theo kaffikannan er á óskalista míns heittelskaða en þetta er guðdómlega falleg kaffikanna fyrir “gamaldags” uppáhellingu en bæði kannan og kaffitrektin sjálf eru úr leir og Stelton lýsir þessu sem “slow brew” því kaffið lekur hægt niður. Þegar að maður er búinn að hella upp á er trektin tekin af og trétappinn settur á. Ég drekk sjálf ekki svona uppáhellingu en eins og ég segi, Alexander er mjög hrifinn af þessu svo ég hugsa að þetta rati inn á okkar heimili á næstunni. Þessi er á 9795 í Byggt og búið.

Design By Us Ballroom ljósið er (ásamt nokkrum öðrum Design By Us ljósum) á mínum óskalista þegar að við kaupum okkur íbúð en það er ekki að gerast alveg strax. Mér finnst þessi ljós æði sem náttlampar við rúm og líka til að lýsa upp gang eða eitthvað slíkt en þau koma í nokkrum litum og það er líka hægt að fá styttri ljós. Design By Us fæst í Snúrunni og þetta ljós er skráð þar á 55.000 krónur.

Cathrineholm Of Norway stálskálarnar eru nýjar í Kúnígúnd og mig dauðlangar í emeleraða stálskál frá merkinu en það er erfitt að velja hvaða skál. Ég skellti hér inn röndóttri svartri og hvítri 24 cm skál sem kostar 11990 krónur. Þessar má nota undir um það bil hvað sem er og mér finnst þær fáránlega flottar.

Erik Bagger Elegance bjórglösin finnst mér mjög falleg og þægileg en þau koma í 2 stærðum, 380 ml og 500 ml. Mér finnst stálhólkurinn utan um fótinn á glösunum mjög smart og brýtur aðeins upp lookið.

Næst er það Kubus púði í litnum Winetasting frá Georg Jensen Damask en ég keypti mér í byrjun desember bæði svona rauðan (Winetasting) og gráan (Castlerock). Púðarnir eru mjög fallegir með klassísku munstri og auðvitað það mikilvægasta að þeir eru ótrúlega þægilegir og góðir í sófann og auðvitað ofan á rúm (það er til rúmteppi í stíl). Verðið á púðunum er 9.990 í Kúnígúnd og þar er líka hægt að fá þá í bláu og einnig teppin í stíl.

Nordstjerne viðarboxin með marmaralokunum eru næst síðasta varan á mínum lista en ég keypti mér XL stærðina í haust og finnst það mjög fallegt og þægilegt. Þetta eru einföld og stílhrein box með marmaralok sem er bæði hægt að nota ein og sér sem marmaraplatta og ofan á boxin. Það er hægt að fá nokkrar stærðir og bæði svartan og hvítan marmara á toppinn. Þessi fást í Snúrunni og XL stærðin kostar þar 14.990 krónur.

Síðasta varan á listanum mínum er Le Creuset pottur en þeir sem þekkja mig vita að ég er forfallinn Le Creuset fíkill og á nokkra svona steypujárnspotta ásamt öðrum aukahlutum frá merkinu. Minn uppáhalds litur er liturinn Ocean sem þið sjáið á myndinni og ég myndi mæla með honum í 24 cm stærðinni sem er á 36.995 í Byggt og búið. Í þessum pottum er hægt að gera um það bil hvað sem er og þeir virka á alla hitagjafa.

Þetta er listinn sem ég vildi deila með ykkur sem hugmyndalista fyrir heimilisgjafirnar þó það sé reyndar orðið ansi stutt í jól og margir löngu búnir með gjafainnkaupin. Þetta eru bæði mínar uppáhalds vörur og þær sem mig langar sjálfri að eignast á næstunni.

 

No Comments

Leave a Reply