Jólagjafahugmyndir – snyrtivörur

Loksins get ég gubbað smá orðum útur mér en mig langaði að deila smá jólagjafahugmyndum með ykkur fyrir snyrtivöruáhugafólkið í ykkar lífi. Vörurnar á listanum eiga það allar sameiginlegt að fást á Íslandi og ég reyndi að hafa smá blöndu fyrir ykkur. Ef ég finn verðin á vörunum einhversstaðar skal ég reyna að skella þeim með hér að neðan.

Fyrsta varan sem ég ætla að mæla með í jólagjafir er Buildable Cheek Brush frá Smashbox sem ég keypti í haust og ætlaði að vera löngu búin að skella hingað inn en þetta er sá allra besti kinnalitabursti sem ég hef nokkurntíman prófað og ég ætla að bæta við fleiri burstum frá Smashbox á næstunni.

Næst á listanum er naglalakk frá Lancôme sem voru að fá nýja og endurbætta formúlu en þetta eru ein bestu naglalökk sem ég hef prófað og mig langar að mæla með lit 202 sem ég fékk að gjöf um daginn. Það eru til bæði gloss og varalitur í stíl við naglalakkið og ég veit ekki með ykkur en ég er alltaf svolítið veik fyrir svona “matching”.

Rouge Pur Couture varalitur frá Yves Saint Laurent er alltaf klassísk gjöf og liturinn 01 (og 201 sem er mött útgáfa af honum) er litur sem allir geta notað en hann er bjartur og fallegur rauður sem er fullkominn fyrir hátíðarnar.

Extra Dimension kinnalitirnir frá MAC rata á þennan meðmælalista og þá sérstaklega liturinn Into The Pink. Kinnalitirnir eru allir með sanseringu sem gefur satínáferð og “highlight”-a á sama tíma og þeir gefa fallegan lit og útkoman er gullfalleg. Ég er mjög oft með þennan í snyrtibuddunni og nota hann líka stundum á varirnar.

Heavy Metals palletan frá Urban Decay varð að fá að vera með en þetta er að mínu mati hátíðarpalletta ársins (nema ég sé að gleyma einhverri en ég held ekki) þar sem hún inniheldur bara augnskugga með málmáferð og hentar fullkomlega í komandi jóla og áramótafarðanir. Hún er að mig minnir á 7999 svo hún er á mjög góðu verði.

Real Techniques burstasettið Illuminate+Accentuate er á um 4500 krónur og er ótrúlega veglegt. Ég fékk eitt svona sett að gjöf og stend sjálfa mig að því að grípa einhvern bursta eða svamp úr því á hverjum degi. Settið inniheldur 3 augnbursta og 2 andlitsbursta ásamt litlum og stórum förðunarsvömpum sem ég hafði hreinlega gleymt hvað væru góðir. Mjög flott og veglegt sett fyrir einhvern sem er að byggja upp burstasafn.

Viseart Petit Pro augnskuggapallettan sem fæst hjá Fotia er mjög falleg gjöf og þægileg lítil palletta til að eiga því hún er vel samsett og auðvelt að gera fallega augnförðun með skuggunum í henni. Ég keypti mér eina svona fyrr á árinu og gríp hana mjög oft með mér ef ég vil hafa möguleikann á að gera fallega förðun með lítilli fyrirhöfn (ég er alltaf með snyrtibuddu í vinnutöskunni minni til að geta skutlað á mig fési ef þess þarf). Hún er á 4990 krónur hjá Fotia.

Supermud frá Glamglow fær mín meðmæli í alla jólapakka því þessi hreinsimaski er algjör snilld. Maskinn er til í bæði 50 og 100 gramma umbúðum ásamt litlum prufuumbúðum sem ég hef séð í Hagkaup og því hægt að gera góð kaup. Supermud er mjög öflugur og hentar öllum kynjum og ég persónulega er alltaf að grípa í nýju krukkuna mína (ég var að kaupa mér nýjan í 50 gramma stærðinni eftir að hafa áður átt gömlu stærðina sem var minni). Mér sýnist 50 gramma gerðin vera á um 7500 krónur.

Síðasta varan á mínum lista er frá Origins og er Ginzing Ultra-Hydrating Energy-Boosting Cream sem ég keypti mér í vetur fyrir þurru vetrarhúðina. Þessi gerð af kreminu er mjög rakagefandi (það er til annað léttara krem úr sömu línu sem mér fannst mjög gott) og appelsínu-ilmurinn er algjör draumur. Mér finnst krukkan ætla að endast mér heila eilífið og rakinn er passalega mikill, ef ég finn að ég er extra þurr nota ég serum með en oftast nota ég bara krem og svo farða yfir. Verðið á kreminu er eitthvað um 3800 krónur svo það er mjög gott “value-for-money”.

Þá er minn listi kominn hér á bloggið og ég er að setja saman smá heimilislista líka sem ætti að rata inn á bloggið á morgun ef allt gengur upp. Ég er með allt á síðustu stundu akkúrat núna en nóvember og desember hafa bara ekki verið mínir mánuðir þar sem ég hef verið undir frekar miklu álagi og að vinna mikið. Við fjölskyldum kvöddum elsku Lubba okkar í nóvember og það hefur svolítið sett mig í lægð sem hefur verið erfitt að komast upp úr, ég er ekki vön að vera svona mikið persónuleg hér á blogginu en finnst ég svolítið skulda skýringu á þessari litlu viðveru minni. Mér finnst lífið vera að sigla í rétta átt þessa dagana og finnst ég vera að mjakast út úr þessari lægð og nýti tækifærið og skrifa færslur og undirbý topplistana fyrir árið sem ég hafði hugsað mér að setja inn eftir jólin. Það er allskonar snilld í vinnslu svona þegar að tíminn og orkan í skrifin gefast.

No Comments

Leave a Reply