Húðhreinsimaskar frá Caolion

 

Ég keypti mér mjög spes maskadúó í sumar sem kallast Hot & Cool Pore Pack Duo og er frá framleiðanda sem kallast Caolion. Caolion er Kóreskt snyrtivörumerki og leggur áherslu á að framleiða vörur sem henta fyrir viðkvæma húð og eru litarefna- og ilmefnalausar og lausar við alkóhól. Fyrirtækið er þekktast fyrir vörur sem minnka svita og húðholur og þetta ljómandi fína dúó er ein af þekktustu vörum merkisins.

Fyrri maskinn sem maður notar kallast Premium Blackhead Steam Pore Pack (skv öllu internetinu en á mínum stendur Premium Pore Purifying Steaming Pack en mér skilst að hann hafi skipt um nafn eða sé með mismunandi nöfn í Evrópu og annarsstaðar) og er “steaming” maski sem hitar húðina og opnar svitaholurnar ásamt því að hreinsa upp úr þeim. Maskinn losar um dauðar húðfrumur og inniheldur “grain powder” sem ég hreinlega fann ekki gott orð yfir. Maskinn inniheldur einnig mulin kol sem sjúga í sig umfram húðfitu og óhreinindi sem liggja á húðinni og mér skilst að það sé einhverskonar kolsýrt vatn í maskanum líka þó ég hafi ekki tekið sérstaklega eftir því. Ég nota maskann einu sinni í viku og set þá passlegt magn á hreina og þurra húð og nudda varlega í c.a. 2 mínútur og læt maskann svo liggja á í 8 mínútur þar sem hann hitnar og galopnar húðholurnar (það er gefið upp 5-10 mínútur) og skola svo með köldu vatni. Mér brá í fyrsta skiptið sem ég prófaði maskann því mér varð svo rosalega heitt í andlitinu en núna finnst mér þetta mun þægilegra.

Seinni maskinn er svo Premium Pore Original Pack sem er kælandi maski sem dregur svitaholurnar saman og róar húðina svo maður er ferskari. Maskinn inniheldur jökulvatn frá Alaska til að gefa húðinni raka sem endist lengur en maskinn liggur á húðinni og einhverskonar mentholblanda kælir húðina og róar hana eftir ertinguna sem fyrri maskinn skilur eftir sig. Maskinn er settur á þurra húð og látinn bíða í 10-15 mínútur, mér finnst best að leyfa honum vera í þessar 15 mínútur og skola svo með volgu vatni. Framleiðandinn bendir á að það sé gott að geyma þessa týpu í ísskáp en þar sem ég keypti duo verða maskarnir að vera geymdir saman. Mér finnst húðin mjúk og fersk eftir að ég nota þennan.

Ég er alsæl með kaupin og finnst líklegt að ég kaupi full size af báðum möskum en finnst svona pakkar góð leið til að kynnast merkinu og vörunum án þess að splæsa í risa-krukku af einhverju sem ég nota svo aldrei. Ég keypti dúóið frá Caolion í Sephora í Mílanó og ég veit að þetta fæst t.d. í Sephora í Danmörku og Boots í Bretlandi svo þetta er frekar auðfáanlegt erlendis.

No Comments

Leave a Reply