MAC – Rollerwheel Liquid Liner

Vörur sem fjallað eru bæði gjafir og keyptar af greinarhöfundi

Hæ! Ég er búin að skrifa þessa færslu svona 15 sinnum og núna fáið þið loksins lokaútgáfuna. Nýlega kom á markað nýr og mjög frumlegur eyeliner frá MAC sem kallast Rollerwheel Liquid Liner og ég greip tækifærið úti á Ítalíu og keypti mér eitt stykki í eina litnum sem var til í búðinni (brúnn – Rollerwheel Brown) sem þið sjáið á myndinni hér að ofan. Seinna kom hann á markað hér á landi og þá var ég svo heppin að MAC á Íslandi sendi mér einn skærbláan (Roller Royale) sem heillaði mig uppúr skónum og ég notaði hann á myndunum hér að neðan. Eyelinerinn fékk á dögunum Allure Best of Beauty 2017 verðlaun í flokknum “Breakthrough” og eru þessi verðlaun að mínu mati fullkomlega verðskulduð.

Rollerwheel Liquid Liner er frábrugðinn öllum eyelinerum sem ég hef prófað á ævinni en ásetjarinn er eins og lítill pizzuskeri sem maður notar til að rúlla formúlunni á. Litli diskurinn dregur í sig fullkomið magn af formúlu svo maður geti rúllað fullkominni línu á augnlokið án þess að það komi misfellur eða að maður þurfi að bæta við formúlu til að klára að draga yfir augnlokið. Þessi litli diskur er örþunnur svo það er auðvelt að gera fíngerðar línur en engin fyrirhöfn að gera þykkari línur ef maður vill en ég vil samt taka það fram að maður þarf að æfa sig örlítið ef maður vill hafa þetta óaðfinnanlegt. Mér finnst ásetjarinn ótrúlega þægilegur og finnst sjaldan hafa verið eins auðvelt að gera jafna vængi og fínar línur og ég veit að mamma er sammála mér (hún fékk brúna lánaðan og ég efa það að ég fái hann aftur). Mig langar samt að taka það fram að það þarf ekki að ýta fast niður, ég prófaði það fyrst og fékk klessur en ef maður leyfir ásetjaranum bara rúlla létt er þetta mun betra og klessulaust.

Formúlan er þunnfljótandi og nokkuð jöfn, mér finnst blái aðeins gegnsærri en sá brúni (þ.e. að ég sé það sem er undir linernum) en báðir litir eru mjög góðir. Það eru til 4 litir, 3 þeirra eru með formúlu sem þornar mött og einn með “shiny” áferð en allir eru þeir vatnsheldir og eiga að haldast lengi á. Mínir litir, Roller Royale og Rollerwheel Brown, eru báðir mattir og þorna hratt sem að mínu mati er nauðsynlegt ef fljótandi eyeliner á að vera góður. Ég hafði heyrt gagnrýni á formúluna að sumum þætti hún óþægileg þegar að hún þornaði en ég hef ekki fundið fyrir því en hef svosem alltaf notað primer/kremskugga undir. Endingin á mér er mjög fín, mér finnst hann aðeins byrja að brotna niður eftir svona 11-12 tíma en þó ekki þannig að lookið sé ónýtt. Á myndunum er linerinn aðeins “brotinn” en ég var búin að vera að kafna úr ofnæmi og nuddaði augun full-harkalega svo hann brotnaði aðeins í innri augnkrók.

Ég bjó til smá look þegar að ég tók “close-up” myndirnar hér að ofan og setti allar vörurnar sem ég notaði á listann á myndinni.

Þið fáið alla 4 liti af Rollerwheel eyelinerum í MAC í Smáralind en ég er því miður ekki með verðið á hreinu. Ég hef allavega aldrei verið eins fljót að setja á mig jafna eyeliner-vængi og ef þið eruð enn að rembast við þessi límbandstrikk fyrir eyelinervængi mæli ég með að prófa hvort þessi bjargi ekki bara málunum.

 

No Comments

Leave a Reply