I’M BACK – DRAUMUR FRÁ GLAMGLOW

Varan sem fjallað er um var send greinarhöfundi sem gjöf en skrif höfundar endurspegla einungis heiðarlegt og hreinskilið álit hans á vörunni

Halló halló! Ég er snúin aftur á bloggið og hyggst vera hér áfram eftir svolitla fjarveru sem ég segi ykkur kannski eitthvað frá seinna. Ég er hingað komin í dag til að segja ykkur frá nýrri vöru frá Glamglow sem ég er búin að vera að prófa síðastliðinn mánuð en hún kallast Dreamduo og er tveggja fasa meðferð (treatment) til notkunar á kvöldin.

Meðferðin hentar öllum húðgerðum og gefur húðinni mikinn raka og næringu sem skilar sér í meiri ljóma, fallegri áferð og raka. Fyrri hlutinn er Dreamserum sem er hvíta/perlulitaða kremið en það er serum sem bráðnar inn í húðina og inniheldur meðal annars grænt kaffi Teaoxi sambandið sem unnið er úr grænum telaufum. Serumið er ríkt af andoxunarefnum og vítamínum sem eiga að bæta bæði ástand og ásýnd húðarinnar.
Seinni hlutinn er Dreamseal sem er gráa kremið. Það inniheldur hyaluronic sýru og Mozuku græna þörunga sem gefa húðinni raka og auka ljóma. Saman eiga fasarnir tveir að bæta húðina og draga úr þreytumerkjum (ég er búin að vera svo þreytt síðustu mánuði að þetta var gríðarlega vel þegið).

Fyrst af öllu vil ég segja að mér finnst lyktin af kremunum ótrúlega góð og hún minnir mig á nammi eða frostpinna en hún hverfur þó frekar fljótt eftir ásetningu svo maður geti hreinlega sofnað. Mér finnst ég ekki nota mjög mikið í hvert skipti af vöru svo ég get sagt að krukkan er ansi drjúg en það er auðvelt að dreifa úr kremunum á húðinni og það smýgur hratt inn án þess að skilja eftir filmu. Meðferðin (kremin) er notuð fyrir svefn og ég þvæ húðina og nota tóner áður en ég set hana á og ég sá mun sjálf eftir eina notkun, húðin var strax full af raka og áferðin var gullfalleg og það hefur haldist yfir notkunartímann (ég hef þó einasta sinnum gleymt mér á kvöldin). Kremin innihalda örfínar ljómaagnir sem sitja á yfirborði húðarinnar eftir ásetningu svo það er kannski helsti ókosturinn að maður glitrar kannski smá een persónulega finnst mér aldrei verra að glitra.

Ég fékk þessa krukku að gjöf og get vel séð fyrir mér að kaupa mér aðra þegar að ég klára þar sem mér finnst Dreamduo koma í stað hefðbundins næturkrems hjá mér. Mér finnst áferð húðarinnar mun fallegri, ég nota minni farða og hann endist betur yfir daginn því ég næ ekki að verða of þurr. Á sama tíma og þessi dásemd kom í verslanir komu líka rakakrem með ljóma sem ég skellti á óskalistann eftir heimsókn í Hagkaup þar sem ég eyddi vandræðalega löngum tíma að skoða standinn. Ég mæli allavega sjálf með Dreamduo og sé fyrir mér að kaupa aðra krukku ef ég næ einhverntíman að klára þessa!

Þar til næst,
Þórunn

P.S. Ég skal reyna að skella í smá persónulega færslu á næstunni að segja ykkur frá því sem hefur á daga mína drifið síðustu mánuði þar sem ég hef ekkert náð að skrifa (nema örbloggin á instagram/like síðunni fyrir bloggið). Takk fyrir að vera alltaf svona yndislegir lesendur og ég hlakka til að vera með ykkur áfram!

Saltskrúbburinn frá Angan

Angan er nýlegt íslenskt fyrirtæki sem framleiðir húðvörur. Það leggur áherslu á sjálfbæra framleiðslu og nýta íslensk hráefni í framleiðsluna. Verslunin Fotia tók merkið frekar nýlega í sölu og þá gat ég ekki setið á mér lengur og pantaði mér einn saltskrúbb sem ég er búin að vera að prófa og ætla að segja ykkur frá í dag.

Ég er mjög hrifin af skrúbbnum (Alexander líka, hann hefur verið að prófa hann með mér) en hann nær að losa dauðu húðfrumurnar af og nærir húðina með olíum á sama tíma. Innihaldslýsingin er mjög einföld en skrúbburinn inniheldur sjávarsalt, sæta möndluolíu, apríkósukjarnaolíu, shea butter, arganolíu, íslenskan mosa, e vítamín og olíur í berki greipávaxtar og bergamot. Olíublandan liggur svolítið ofan á húðinni fyrst um sinn en smýgur svo inn eftir smá stund og húðin er mikið mýkri, þéttari og fallegri eftir á. Mér finnst ekki þörf á að setja body lotion eða olíur á mig eftir sturtuna ef ég hef verið að nota skrúbbinn þar sem hann þurrkar ekki eins og margir aðrir.

Það þarf ekki að nota mikið í einu en maður nuddar honum á húðina með léttum, hringlaga hreyfingum og skolar svo af. Ég mæli með að passa sérstaklega samt ef þið eruð með opin sár, það er MJÖG sárt að fá saltið í sár. Angan framleiðir einnig baðsalt sem ég hef ekki prófað þar sem ég á ekki bað en ég hef íhugað að prófa það samt í fótabað og læt kannski verða af því á endanum.

Umbúðirnar eru fallegar og stílhreinar og innihaldið er um 300 grömm svo hann á að endast ágætlega. Ég sé fram á að kaupa annan þegar að þessi klárast en skrúbburinn kostar 5990 krónur í Fotia sem er bara vel sloppið. Ég mæli með skrúbbnum fyrir alla sem vilja mýkri og fallegri húð og hvet alla til að prófa, óháð aldri og kyni.

Uppáhalds húðvörurnar 2016

Fyrsta færsla um bestu vörur er loksins komin inn. Hér tók ég saman þær húðvörur sem mér fannst standa upp úr á síðasta ári, ég gleymdi örugglega helling en það verður að hafa það. Ég ætla ekki að hafa þetta flókið heldur segja ykkur bara hvaða vörur voru á mínum topplista og kannski smá um þær (eftirá tek ég eftir að 2016 virðist hafa verið ár maskana, ég tók einhverja maska út því þetta var orðið fullmikið).

Origins Clear Improvement kolamaskinn sló í gegn hjá mér við fyrstu prufu en ég keypti mér hann í vor. Hann hreinsar húðina vel án þess að erta hana.

Lancome Bi-Facil augnfarðahreinsirinn. Hann er alltaf minn uppáhalds og ég hef ekki fundið neinn sem getur komið í staðinn fyrir hann hjá mér. Hann er tvískiptur og nær öllu af ásamt því að næra augnsvæðið.

Ultra Repair Cream frá First Aid Beauty er öflugt rakakrem sem hjálpar húðinni að vinna bug á þurrkablettum. Ég fékk túpu af því í Sephora í vor og finnst það ótrúlega þægilegt, ég nota það oftast á hné og olnboga en stundum í andlitið líka.

Skyn Iceland augngelpúðar verða að fá að vera á listanum en ég elska hvað þeir gera húðina frísklega og bjarga manni á þreyttum dögum og í miklu stressi. Ég spændi í gegnum einn stóran poka í prófatímabilinu og vil meina að það hafi hjálpað mér alveg heilan helling í að líða betur með sjálfa mig, ég hef nefnilega sjaldan litið eins illa út og núna í desember 2016 þar sem ég var alltof stressuð, þreytt og ef ég var ekki að læra eða í prófi var ég í vinnunni. Púðarnir voru kærkomin kælipása þar sem ég gat slakað á.

Yves Saint Laurent Lip Perfector er ný vara sem ég varð að setja á listann. Þetta er semsagt varasalvi  sem smýgur djúpt inn í varirnar og gefur þeim raka ásamt því “exfoliate”-a létt svo það sé ekki skorpa á vörunum. Mér finnst hann svo þægilegur undir varaliti því varirnar verða svo fullkomnar.

Skindinavia Makeup Primer Spray fannst mér eiga að vera í þessum flokki en þetta er besti primer sem ég hef prófað. Það er öll farðaásetning mikið auðveldari og fallegri ef maður undirbýr húðina með þessu spreyi. Sílíkonprimerar vilja oft þurrka húðina mína og því finnst mér þetta þægilegur og fljótlegur valkostur.

Lancome Énergie de Vie línan fær öll að rata hingað inn en þó sérstaklega raka”kremið” og maskinn. Ég elska hvað rakakremið er þægilegt og að það megi fara á augnsvæðið, það gefur passlegan raka og hann helst vel í. Maskinn er síðan bara einn besti rakamaski sem ég hef átt og við Alexander notum hann bæði reglulega.

Glamglow Powermud er ofurhreinsimaski sem er ein skrýtnasta vara sem ég hef átt. Maskinn er ískaldur á húðinni, fer á sem ljósgrágrænn leirmaski og verður svo að einhverskonar olíu þegar að maður bleytir hann þegar að hann er tekinn af. Hann hreinsar djúpt en gefur húðinni mikinn raka, lyktin er líka draumur.

Origins GinZing rakakremið er létt og með bestu lykt sem ég hef fundið af rakakremi. Elska það á dögum þar sem húðin er ekki mjög þurr (mín tekur tímabil). Lyktin hressir mann og kremið gefur húðinni smá líf.

Skyn Iceland Pure Cloud Cleanser er kremhreinsir sem er gríðarlega mildur en hreinsar húðina vel án þess að þurrka hana. Mér finnst hann svo þægilegur að hann varð að fá að vera með, það er svo þægilegt að húðin sé ekki stíf eftir hreinsun.

Biotherm Total Renew Oil frá Biotherm er uppáhaldið mitt þegar að ég kem heim eftir langan dag eða ef ég hef verið mikið förðuð en þetta er olía sem leysir upp farða og gefur húðinni raka og næringu en þegar að hún kemst í snertingu við vatn freyðir hún til að hreinsa enn dýpra. Ég nudda einni til einni og hálfri pumpu yfir allt andlitið og nudda vel, bleyti svo og þríf af með þvottapoka og húðin er tandurhrein.

Þá er ég búin að telja upp mínar uppáhalds húðvörur fyrir árið 2016. Næsta færsla er um uppáhalds augnfarðavörur svo stay tuned!

Maska-primer-magnari frá Origins

dsc_0069Varan var gjöf

Origins sneri aftur til Íslands nú á dögunum eftir nokkurra ára fjarveru og var mér ásamt nokkrum öðrum bloggurum/snöppurum/blaðamönnum boðið í smá kynningu á vegum merkisins. Allir fengu sérmerkta poka með vörum sem sérfræðingum merkisins fannst líklegt að myndu henta einstaklingnum og í mínum poka leyndust vörur sem hittu beint í mark. Ég ætla í þessari grein að segja ykkur frá einni vöru og einnig lauslega frá merkinu.

brand

Origins er merki sem var stofnað árið 1990 þar sem stofnendur sáu þörf á einhverju sem væri öflugt og með virkni en á sama tíma einfalt, minimalískt og  umhverfisvænt. Lausnin var að búa til vörur sem nýttu kraft plantna ásamt því að huga að umhverfinu og náttúrunni allri í öllu ferlinu frá því að varan er framleidd þar til viðskiptavinurinn klárar úr krukkunni. Ilmkjarnaolíur og önnur náttúruleg innhaldsefni er grunnurinn sem fyrirtækið byggir á og staðfestan við upprunaleg markmið gefur fyrirtækinu sérstöðu á stórum markaði.
Í dag, 26 árum eftir stofnun, er Origins enn að huga að sjálfbærni og umhverfismálum t.d. með því að nýta einungis endurnýtanlega orku í framleiðslu og planta trjám í stað þeirra sem felld eru fyrir framleiðsluna. 

Varan sem ég ætla að segja ykkur frá í dag er Maskimizer™ sem er í raun maskamagnari eða maskaprimer, vara sem eykur virkni maskans sem notaður er yfir og hjálpar honum að ná dýpra í húðina ásamt því að gefa raka. Formúlan inniheldur rauðþörunga sem hjálpa til við að koma jafnvægi á rakastig húðarinnar.
Vökvinn kemur í spreybrúsa sem er mjög handhægur í notkun, eftir venjulega húðhreinsun er vökvanum spreyjað yfir andlitið og dúmpað létt yfir með höndum þar sem vökvinn opnar húðholurnar. Þegar að vökvinn hefur þornað svolítið er maskinn settur á og það eru öll vísindin í ásetningu. Það á ekki að nota “peel-off” maska yfir þetta sprey. Formúlan er án þalata, parabena og súlfata.

Fyrst þegar að ég sá Maskimizer™ auglýstan hélt ég að þetta væri bara eitthvað bull, það breyttist samt fljótt þegar að ég fór að sjá umfjallanirnar. Ég ætlaði svo að kaupa brúsa í Sephora í vor en þá var þetta auðvitað uppselt og var því rosa kát að sjá þetta í pokanum mínum. Ég fór beint heim í húðhreinsun og ákvað að prófa að setja kolamaskann frá Origins yfir (ég hef elskað hann frá fyrsta testi) og sá strax að hann var að ná meiru upp úr húðholunum og húðin var hreinni. Það var líka auðveldara að taka kolamaskann af heldur en venjulega því það var meiri raki í húðinni. Ég er svo í dag búin að prófa að nota spreyið undir alla maska sem ég á (ég á sko enga peel-off maska, ég er hrædd við þá) og ég get sagt að það hefur hver einn og einasti virkað betur en venjulega, bæði hreinsi- og rakamaskar.

Ég gef Maskimizer™ mín meðmæli og finnst t.d. mjög sniðugt að það séu til kassar hjá Origins sem innihalda lítinn brúsa af spreyi með 3 möskum fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessu. Þó þetta sé aukaskref í hreinsirútínuna er þetta skref sem tekur enga stund og er margfalt þess virði því við viljum auðvitað að maskinn geri sem mest. Þið fáið Origins í Lyfjum og heilsu í Kringlu og Hagkaup í Smáralind.

Þar til næst,
Þórunn

Tvöfaldur olíu-leirmaski frá Glamglow!

dsc_0255Varan er gjöf

Eins og þið hafið örugglega séð allsstaðar er Glamglow (loksins) komið í verslanir á Íslandi. Ég var svo heppin að fá boð í kynningarpartý á vegum Glamglow á Íslandi þar sem gestir fengu fræðslu um allar vöruflóruna og fengu að prófa að pota í þær, að lokum fóru allir heim með falleg box sem innihéldu vörur frá merkinu til að prófa. Ég ætla að segja ykkur frá einni af mínum prufuvörum sem var Powermud maskinn sem hefur tvöfalda virkni. Þessi tvöfalda virkni felur í sér að hann er bæði hreinsi- og einskonar rakamaski.

glamglow

Powermud maskinn er lúmskur hreinsimaski fyrir allar húðtýpur sem hreinsar djúpt án þess að erta húðina en gefur henni raka á sama tíma. Maskinn hentar minni húðgerð mjög vel, ég er búin að vera með þurrk undanfarið (kuldinn fer ekki vel í mig) en á sama tíma hef ég verið að fá bólur og fílapensla á T-svæðið, en eftir notkun 2-3 sinnum í viku hefur húðin náð jafnvægi. Ég nota farðabusta til að bera þunnt lag af maska á þurra húð sem er látið liggja í 5-10 mínútur en ég gleymi mér stundum og læt hann liggja heila eilífð. Maskinn ertir húðina ekki svo ég stressa mig ekki á þessu. Maskinn verður kaldur þegar að hann þornar sem er mjög róandi og þægilegt og maður sér hann vinna á fílapenslunum því það koma göt í maskann þar sem hann er að sjúga upp fitu og drullu.
Þegar að kemur að hreinsun bleytir maður hendurnar og nuddar svo maskann með hringlaga hreyfingum þar til að hann breytist í einskonar olíublöndu sem nærir húðina, að því loknu er maskinn þrifinn af (ég nota þvottapoka).

Maskinn byggir á fjórum höfundarréttarvörðum efnasamböndum en þau eru:
OILIXER™ – Olíublanda sem samanstendur af fjórum olíum, myrruolíu, furuolíu, Frankincense olíu og að lokum kaktusfíkjuolíu (prickly pear oil).
CLAYTOX™ – Leirblanda sem inniheldur meðal annars Brasilískan hvítan leir sem hreinsar húðina án ertingar.
PUREIFIER™ – Djúphreinsar húðina ásamt því að næra hana og fjarlægja dauðar húðfrumur af yfirborði hennar.
TEAOXI Velvet Leaf – Nærir húðina og hreinsar.

Maskinn er án parabena, súlfata og þalata sem ég kann virkilega að meta, maður setur nógu mörg efni á húðina alla daga og því ágætt að skoða magnið. Maskinn hreinsar mjög vel upp úr svitaholum og gefur húðinni auka raka-næringar-boost sem er virkilega þörf á þessa dagana. Þegar að hann er þrifinn af er húðin ekki stíf eins og eftir flesta hreinsimaska svo það er til merkis um það hversu mildur hann er. Ég er búin að fá nokkra til að prófa maskann fyrir mig og það hafa allir gefið honum jákvæða umsögn, fólk með mismunandi húðgerðir og á mismunandi aldri. Mér sjálfri finnst hann frábær og að ég sjái virkilegan mun eftir hverja notkun

dsc_0261

Powermud (og Powercleanse) eru þær vörur sem ég vissi minnst um þegar að ég sá þær, ég hafði prófað t.d. Supermud (mjögmjömjögmjög öflugur hreinsimaski) en vissi bara ekki af þessari grænu línu. Græna línan er líklega sú lína sem hentar mér best hjá Glamglow og ég get alveg séð fyrir mér að kaupa nýjan þegar að þessi klárast. Hreinsirinn úr línunni var tvöfaldur, bæði leir og olíuhreinsir með tvöfaldri pumpu sem er mjög áhugavert “concept” því maður stillir sig svolítið af sjálfur með hlutföllin eftir þörfum.

Þið fáið Glamglow í Hagkaup Smáralind, Hagkaup Kringlu, Hagkaup Garðabæ, Kjólum og konfekti á Laugavegi, Lyfjum og Heilsu Glerártorgi (Akureyri) og Lyfjum og Heilsu í Kringlu en þar eru mjög fallegir standar frá Glamglow sem geta bara ekki farið fram hjá ykkur.

Þar til næst,
Þórunn

1 2 3 4 10