Jólin frá MAC

LOKSINS! Jólalínan í ár frá elsku MAC kom í verslanir í gær og ég rauk auðvitað af stað í smá göngutúr niður í Smáralind til að kaupa mér eitthvað úr henni. Línan í ár kallast Snow Ball og er extra glitrandi og falleg og ég viðurkenni að hafa átt erfitt með að velja á milli en ég keypti 3 hluti (einn innihélt þó fleiri en eina vöru).

Jólalínan samanstendur af nokkrum stökum vörum og svo settum, ég bjóst við því að vörurnar væru dýrari en það kom mér mjög skemmtilega á óvart að verðin voru frekar góð og líklega lægri en á síðustu árum (MAC hefur lækkað verðin hjá sér síðastliðið ár sem er mjög gott!) en ég sá t.d. varalitasett sem voru undir 6000 krónum.

Ég keypti Snow Ball Face Bag sett í litnum Gold sem inniheldur fulla stærð Extra Dimension Skinfinish highlighter í litnum Whisper of Gilt ásamt 140 SES bursta í pallíettutösku. Taskan er með smá loðdúsk við rennilásinn og frekar nett og þægileg og þar sem hún glitrar sé ég alveg fyrir mér að hafa hana í stóra vinnuveskinu mínu í staðinn fyrir ljótu snyrtibudduna sem er þar núna (þar sem ég geymi þær vörur sem ég þarf til að geta sett upp fullt fés á minna en 3 mínútum). Settið kostar 7990 krónur.

Highlighterinn er ótrúlega fallegur á litinn og passlega “glimmeraður” en agnirnar eru frekar litlar og ýkja ekki áferðina á húðinni eins og sumir highlighterar vilja gera, þ.e. að allar bólur eða húðholur verða meira áberandi en áður. Munstrið er gullfallegt og umbúðirnar líka.

Af stöku vörunum keypti ég augnskuggann It’s Snowing sem er Extra Dimension augnskuggi. Liturinn er mjög sniðugur því það má vel nota hann með öðrum augnskuggum en líka einan og sér. Formúlan er mýkri í þessum skugga heldur en flestum Extra Dimension augnskuggum sem ég hef prófað og auðveldara að vinna hana. Verðið á þessum er 3690 krónur.

Það síðasta sem ég keypti var svo þessi gullfallegi matti varalitur sem kallast Rouge En Snow og er hinn fullkomni jólarauður. MAC lýsir litnum sem eplarauðum sem mér finnst nokkuð góð lýsing en hann er mjög sterkur rauður með örlitlum bláum/köldum tóm og minnir mig kannski aðeins á Ruby Woo nema að mér finnst formúlan á þessum 10000000000x betri. Liturinn er mjög þéttur og endist ágætlega, formúlan er frekar mjúk miðað við möttu litina hjá MAC en mér finnst hann enganvegin síðri. Umbúðirnar eru gullfallegar og að mínu mati er varaliturinn eiginlega eins og skartgripur þegar að þær eru svona áberandi fallegar að fólk tekur eftir þeim. Varaliturinn kostar 3490 krónur.

Hér sjáið þið swatches, efstu 2 eru highlighterinn Whisper of Gilt (í efra swatchinu er ég búin að blanda hann aðeins út), því næst It’s Snowing augnskugginn og loks Rouge En Snow varaliturinn. Ég er alsæl með kaupin og hlakka til að skarta þessu öllu yfir vetrarmánuðina og reyndar áfram eftir það. Ég hvet ykkur til að kíkja í MAC í Kringlunni (já það er búið að opna búðina aftur) og MAC í Smáralind og skoða þessar jólabombur á meðan að þær eru til en það var orðið lítið til af sumum vörum þegar að ég var að skoða í gær. Jólalínur eru alltaf vinsælar í jólapakkana og allar líkur á að jólalínan frá MAC sé á óskalista margra.

No Comments

Leave a Reply