MAC x Steve J & Yoni P

Greinarhöfundur keypti vörurnar sjálf

Hallóhalló! Ég er komin aftur til leiks hér á blogginu á nýrri tölvu (loksins) og með nýtt útlit – þið megið endilega segja mér hvað ykkur finnst hér í kommentum eða skilaboðum. Hér ætla ég að segja ykkur frá nýrri línu sem kom í MAC í sumar en hún er samstarf MAC við kóreska hönnunardúóið Steve J og Yoni P og er afraksturinn glæsileg förðunarlína í fallegum umbúðum. Í línunni eru 2 kinnalitir, 4 varalitir, 2 augnskuggapallettur (tveggja lita), ein Casual Colour palletta ásamt augnglossi og burstum. Ég keypti mér kinnalitinn ‘Sugar Or Syrup’ og varalitinn ‘Spotlight Me’ en báðar vörur eru í sama tón.

Kinnaliturinn ‘Sugar Or Syrup’ er gulleitur bleikur kinnalitur með satínáferð sem er að mínu mati einn fallegasti kinnalitur sem ég hef prófað. Hann ýkir ekki misfellur í áferð húðarinnar heldur gefur heilbrigðan ljóma og lit. Ég elska að það sé hægt að byggja litinn upp án þess að líta út eins og aðalleikari í 80’s tónlistarmyndbandi þar sem liturinn er léttur og ekki of sterkur/þéttur. Ég nota þennan lit alla daga, spari og hversdags, og hann blandast alltaf fullkomlega yfir hvaða farða sem er. Það var til annar kinnalitur sem var kaldari bleiktóna litur sem ég var ansi nálægt því að kaupa líka.

Varaliturinn ‘Spotlight Me’ er með ‘Amplified’ áferð en hún er litsterk og mjúk (endist ekki alveg eins vel og möttu áferðirnar en mjög nálægt því). Liturinn er ljós-peachy-nude litur og er mjög klæðilegur á flestum. Þórunn Ívars var með litinn í partýinu sem MAC hélt til að fagna komu línunnar og hann Birkir sem er starfsmaður MAC var líka alveg sérstaklega flottur með litinn og sannfærði mig eiginlega um að prófa. Ég para hann helst við aðeins bleikari varablýanta (t.d. Lancôme varablýantur í lit 290 Sheer Raspberry) til að búa til smá skil milli hvítu húðarinnar og varalitarins og gefa örlitla dýpt. Þetta er frábær sumarlitur og maður verður strax frísk- og sumarlegri með hann á vörunum og því mæli ég með honum fyrir alla.

Ég vona að það séu enn til vörur úr línunni og hvet ykkur til að kíkja við í MAC (sem er bara í Smáralind þessa dagana) og prófa. Ég hlakka svo til að segja ykkur frá fleiri nýjum (og nýlegum) vörum á næstunni!

 

No Comments

Leave a Reply