Október óskalisti

Það er löngu kominn tími á óskalista og ég ákvað að deila með ykkur þeim vörum sem eru á óskalistanum mínum þessa dagana, ein af vörunum rataði reyndar heim til mín (alla leiðina frá Selfridges) í gærkvöldi og eina pantaði ég á meðan ég setti saman þessar myndir að ofan en þær fengu að vera með. Einhverjar af vörunum eru til á Íslandi, aðrar væntanlegar og svo eru einhverjar sem ég hef ekki hugmynd um stöðuna á.

Efst á lista er All Hours Concealer hyljarinn frá YSL sem ég er að vona að komi til landsins á næstunni. Þekjan á að vera góð og áferðin gullfalleg. Hann kom á markað í All Hours línunni frá merkinu og mig langar reyndar í hverja einustu vöru í þeirri línu en ég hef lesið á netinu að þessi sé magnaður og því skellti ég honum á listann.

Næst á lista er Apres Ski pallettan frá Becca Cosmetics sem ég pantaði mér á meðan ég bjó til samsettu myndina að ofan. Pallettan er líklega í takmörkuðu upplagi (held hún tilheyri jólalínu) og inniheldur þekkta highlightera og kinnaliti ásamt splunkunýjum hvítum lit sem heillar mig. Becca Cosmetics er væntanlegt í sölu í Lyfjum og Heilsu í Kringlunni 13. október en ég held að þessi palletta verði því miður ekki í boði þar en vöruúrvalið á Íslandi verður samt ansi veglegt. Þið fáið spes Becca-óskalista í tilefni komu merkisins á næstu dögum.

Glamglow Volcasmic er rakakrem sem ég veit að er að koma í verslanir á næstu dögum. Rakakremið á að gefa góðan raka og áferðin á að vera mött en á sama tíma með smá ljóma. Ég er alltaf með augun opin ef ég skyldi finna hið fullkomna rakakrem þar sem húðin mín er andsetin þessa dagana og ég þrái smá stöðugleika og minni olíugljáa. 

Timecheck Lotion frá MAC er búið að vera til sölu á Íslandi í þónokkurn tíma og ég held ég verði bara að prófa. Þetta er blanda af primer og rakakremi með “blörrandi” áhrifum og á að gefa góðan raka og auðvelda farðaásetningu og hefur verið á óska/innkaupalistanum mínum í langan tíma.

Lancôme Matte Shaker í litnum 1976 en þetta er “liquid lipstick” úr Olympia Le Tan línunni frá Lancôme. Þessi lína er svo ótrúlega falleg og ég vona svo innilega að hún komi til Íslands því mér finnst eiginlega allar vörur í línunni vera stórstjörnur, fallegir litir og pallettan ein og sér er listaverk. Matte Shaker formúlan er með þeim betri og þessi litur er fullkominn fyrir haustið. 

GinZing augnkremið frá Origins er næst, kremið á að minnka þrota og lífga upp á augnsvæðið. Ég hef prófað GinZing rakakremið og fannst það frábært, appelsínulyktin og koffeinið unnu saman að því að gera mann hressari og frískari og mér skilst að augnkremið sé í sama flokki. Mér finnst ég finna meiri þörf fyrir augnkrem þegar að byrjar að hausta og þreytan og skammdegið taka yfir og því skelli ég mér líklega á þetta á næstunni.

Bobbi Brown Highlighting Powder, ég þrái þessa highlightera og þessi á myndinni er í litnum Pink Glow. Ljóminn af þessum púðrum er svo fallegur og formúlan sjálf silkimjúk. Það má alveg segja þessa dagana að ég sé ljóma-highlight-glow-sjúk!

Bursti númer 159 frá MAC hefur lengi verið á listanum mínum en hann er duo-fiber kinnalita/púðurbursti. Ég elska að nota duo-fiber bursta og safnið er orðið ansi veglegt en þessi er svolítið sér á báti og á sér ekki hliðstæðu í þeim burstum sem ég á. 

Síðasti hluturinn kom svo heim með DHL í gærkvöldi en það er Desert Dusk pallettan frá Huda Beauty en hún er gullfalleg 18 skugga augnskuggapalletta frá samfélagsmiðlastjörnunni og bloggaranum Huda Kattan. Þar sem ég er búin að fá hana í hendurnar ætti hún kannski ekki að vera á listanum en við látum það sleppa. Pallettan inniheldur blöndu af möttum, sanseruðum og glimmerskuggum og ég hugsa að ég skelli henni hreinlega í færslu. 

Ég vona að óskalistinn minn hafi gefið ykkur einhverjar hugmyndir eða innblástur fyrir ykkar eigin lista eða jafnvel gjafahugmyndir fyrir fólkið í kringum ykkur. Það verður áhugavert að sjá hvort ég fái mér eitthvað af listanum eða hvort einhverjir hlutir detti út en ég tek mér oftast langan tíma í að ákveða hvort mér finnist hlutir vera peninganna virði áður en ég kaupi.

No Comments

Leave a Reply