Nýtt frá MAC – Bold & Bad Lash

Greinarhöfundur keypti vöruna sjálfur

Ég kom við í MAC í Mílanó í sumarfríinu og keypti mér þennan glænýja maskara sem kallast Bold & Bad Lash og heillaðist upp úr skónum. Þessi færsla er búin að mótast í hausnum á mér síðan ég prófaði maskarann í fyrsta skipti og þar sem að ég veit að hann er lentur í MAC á Íslandi er kominn tími á að smella henni hingað inn.
Ég hef átt marga maskara frá MAC í gegnum tíðina og hef, ótrúlegt en satt, fílað þá alla og suma keypti ég margoft (ég var ekki nýjungagjörn fyrst, ég átti t.d. fyrst alltaf nóg af Plush Lash maskaranum og þá þurfti ég lítið annað). Þegar að ég sá að það væri kominn nýr maskari frá merkinu fór hann beint á innkaupalistann fyrir Ítalíuferðina, ég keypti hann að sjálfsögðu, prófaði og nú erum við hér.

Bold & Bad Lash er tvískiptur maskari með tvær formúlur. Annar burstinn er lítill og nettur og hugsaður fyrir neðri augnhárin (ásamt innri og ytri augnkrókum sem vilja oft vera erfiðir) og hann kemur með formúlu sem hentar sérstaklega vel fyrir þau. Formúlan er léttari og er ætluð til að skerpa á augnhárunum en mér finnst hún mjög þægileg því ég vil alls ekki lengja neðri augnhárin mín mikið. Litli burstinn og hólfið með formúlunni eru inni í stærri burstanum. Stærri burstinn og formúlan sem fylgir honum gera augnhárin bæði lengri og þykkari og ná að bretta þau ágætlega. Formúlan heldur krullunni á augnhárunum allan daginn án þess að molna eða byrja að klessast undir augunum. Mér finnst flott að setja örlítið með stóra burstanum yfir neðri augnhárin til að gefa smá auka skerpu þegar að ég er að fara út og því finnst mér maskarinn henta mjög vel í “day-to-night” farðanir og finnst gott hversu auðvelt er að stýra útkomunni.

Umbúðirnar eru mjög flottar en þær eru silfraðar með flauelisprenti og svo er rauði toppurinn á litla burstanum eiginlega “the cherry on top”. Maskarinn inniheldur í heildina 9.7 grömm af vöru, í litla hólfinu fyrir neðri augnhárin eru 1.7 grömm og í því stærra eru 8 grömm. Flestir maskarar eru í kringum 6-10 grömm og því ágætt “value” í þessum. Ég bjó til þessar myndir hér að ofan til að sýna ykkur hvernig hann kemur út á mér en ég er allavega alsæll notandi og fannst því ekki leiðinlegt þegar að ég fékk eitt eintak sent frá MAC á Íslandi í gærdag þar sem það er ekkert verra að eiga “backup”.

Ég er búin að vera að nota maskarann núna í næstum því 3 vikur og gef honum mín meðmæli, sérstaklega fyrir þær sem hafa verið í vandræðum með neðri augnhárin. Að laga klessur eða bara að ná hinu fullkomna “looki” er engin fyrirhöfn og förðunin verður fallegri. Ég hvet ykkur til að kíkja í MAC í Smáralind og skoða þennan fína maskara, ég er reyndar með fleiri MAC maskarafærslur á prjónunum en fyrir þá sem vilja stýra útkomunni sem allra best myndi ég mæla með þessum!

 

 

 

No Comments

Leave a Reply