OPI – The Iceland Collection

Vörur sem fjallað er um fékk greinarhöfundur að gjöf

Ég fékk annan skemmtilegan pakka við heimkomuna frá Ítalíu en í honum leyndust þrjú naglalökk úr nýjustu línu OPI sem er innblásin af Íslandi. Línan kallast The Iceland Collection og er komin í verslanir hér á landi (ég er örlítið sein í þessu en þið fyrirgefið mér það vonandi). Í línunni eru 12 nýir litir sem allir eru innblásnir af náttúru Íslands og það er auðvelt að sjá tengingarnar við hraunið, mosann, jöklana og aðra hluti sem einkenna landslagið okkar. Litirnir koma bæði í hefðbundnu OPI formúlunni og gel-útgáfu en ég prófaði bara þessa klassísku, hef aldrei prófað gel-týpurnar frá OPI en er með það á listanum mínum.

Áður en ég fjalla um mína liti ætla ég að skella inn nöfnunum.

That’s What Friends Are Thor – hlýr brúnn
Krona-logical Order – espresso brúnn
Turn On The Northern Lights – blár með fjólublárri/bleikri sanseringu, minnir á norðurljósin
Less Is Norse – blágrár
Check Out The Old Geysirs – ljósblár með sanseringu
I’ll Have A Gin And Tectonic – ferskjutónn
One Heckla Of A Color – ljósfjólublár með bleikum tón
Reykjavik Has All The Hot Spots – glimmer/sanseraður rósagylltur
Aurora Berry-alis – sterkur berja-bleikur
This Isn’t Greenland – ljós mosa-gul-grænn
Suzi & The Arctic Fox – dökkur fjólugrár
Icelanded A Bottle Of OPI – brúnleitur beige

Ég fékk litina Icelanded A Bottle Of OPI, This Isn’t Greenland og Suzi & The Arctic Fox sem voru allir litir sem heilluðu mig uppúr skónum. Ég vildi að ég hefði tekið myndir með lakkið á nöglunum en þar sem ég er búin að naga af mér naglaböndin af stressi undanfarið var það ekki beint það fallegasta sem ég gat myndað. Í staðinn ákvað ég að búa til samsettar myndir og ætla að skrifa örlítið um hvern lit. Mínir litir voru allir mjög hlutlausir en það eru auðvitað meira “flashy” litir í línunni líka sem ég á eftir að prófa.

Þessi hér, Icelanded A Bottle Of OPI, er minn uppáhalds. Þetta er fullkominn grátóna “nude” litur sem hentar við öll tilefni. Hann er frekar þekjandi og jafn svo það koma ekki miklar rákir í lakkið við ásetningu. Mér finnst hann fallegastur með 2 umferðum (full þekja) en ég prófaði líka eina sem kom ótrúlega vel út en entist ekki alveg jafn vel á. Ég er með sérstaklega erfiðar neglur sem fátt loðir við en ég náði 3 dögum áður en ég fékk fyrstu sprungu sem er nokkuð gott.

This Isn’t Greenland er í einum af mínum uppáhalds litum en ég ELSKA mosagræna tóna. Hann er frekar þekjandi og auðvelt að ná honum fallegum á, ég prófaði endinguna reyndar ekki neitt sérstaklega með þennan heldur skipti bara á öðrum degi til að ná að komast yfir prófin en hann var fallegur allan tímann og tók sig sjúklega vel út við grænu kjólana og buxurnar mínar.

Suzi & The Arctic Fox er mjög dökkur grá-blá-fjólutóna litur sem er fullkominn fyrir veturinn. Mér fannst hann augljóslega mun dramatískari en hinir 2 sem ég prófaði en mjög fallegur og passar við allt. Hann fékk sama endingarpróf og sá mosagræni og var enn fallegur á öðrum degi (hálfur dagur er afrek hér, ég er með það sem ég kýs að kalla “teflonneglur”). Mér finnst hann fallegastur með 2 umferðum því mér finnst ekki fallegt þegar að ég sé húðlitinn í gegnum svona dökk lökk. Ég tók ekki eftir því að hann litaði neglurnar sem er mjög algengt að dökkir litir geri sem er mikill bónus!

Ég er alsæl með þennan pakka og þakka OPI á Íslandi kærlega fyrir mig. Ég held að lökkin hljóti að fást á flestum/öllum sölustöðum OPI svo ég hvet ykkur til að kíkja á litina, ég er allavega búin að kíkja og get sagt ykkur að Reykjavík Has All The Hot Spots, Turn On The Northern Lights og One Heckla of A Color eru allir litir sem ég er að íhuga að bæta við en Turn On The Northern Lights myndi ég segja að væri áhugaverðasti litur línunnar.

 

No Comments

Leave a Reply