Uppáhalds förðunarvörur fyrir varir 2016

Jæja jæja, síðasti kaflinn í þessum árslistum er kominn svo ég ætla bara að vinda mér í þetta. Þetta eru mínar uppáhalds varavörur fyrir árið 2016.

Vice varalitir frá Urban Decay, ég á 3 í nýju (núverandi) umbúðum og svo einn sem hélt áfram úr gömlu línunni, ég er búin að tjekka og hann hefur ekkert breyst þrátt fyrir formúlu og umbúðabreytingu. Þessir varalitir eru með formúlu sem er ofur-“pigmentuð” og þurrkar ekki varirnar. Það eru til allskonar áferðir og ótal litir og ég hlakka til að kaupa fleiri, ég renni hýru auga til möttu formúlunnar sem ég hef ekki prófað enn. Litur sem ég elska og mæli með að allir prófi er Rejected með Metallized áferð.

Lipglass frá MAC Cosmetics. Ég hef lengi verið aðdáandi og áhuginn var endurvakinn á þessu ári eftir að ég fann fyrsta glossið mitt aftur ofaní skúffu. Mér finnst Lipglass frábær formúla ásamt Dazzleglass sem ég er alltaf veik fyrir þegar að ég sé nýja liti í því. Formúlan er passlega létt, ekki of klístruð en ekki of fljótandi. Ég elska glimmerliti og var því mjög kát að skella Dreamlover úr Mariah Carey línunni hérna inn.

Rouge Pur Couture frá Yves Saint Laurent. Gullfallegir, rakagefandi og fallegir varalitir sem hefur verið hægt að fá merkta við sérstök tilefni. Það koma alltaf reglulega nýir litir og ég er alltaf fljót að skjótast út í búð að prófa að swatcha þá. Það er klassískur glamúr í þessum umbúðum og litirnir sem ég hef prófað eru langflestir klæðilegir og henta mörgum húðgerðum/litum/aldurshópum.

Nýjustu Lancôme varalitirnir, L’Absolu Rouge, sem eru einmitt að koma inn á bloggið mjög fljótlega. Lancôme endurbætti varalitaformúluna sína, umbúðirnar og jók litaúrvalið svo um munar á árinu 2016 undir listrænni stjórn Lisu Eldridge. Svo ég skemmi ekki komandi færslu ætla ég bara að segja að þið ættuð að kíkja á næsta sölustað og sjá einar sniðugustu varalitaumbúðir sem þið finnið.

Lancôme ratar aftur á listann með uppáhalds varaolíunni minni sem er Juicy Shaker. Cushion “ásetjari” sem gefur fullkomið magn af lit og olíu án þess að það sé allt útum allt. Allir litir ilma vel og eru með samsvarandi bragði, gljáinn á vörunum er klísturlaus og passlega mikill og Berry In Love er minn uppáhalds litur. Það er bæði hægt að nota Juicy Shaker einan og sér og með varalit.

Varaliturinn Faux frá MAC Cosmetics hefur verið í miklu uppáhaldi á árinu 2016 frá því ég keypti hann úti í Boston síðasta vor. Hann er hinn fullkomni bleik-nude varalitur fyrir mig og það besta er að það var ekki ég sem “fattaði” að hann væri til – ég var að kaupa einn fyrir vinkonu mína og ákvað að kaupa einn fyrir mig. Ég notaði hann sama dag og hef ekki gengið frá honum síðan.

Nýjung sem rataði á listann er Vinyl Cream Lip Stain frá Yves Saint Laurent sem kom á markað seint á síðasta ári. Ég er búin að vera á leiðinni að setja þá hingað inn alltof lengi, ég á tvo liti og ELSKA þá. Þetta er háglans varalitur án klísturs, með fáránlega mikinn lit, gefur mikinn raka og hentar mér vel. Það er auðvelt að setja formúluna á og hún endist vel. Þið sjáið þessa vöru á blogginu fljótlega.

Nú þegar að listarnir eru allir komnir inn þá munu “venjulegu” færslurnar fara að detta inn um allskonar vörur, eldri og nýrri. Ég hef verið að velta fyrir mér að bæta inn liðum hér á bloggið og ætla að liggja á því áfram en ég ætti að hafa meiri tíma á þessari önn til að skrifa og spjalla við ykkur.

Þar til næst,

Bestu andlitsförðunarvörur 2016

ÚFF! Ég skil ekki hvað tíminn líður hratt og því mikilvægt að drífa þessa árslista af svo við getum farið að byrja á einhverjum nýjum og ferskum umfjöllunum um nýjar, nýlegar og eldri vörur (því við erum auðvitað alltaf að kynna okkur eitthvað nýtt). Hér eru að mínu mati bestu andlitsförðunarvörur ársins 2016.

Við byrjum auðvitað á “all-time” uppáhalds farðanum mínum, Teint Miracle frá Lancôme sem ég var einmitt að kaupa nýtt eintak af. Hann er alltaf fullkominn, áferðin, þykktin, þekjan og bara allt. Það verður erfitt fyrir aðra farða að reyna að velta þessum úr sessi.
Shimmering Skin Perfector í vökvaformi frá Becca hefur ekki verið að fá næga ást hjá mér hérna á blogginu en ég elska að blanda þessum fljótandi highlighter við farða, nota hann undir farða sem og yfir hann fyrir smá auka, náttúrulegan ljóma. 
Touche Éclat penninn frá Yves Saint Laurent, gull-ljóma-penninn víðfrægi verður að sjálfsögðu að fá að vera með á listanum. Ég nota 2 liti af pennanum og eeeelska hvað þetta er góð formúla og gefur ljóma sem er svo fullkomlega eðilegur og maður virðist hafa sofið í 16 klst.
Le Cushion Encre De Peau farðinn frá Yves Saint Laurent er nýjung sem fór strax á listann um leið og ég prófaði hana í fyrsta skipti. Þetta er handhægasti “on-the-go” farði sem ég hef nokkurntíman prófað, þekjan er góð og hann helst vel á. Umbúðirnar eru líka gullfallegar (bókstaflega).
Les Sahariennes Bronzing Stones frá YSL er uppáhalds sólarpúðrið mitt. Það er í nokkrum litum, ég á þann ljósasta og get gluðað því framan í mig alveg að vild. Púðrið er eitt það fínmalaðasta sem ég hef prófað og það er örfín sansering í mínum lit. Það er bara ekki hægt að klúðra förðuninni með þessu sólarpúðri.
RCMA No-Color Powder er alveg litlaust, hræódýrt púður sem allir geta notað (ég borgaði 9 dollara í USA). Það er einn ókostur og það er að umbúðirnar henta manni ekkert sérstaklega vel dagsdaglega svo mér finnst alltaf eitthvað fara til spillis, ekki það að ég kvarti þegar að einn dunkur er 3oz. Ég sá að RCMA var að vara við fölsuðum púðrum í umferð svo ég mæli ekki með að rjúka til á Ebay eða Aliexpress að versla púður (ekki versla snyrtivörur á Aliexpress, ever! alveg bannað!)
Lancôme Effacernes hyljarinn, vatnsheldur, táraheldur, hylur allt og maður þarf svo pínulitla bólu af hyljara til að hylja verstu bauga/bólur/allskonar. Mér finnst hann líka mjög þægilegur til að setja í kringum varirnar, bæði til að “eyða” útlínunum og vera smá grunnur undir varablýant/lit og svo til að lagfæra línu sem er ekki alveg nógu skörp.
Urban Decay Naked Skin farði og hyljari, skothelt kombó. Báðar vörur innihalda efni sem hafa jákvæð áhrif á húðina, þekjan er góð, áferðin er frábær og ég bara get ekki mælt nógu mikið með þeim.
theBalm Mary-Lou Manizer er “my girl”. Þessi highlighter er minn uppáhalds, fínmalaður og með hinn fullkomna lit fyrir mína hálfglæru hvítu húð. Það þarf að fara varlega svo maður blindi fólk ekki í réttri lýsingu en þetta er einn af fáum highlighterum sem er bara sanseraður en ekki með neinu glimmeri.
MAC kinnalitir og þá sérstaklega bleiki kinnaliturinn úr samstarfslínu Mariah Carey og MAC sem kom mér ótrúlega á óvart og ég nota hann vandræðalega mikið. Ég mæli líka með kremkinnalitunum eins og t.d. Posey sem ég keypti í vor, mér finnst hann snilld!

Eins og ég hef sagt milljón og þrisvar gleymdi ég örugglega helling svo þið verðið bara að fyrirgefa það. Síðasti hlutinn er tilbúinn en það eru vörur fyrir varir sem stóðu uppúr á árinu 2016. Fylgist með honum og svo getum við farið að spjalla um meira sniðugt því það lítur út fyrir að ég muni að öllum líkindum (nú jinxa ég þetta) hafa tíma til að skrifa meira og sýna ykkur meira. Þið getið fylgst með mér á snapchat undir notandanafninu thorunns þar sem ég segi ykkur stundum frá einhverju sniðugu þegar að ég er í stuði og ef þið viljið sjá eitthvað sérstakt eða mynduð vilja lesa eitthvað sérstakt þá hafið þið bara samband við mig hér, á facebook, snapchat eða í tölvupósti.

Þar til næst,

Uppáhalds húðvörurnar 2016

Fyrsta færsla um bestu vörur er loksins komin inn. Hér tók ég saman þær húðvörur sem mér fannst standa upp úr á síðasta ári, ég gleymdi örugglega helling en það verður að hafa það. Ég ætla ekki að hafa þetta flókið heldur segja ykkur bara hvaða vörur voru á mínum topplista og kannski smá um þær (eftirá tek ég eftir að 2016 virðist hafa verið ár maskana, ég tók einhverja maska út því þetta var orðið fullmikið).

Origins Clear Improvement kolamaskinn sló í gegn hjá mér við fyrstu prufu en ég keypti mér hann í vor. Hann hreinsar húðina vel án þess að erta hana.

Lancome Bi-Facil augnfarðahreinsirinn. Hann er alltaf minn uppáhalds og ég hef ekki fundið neinn sem getur komið í staðinn fyrir hann hjá mér. Hann er tvískiptur og nær öllu af ásamt því að næra augnsvæðið.

Ultra Repair Cream frá First Aid Beauty er öflugt rakakrem sem hjálpar húðinni að vinna bug á þurrkablettum. Ég fékk túpu af því í Sephora í vor og finnst það ótrúlega þægilegt, ég nota það oftast á hné og olnboga en stundum í andlitið líka.

Skyn Iceland augngelpúðar verða að fá að vera á listanum en ég elska hvað þeir gera húðina frísklega og bjarga manni á þreyttum dögum og í miklu stressi. Ég spændi í gegnum einn stóran poka í prófatímabilinu og vil meina að það hafi hjálpað mér alveg heilan helling í að líða betur með sjálfa mig, ég hef nefnilega sjaldan litið eins illa út og núna í desember 2016 þar sem ég var alltof stressuð, þreytt og ef ég var ekki að læra eða í prófi var ég í vinnunni. Púðarnir voru kærkomin kælipása þar sem ég gat slakað á.

Yves Saint Laurent Lip Perfector er ný vara sem ég varð að setja á listann. Þetta er semsagt varasalvi  sem smýgur djúpt inn í varirnar og gefur þeim raka ásamt því “exfoliate”-a létt svo það sé ekki skorpa á vörunum. Mér finnst hann svo þægilegur undir varaliti því varirnar verða svo fullkomnar.

Skindinavia Makeup Primer Spray fannst mér eiga að vera í þessum flokki en þetta er besti primer sem ég hef prófað. Það er öll farðaásetning mikið auðveldari og fallegri ef maður undirbýr húðina með þessu spreyi. Sílíkonprimerar vilja oft þurrka húðina mína og því finnst mér þetta þægilegur og fljótlegur valkostur.

Lancome Énergie de Vie línan fær öll að rata hingað inn en þó sérstaklega raka”kremið” og maskinn. Ég elska hvað rakakremið er þægilegt og að það megi fara á augnsvæðið, það gefur passlegan raka og hann helst vel í. Maskinn er síðan bara einn besti rakamaski sem ég hef átt og við Alexander notum hann bæði reglulega.

Glamglow Powermud er ofurhreinsimaski sem er ein skrýtnasta vara sem ég hef átt. Maskinn er ískaldur á húðinni, fer á sem ljósgrágrænn leirmaski og verður svo að einhverskonar olíu þegar að maður bleytir hann þegar að hann er tekinn af. Hann hreinsar djúpt en gefur húðinni mikinn raka, lyktin er líka draumur.

Origins GinZing rakakremið er létt og með bestu lykt sem ég hef fundið af rakakremi. Elska það á dögum þar sem húðin er ekki mjög þurr (mín tekur tímabil). Lyktin hressir mann og kremið gefur húðinni smá líf.

Skyn Iceland Pure Cloud Cleanser er kremhreinsir sem er gríðarlega mildur en hreinsar húðina vel án þess að þurrka hana. Mér finnst hann svo þægilegur að hann varð að fá að vera með, það er svo þægilegt að húðin sé ekki stíf eftir hreinsun.

Biotherm Total Renew Oil frá Biotherm er uppáhaldið mitt þegar að ég kem heim eftir langan dag eða ef ég hef verið mikið förðuð en þetta er olía sem leysir upp farða og gefur húðinni raka og næringu en þegar að hún kemst í snertingu við vatn freyðir hún til að hreinsa enn dýpra. Ég nudda einni til einni og hálfri pumpu yfir allt andlitið og nudda vel, bleyti svo og þríf af með þvottapoka og húðin er tandurhrein.

Þá er ég búin að telja upp mínar uppáhalds húðvörur fyrir árið 2016. Næsta færsla er um uppáhalds augnfarðavörur svo stay tuned!

Uppáhalds vörur frá Urban Decay – væntanlegt til Íslands!

ud
höfundur fékk stjörnumerktar vörur að gjöf, aðrar eru keyptar af höfundi eða aðilum tengdum honum

Þið hafið væntanlega heyrt að elsku Urban Decay er á leiðinni til okkar á Íslandi og því er kominn tími fyrir uppáhalds færslu. Ég var ekki beðin um það en fannst ég þurfa að gubba útúr mér smá orðaflaumi um uppáhalds vörurnar mínar frá merkinu. Ég er búin að elska Urban Decay í mörg ár og hef alltaf þurft að kaupa í útlöndum eða á netinu. Þess vegna er ég mjög spennt að geta skotist út í búð og keypt strax það sem ég vil í stað þess að safna á lista eða bíða eftir sendingu að utan.

Efst á lista ætla ég að setja Naked Skin Weightless Ultra Definition Liquid Foundation farðann sem ég kalla í daglegu tali bara Naked Skin. Formúlan er ofurlétt, gefur ljóma og góða þekju án þess að vera eins og gríma á andlitinu. Farðinn er demi-mattur sem mér finnst vera góð áferð því hann helst vel á ásamt því að formúlan nærir/bætir húðina á meðan að notkun stendur. Olíu- og parabenalaus farði sem á að henta flestum.

Næst kemur Naked Skin Weightless Complete Coverage Concealer sem er léttur hyljari með mikilli þekju og ljóma. Formúlan bráðnar inn í húðina svo áferðin er sérstaklega falleg. Hyljarinn inniheldur sömu efni og farðinn sem gefa húðinni raka, vernda hana og bæta. Umbúðirnar eru eins og utanaf glossi og það er auðvelt að stýra því hvað maður notar mikið. Ég elska þennan og get sagt að þessi hyljari er með þeim allra bestu sem ég hef prófað.

All Nighter Setting Spray er magnað setting spray sem bókstaflega límir förðunina á mann svo það er engin þörf fyrir lagfæringar. Spreyið er þróað í samstarfi við Skindinavia sem eru leiðandi í framleiðslu makeup spreyja svo það er í hæsta gæðaflokki. Ég nota þetta alltaf yfir allar farðanir sem ég geri því þetta virkar svo vel, endingin eykst til muna og spreyið virðist bæta áferð húðarinnar.

Perversion maskarinn* kom inn í líf mitt um daginn. Ég reyndi að kaupa hann í Boston í vor en hann var ekki til og því var ég gríðarlega kát að fá hann að gjöf. Maskarinn bæði þykkir og lengir. Formúlan er létt, inniheldur nærandi efni og harðnar ekki svo hann molnar ekki yfir daginn. Hann nær að halda krullunni í augnhárunum og ég bið ekki um meira.

24/7 Glide On Pencil eru aðal augnblýantar Urban Decay. Minn uppáhalds kallast Perversion og er mattur svartur. Formúlan á þeim öllum er mjög svipuð, últra “creamy” og auðveld í notkun en á hálfri til einni mínútu þornar hún og haggast þá varla.

Primer Potion í litnum Original er vara sem ég held ég hafi keypt að minnsta kosti 4 sinnum frá því ég fékk að prófa hjá vinkonu minni fyrir löngu síðan, þann síðasta sem ég er að nota núna keypti ég í apríl. Ég fékk reyndar sendan nýjan um daginn en þar sem hann er enn í umbúðunum og ekki kominn í notkun fannst mér ekki endilega þörf á að stjörnumerkja hann. Þetta er besti augnskuggaprimer sem ég hef átt, hann jafnar litinn á augnlokunum svolítið og lætur alla augnskugga endast betur án þess að breyta áferð þeirra.

Grindhouse yddarinn verður að vera með en þetta er besti makeup-yddari sem ég hef átt. Ég á reyndar gamla “lookið” en ég er búin að eiga hann í líklega 3-4 ár og hann er enn eins og daginn sem ég keypti hann.

Síðast en ekki síst eru það augnskuggarnir. Ég ákvað að setja inn myndir af bæði Naked 2 pallettunni og Smoky pallettunni* en ég mæli samt eignilega bara með þeim öllum. Ég á mjög margar UD pallettur og hef enn sem komið er bara lent á einum lélegum skugga (í pallettu sem kom fyrir líklega 3 árum). Skuggarnir eru almennt mjúkir, litsterkir og endast vel án þess að dofna yfir daginn ásamt því að þær hafa verið mjög hagkvæmar.

Ég vona að allar þessar vörur séu væntanlegar og mun eflaust sýna ykkur óskalistann minn þegar að ég hef betri hugmynd um hvað kemur til Íslands.

Þar til næst,
Þórunn

 

Uppáhalds í júní

uppjuni

Hæ! Uppáhaldsfærsla fyrir júnímánuð er hér með dottin í hús og inniheldur bæði nýjar og gamlar vörur. Ég ákvað að gefa sjálfri mér 3 mínútur til að gera það upp við mig hvaða vörur ættu að fara á listann og ég náði að velja mér 7 vörur þó þær ættu eiginlega að vera svona 30. Ég skauta bara létt yfir listann því einhverjar af þessum vörum eru komnar í færslu á bloggið og einhverjar eru á leiðinni þegar að ég man eftir að klára færslurnar.

Byrjum á því fyrsta en það er Blushbaby kinnaliturinn frá MAC, stóra kinnalitaástin mín sem mér þótti vera ljótasti kinnaliturinn í búðinni þegar að ég sá hann fyrst. Afgreiðslukonan í MAC í Boston vildi endilega fá að setja hann á mig og það þurfti ekki meira en það til að ég væri alveg sold! Ég held mest upp á þennan kinnalit af þeim öllum og hef ekki enn fundið manneskju sem þessi litur fer ekki. 10/10 og ég mun alltaf kaupa fleiri!

Næst vil ég setja Grandiôse Extreme maskarann frá Lancôme sem er glænýr og fínn. Ég  var og er alltaf aðdáandi gamla Grandiôse en þessi nær að toppa hann. Hann gefur þykkt og lengd og það eru fáir maskaraburstar í heiminum eins þægilegir og þessi. Það er mikið value í honum því maður fær mikið fyrir peninginn og formúlan nær að halda augnhárunum uppbrettum allan daginn. Geri aðrir maskarar betur!

MAC Faux varaliturinn, hinn fullkomni hversdagsvaralitur. Ég keypti mér hann eiginlega óvart í Bandaríkjunum, var að kaupa hann fyrir vinkonu mína og hef örugglega sagt að ég ætlaði að fá tvo í staðinn fyrir einn án þess að átta mig á því og þar með var hann minn. Hann er alltaf í veskinu mínu og er fullkominn fyrir minn húðlit. Ég sé ekki eftir að hafa keypt hann og gef honum mín meðmæli sem hversdagsvaralitur fyrir mjög ljósa húð.

Skindinavia Primer Spray er vara sem ég ætlaði mér ekki að kaupa, allavega ekki strax. Ég bugaðist þó á markaðnum í Gamla Bíói um daginn og splæsti mér í einn stóran brúsa (hann var á svo fínum afslætti sjáiði til) sem varð strax ómissandi alla morgna. Ég er nefnilega búin að vera í vandræðum með húðina mína sem hefur verið mjög oily og leiðinleg í sumar og farðar virðast ekki tolla alveg nógu vel á þó ég púðri vel. Spreyið hefur náð að koma í veg fyrir þetta svokallaða “makup-melt” og farðinn er jafn fínn þegar að ég kem heim klukkan 17-18 og þegar að ég fór út um morguninn.

Lancôme Énergie de Vie Liquid Care er fljótandi rakakrem sem er með asísku ívafi. Næsta færsla á eftir þessari er um línuna sem kremið er úr en ég gat eiginlega ekki sett allar vörurnar á þennan topplista þó ég vildi. Fylgist með!

YSL Bronzing Stones í lit 01 er líf mitt og yndi þessa dagana. Sólarpúður sem gefur ljóma og er eiginlega eins og sólarpúðursútgáfa af uppáhalds púðrinu mínu frá YSL, fínmalað og það er bara ekki hægt að klúðra þessu. Ég hef aldrei verið mikið fyrir sólarpúður fyrr en núna og finnst ég vera einhver bronzed goddess þó ég sé bara næpuhvítur bankastarfsmaður sem hangir fyrir framan tölvu allan daginn. Mig langar pínulítið að kaupa mér dekkri lit (ég sá 3 liti í YSL standinum um daginn) til að fá enn meiri dýpt og meiri bronsáferð og bara allt. Ég þyrfti kannski meira að sitja úti í sólinni og taka smá lit en það er bara alltof mikil vinna sem krefst alltof mikillar þolinmæði.

Lancôme Juicy Shaker í litnum Berry In Love. Uppáhalds Juicy Shakerinn minn sem ilmar svo vel og gerir varirnar svo fallegar og mjúkar. Nota þetta oft eins og varasalva þegar að varirnar eru orðnar þurrar eða mjög nagaðar (ég naga varirnar þegar að ég er mjög stressuð og ég er eiginlega bara stressuð alltaf). Liturinn er gullfallegur en mig langar reyndar í aðeins fleiri liti og laumast kannski til að kaupa nokkra í viðbót þegar að Alexander sér ekki til.

Þetta eru mínar uppáhalds snyrtivörur í júnímánuði 2016 og þið getið fengið þær allar á Íslandi. MAC fáið þið í MAC Kringlunni og í Debenhams,  Lancôme á sölustöðum Lancôme (þeir eru mjög margir), YSL í Hagkaup Holtagörðum, Kringlu og Smáralind ásamt Lyfjum og heilsu Kringlu og að lokum Skindinavia hjá lineup.is.

Sjáumst (mjög) fljótlega,
Þórunn

1 2 3 4