Urban Decay – Naked Heat

Varan sem fjallað er um er gjöf

Feeling the heat? Venjulega fengi ég kjánahroll alveg niður í tær yfir svona línu en fyrir nýjustu pallettuna frá Urban Decay geri ég undanþágu. Naked Heat er ein umtalaðasta augnskuggapalletta ársins og ég var svo ótrúlega heppin að fá sent eintak á meðan ég var í fríi á Ítalíu (þið fáið bókað að heyra eitthvað um þetta ágæta frí á næstunni). Kassinn sem beið mín innihélt frekar “heita” hluti eins og svart Doritos, tabascosósu, salsa og chilipipar en það allra besta var auðvitað pallettan sem ég hafði meira að segja áætlað að kaupa á Ítalíu en hætti við eftir að ég frétti af stóra svarta kassanum heima.

Naked Heat er 12 skugga palletta úr Naked vörulínunni hjá Urban Decay, litirnir eru allir frekar rauð/appelsínu/brún/brons-leitir en á sama tíma hlutlausir (sem er einmitt einkenni Naked línunnar). Mér finnst litasamsetningin mjög spennandi og ég bjóst einhvernvegin ekki við því hversu fjölhæf hún yrði, mér finnst ég geta gert óteljandi mismunandi “look” með henni án fyrirhafnar. Litirnir passa öllum húðlitum svo það ættu flestir að geta notað pallettuna sem er mjög jákvætt því oft gleymist að hugsa út í mjög ljósa eða mjög dökka húð þegar að svona pallettur eru settar saman (ég er í þessum ljósa flokki, meira að segja eftir viku á Ítalíu).

Bestu litirnir: Ember, Lumbre, Low Blow, Scorched og En Fuego

Uppáhalds samsetningin: Ember (yfir allt augnlokið og í miðhluta neðri augnháralínu) + Ounce (innri augnkrókur) + Low Blow (blöndunarlitur í crease) + Ashes (neðri augnháralína og crease) + En Fuego (crease)

Pallettan inniheldur 7 matta liti og restin er blanda af mis-sanseruðum litum en heilt yfir er pallettan mjög mjúk, sanseruð og “buttery” svo það er mjög auðvelt að blanda þá á augnlokinu. Formúlan er hin klassíska Urban Decay augnskuggaformúla sem er ein af mínum uppáhalds, litsterk og endist vel á augnlokunum. Hver skuggi er 1,3 grömm og með í pallettunni er einn tvöfaldur bursti. Ég er ekki með verðið á pallettunni á hreinu en skal uppfæra færsluna þegar að ég er komin með það.

Ég er ótrúlega hrifin af Naked Heat og hef gripið í hana í næstum því öll skipti sem ég hef málað mig síðan ég kom heim að utan og sé fyrir mér að prófa allskonar “look”, bæði casual/dagförðun og dramatískari/dekkri. Ég mæli með pallettunni fyrir alla á öllum aldri og hvet ykkur til að kíkja á Urban Decay teymið í Hagkaup í Smáralind og pota aðeins í pallettuna og varalitina sem ég veit að komu með henni.

No Comments

Leave a Reply