Erborian – Black Cleansing Oil

Greinarhöfundur keypti vöruna sjálfur

Erborian er snyrtivörumerki sem ég kynntist óvart í Frakklandi 2015 og féll strax fyrir, ég keypti óvart varasalva sem hafði verið í innkaupakörfunni í Sephora og síðan þá hef ég tekið snúning í öllum Sephora verslunum sem ég hef heimsótt eftir það til að skoða hvað sé í boði. Erborian er franskt-kóreskt merki og sameinar þar tvo húðumhirðu-risa og útkoman er að mínu mati frábær, ég hef elskað allt sem ég hef prófað. Úrvalið í Sephora er mest í Evrópu (þar voru vörurnar líka ódýrastar, það gæti þó hafa breyst) og ég greip tækifærið í Mílan og keypti mér nokkra hluti frá merkinu og einn af þeim var þessi svarta hreinsiolía.

Olían er kolbikasvört og inniheldur “activated charcoal” eða virkjað kolefni/lyfjakol sem hefur magnaða hreinsunareiginleika en kolin virka eins og svampur fyrir óhreinindi í húðinni. Olíunni er nuddað yfir húðina (hún leysir upp vatnsheldar förðunarvörur svo það þarf ekki að hreinsa húðina fyrir notkun) til að leysa upp óhreinindin. Þegar að olían svo kemst í snertingu við vatn verður hún að hreinsimjólk sem má svo strjúka af með rökum þvottapoka.

Ég elska formúluna, það er enginn stingur og engin óþægindi og húðin er tandurhrein (ég prófaði það með hvítri bómull og tóner, bómullin var enn hvít eftir að hafa verið strokið yfir allt andlitið). Það er engin lykt af formúlunni og hún skilur ekki eftir filmu á húðinni eins og eftir margar svona hreinsiolíur en á sama tíma er húðin ekki stíf eða þurr eftir notkun. Ég er (síðan ég prófaði olíuna fyrst) búin að fara í gegnum það að vera með feita, blandaða og þurra húð (utanlandsferðir og veðrabreytingar fara ekki vel í húðina mína) og niðurstöðurnar alltaf þær sömu enda á olían að henta öllum húðgerðum, meira að segja viðkvæmri húð. Fyrir áhugasama um innihaldsefni er gott að taka fram að hreinsiolían er án parabena, súlfata og þalata.

Ég mæli með því að þið prófið olíuna ef þið getið, það er svo einfalt að nota hana og maður notar bara pínulítið í hvert skipti. Þið getið fengið olíuna í Sephora bæði í Bandaríkjunum og Evrópu og eflaust á fleiri stöðum. Selfridges selur vörur frá Erborian og senda frítt til Íslands en því miður sé ég olíuna ekki í vefverslunni þeirra þegar að ég sit að skrifa þessa færslu. Olían kostar 29 dollara í Sephora í USA, 25 evrur í bæði franska og ítalska Sephora og 210 danskar krónur í danska Sephora.

 

No Comments

Leave a Reply