Jólakveðjan 2016

Hæ elsku lesendur! Ég ætla að byrja þessa endurkomufærslu á bloggið á því að óska ykkur gleðilegra jóla og vona að komandi ár verði ykkur gæfuríkt og fullt af gleði. Ég ákvað að skrifa niður nokkur orð í dag, liggjandi veik heima með 5 tíma gamla en mjög elskaða nettengingu (ég flutti 16. desember, korter í jól, klukkutíma eftir síðasta prófið mitt).

Ég vona að orðin hafi einhverja stefnu en mig langar alltaf að sýna ykkur aðeins persónulegri hlið á sjálfri mér. Ég forðast alltaf þessar persónulegu færslur því ég er rosalega feimin og finnst eiginlega óþægilegt þegar að fólk tengir saman internet-Þórunni og raunheima-Þórunni, sú síðarnefnda svitnar og roðnar þegar að viðskiptavinir sem hún afgreiðir þekkja hana af blogginu. Ég er samt alltaf að reyna að komast aðeins yfir þetta og ætla að skrifa smá um þakklætið og hvað ég er þakklát fyrir þessi jólin án þess þó að verða svo væmin að ég fari að grenja.

Ég er ekki trúuð en fyrir mér eru jólin mikilvægur samverutími fyrir vini og fjölskyldur til að njóta og elska, borða góðan mat og gleðjast. Ég gat því miður ekki eytt miklum tíma með fjölskyldunni þetta árið því ég fór beint að vinna eftir prófatímabilið og var ekki viðræðuhæf eftir langa vinnudaga (engar áhyggjur, eftir að hafa lagt mig eftir vinnu á aðfangadag fékk ég ljómandi góðan jólamat og naut kvöldsins með fólkinu (og dýrunum) sem ég elska mest). Ég er þó rosalega þakklát fyrir að vinna hjá góðu fyrirtæki með stórkostlegum vinnufélögum sem gera alla daga aðeins betri og þakklát fyrir að viðskiptavinirnir þessi jólin voru (langflestir) yndislegir. Ég er þakklát fyrir að hafa getað haldið jól með fjölskyldunni minni og gæludýrum því það er ekki sjálfgefið að allir séu alltaf til staðar. Ég er auðvitað líka þakklát fyrir vinina, Alexander og Lubba sem allir gefa mér ómælda gleði og hamingju (Lubbi fagnar fljótlega 13 ára afmælinu sínu svo ég verð eiginlega að þakka fyrir hverja stund með honum, þó hann sé stálsleginn og furðulegri en nokkru sinni fyrr).

Ég er þakklát fyrir lesendurna á blogginu, bæði þá sem lesa bara og líka þá sem senda mér skilaboð/email til að ræða hlutina eða fá upplýsingar. Ég fæ hlýtt í hjartað við lestur á fallegum skilaboðum og þegar að þið sendið mér myndir af ykkur kaupa/prófa/skoða það sem ég hef sagt ykkur frá. Ég er óendanlega þakklát fyrir bloggið sjálft og alla frábæru einstaklingana sem ég hef kynnst í gegnum það og förðunarheiminn, margir hverjir eru orðnir góðir vinir mínir sem gera alla daga betri.

Ég er þakklát fyrir að það að hafa horfið af blogginu tímabundið hafi skilað sér í virkilega góðum einkunnum og að ef allt fer að óskum útskrifist ég úr tölvunarfræðinni í vor með meðaleinkunn sem er meira en í lagi (þið fyrirgefið mér vonandi fjarveruna, ég lofa að þetta verður ekki svona dapurlega dauft blogg eftir áramótin). Ég er þakklát fyrir að hafa fundið íbúðina sem við fluttum í fyrir jólin, hún er frábær og við erum með stórkostlega nágranna (hænurnar í gróðurhúsinu fá sér “mention” því þær eru drepfyndnar og nei ég er ekki að grínast og nei ég flutti ekki út fyrir borgarmörkin). Ég er þakklát fyrir að vera þokkalega heilbrigð og að ég fái að sitja hér á náttsloppnum að segja ykkur frá því.

Ætla að segja þetta gott núna, ég enda í 84892749 orða ritgerð með þessu áframhaldi svo mig langar eiginlega bara að segja við alla hér
Takk fyrir að vera til!
Ég hlakka svo til að geta verið meira með ykkur núna þegar að nýja árið nálgast og gengur í garð. Ég mun skella inn færslu strax í fyrramálið og reyna að smella einhverju inn reglulega (ég er enn að vinna frekar mikið). Árslistarnir fyrir 2016 eru svo í vinnslu svo þeirra má vænta á næstunni. Það er komið TAX-FREE á snyrtivörum í Hagkaup svo ég reyni kannski að vera extra dugleg. Ég vona að ég hafi getað sagt ykkur eitthvað af viti og þakkað ykkur fyrir samfylgdina, hún er mér svo ótrúlega mikils virði.

Uppáhalds karlmannsilmirnir mínir

Uppahaldsilm

Hæ! Aldrei þessu vant ætla ég ekki að skrifa um vörur sem eru ætlaðar konum heldur vil ég gefa mömmum, frænkum, ömmum, kærustum og bara hverjum sem er hugmyndir að ilmvötnum fyrir mennina í þeirra lífi.

Í fljótu bragði man ég eftir fjórum ilmvötnum sem ég gjörsamlega elska og eru til á mínu heimili. Ég er heppin að Alexander hefur svipaðan smekk fyrir ilmvötum svo það hefur ekki verið erfitt að kynna hann fyrir þeim sem ég fell fyrir og því frekar auðvelt eftir 4 ár að giska á ilmvötn til að gefa honum. Ég hef oftar en einu sinni spurt karlmenn sem mér finnst ilma vel hvaða ilmvötn þeir noti og fyrsta ilmvatnið á listanum fann ég einmitt þannig.

Cool Water Night Dive frá Davidoff er nýjasta ilmvatnið sem hefur flutt inn til okkar en frændi minn hafði keypt sér glas á ferðalagi erlendis og þegar að við hittumst í matarboði þá gat ég ekki hamið mig og þurfti bráðnauðsynlega að vita hvaða ilmvatn hann væri með. Ég var svo á ferðinni í Þýskalandi stuttu seinna þar sem ilmvatnið var á tilboði og auðvitað keypti ég það og færði mínum heittelskaða við heimkomu. Grunntónarnir eru amber, viðartónar, rússkinn og musk og það er mikil fylling í honum. Ilmurinn er passlega þungur en á sama tíma ferskur og hentar að mínu mati allt árið um kring.

La Nuit De L’Homme frá Yves Saint Laurent er mjög karlmannlegur og seiðandi ilmur. Hann hentar betur fyrir vetrartímann en hann er þungur og með mikla fyllingu, ég myndi segja að hann væri meira spari. Það er áberandi kardimommukeimur ásamt sedarvið, lavender og vetiver. Ég elska að finna lyktina af ilmvatninu þegar að við förum eitthvað fínna.

Armani Mania For Men frá Giorgio Armani er ilmvatn sem fæst ekki lengur á Íslandi. Þetta er fyrsta ilmvatnið sem ég valdi með Alexander og er mitt uppáhald. Þegar að kom að því að kaupa glas númer 2 (sem átti að vera jóla eða afmælisgjöf) þá var ilmvatnið ekki til lengur hér en ég fékk nýtt glas sent að utan sem bjargaði öllu. Grunnurinn í þessu er amber, musk og vanilla (þið sjáið kannski amber þemað hjá mér) en á móti spila krydd, viður, blóm, brómber og appelsínur. Saman skapar þetta himneskan og hlýjan ilm sem hentar allt árið, sérstaklega á haustin. Ef þið finnið þetta í Sephora eða öðrum verslunum erlendis þá mæli ég 1000000000000000% með Armani Mania.

Að lokum höfum við svo 1 Million frá Paco Rabanne. Þetta er þyngri ilmur sem er einmitt með amber í grunninn ásamt leðri, við og indversku patchouli en kanill er áberandi millinóta í 1 Million. Toppnóturnar eru svo ferskar með greip, mandarínu og myntu. Ég myndi segja að útkoman sé einmitt frekar hlý og fullkomin sem kvöldilmur allt árið um kring.

Þetta eru þeir ilmir sem mér finnast vera með þeim allra bestu sem fást í dag, ég er samt örugglega að gleyma einhverjum mjög góðum (ég er orðin svo fáránlega gleymin að það er hætt að vera fyndið). Ég mæli með að allir reyni að finna sér ilm við hæfi en það gleymist ansi oft að það er hægt að biðja um prufur af ilmvötum í snyrtivörudeildum svo ekki hika við það að prófa. Ilmvötn eru mjög persónubundin og þó að eitthvað henti einum getur það verið algjör viðbjóður á næsta manni svo það er must að prófa áður en maður kaupir (eða gefa prufu með ilmvatnsglasi svo viðtakandinn geti ákveðið hvort hann vilji/geti notað ilmvatnið).

Þar til næst,
Þórunn

Bleikur október – málefni sem snertir alla!

DSC_0081

Krabbamein er eitthvað sem snertir okkur öll, óbeint eða beint, og það er mikilvægt að það greinist snemma svo batahorfur séu sem mestar. Krabbameinsfélagið er félag sem gerir svo ótrúlega margt og án þeirra værum við á verri stað en það þarf okkar hjálp! Í dag, 1. október, fer Bleika Slaufan í sölu og í kvöld verður haldið glæsilegt bleikt boð í Hafnarhúsinu sem er öllum opið.

Krabbameinsfélagið ber ábyrgð á brjósta- og leghálskrabbameinsleit á Íslandi, það kannast eflaust allar konur við að hafa séð miða frá Leitarstöðinni að minna á að koma í tjekk. Ég man eftir að hafa fengið fyrsta miðann inn um lúguna heima og hugsað að ég myndi bara gera þetta seinna, það lægi sko ekkert á! Ég fór þó að hugsa minn gang og fór í fyrsta skipti í leghálsstrok hálfu ári eftir að hafa fengið miðann, það kom eðlilega út en það eru ekki allir svo heppnir. Það hefur gengið brösulega að fá ungar konur í leit en það verður að breytast, við erum svo heppnar að hafa Leitarstöðina (bæði fyrir brjósta- og leghálskrabbamein) sem væri ekki til hefði ekki verið safnað fyrir henni og í kvöld ætlum við að byrja að safna fyrir skipulagðri leit af öðru meini sem spyr ekki um kyn en það er ristilkrabbamein.

DSC_0078

Ristilkrabbamein er krabbamein sem er mikilvægt að greina snemma, batahorfur ef meinið greinist nógu snemma eru mjög góðar en því miður er fólk að greinast alltof seint eins og staðan er núna. Á hverju ári deyja um 52 íslendingar úr ristilkrabbameini sem er of há tala, alltof há! Krabbameinsfélagið vill nú hefja skipulega leit í báðum kynjum að ristilkrabbameini og til þess þarf fjármagn, fjármagn sem við ætlum að safna í október svo þetta verði að raunveruleika því 52 eru of margir! Margir flissa örugglega við að hugsa um ristil en þetta er ekkert grín, ristilkrabbamein er ekkert vandræðalegra krabbamein en önnur og það spyr ekki um kyn (yngra fólk er ekki sérstakur áhættuhópur en eldra fólk er í meiri áhættu).

DSC_0082

Endilega mætið í Hafnarhúsið, Listasafn Reykjavíkur, í kvöld og skemmtið ykkur með öllum sem ykkur þykir vænt um, allir eru velkomnir. Páll Óskar, Amabadama, Sirkus Íslands og fleiri sjá um að skemmta okkur og Ölgerðin sér til þess að við þornum ekki upp á meðan að boði stendur. Það verður happadrætti með veglegum vinningum, happadrættismiðinn kostar 1000 krónur og rennur beint til Krabbameinsfélagsins. Megintilgangur kvöldsins er auðvitað að styrkja Krabbameinsfélagið en í boðinu getið þið keypt Bleiku Slaufuna sem allir ættu að bera með stolti!

Sjáumst í kvöld!
Þórunn

Nýr Mascara Effet Faux Cils frá YSL

yslmascara2Fyrir jólin prófaði ég í fyrsta skipti Mascara Volume Effet Faux Cils frá Yves Saint Laurent og fannst hann strax vera einn sá besti sem ég hafði prófað. Ég hafði ekki hugmynd á þeim tíma að það væri stutt í að þessi snilldarmaskari yrði uppfærður og betrumbættur en nú í mars kom í verslanir nýr Mascara Volume Effet Faux Cils maskari sem ég hreinlega gleymdi að segja ykkur frá!

Formúlan úr upprunalega maskaranum er mögnuð og þar er í aðalhlutverki “Triple Film Complex” en það er efnablanda sem myndar þrjár fjölliðufilmur yfir augnhárin sem gefur augnhárunum lyftingu og krullar þau, útkoman er gerviaugnhára-look. Fyrsta filman er sú sem hylur augnhárin, sellulósafjölliður í bland við nylon-agnir auka ummál augnháranna. Önnur filman er nærandi filma sem lengir augnhárin  og að lokum er þriðja filman vínylfjölliða sem myndar ósýnilega húð yfir augnhárunum til þess að halda litarögnunum á sínum stað.
YSL tók sig til og betrumbætti þetta með olíublöndu (arganolía, safflúrolía, sætmöndluolía og laxerolíu) sem nærir augnhárin og styrkir þau til lengri tíma. Olíurnar gera augnhárin bæði þykk og mjúk. B5 vítamín smýgur svo inn í augnhárin og gerir þau sveigjanlegri og fallegri. Í leiðinni bættu þeir einnig það að með gömlu formúluna varð maður að hreinsa úr maskaraburstanum svona einu sinni í viku til þess að hann færi ekki að klessa en í þeirri nýju er ekki þörf fyrir það og maskarinn helst blautur.

yslmascaraÚtkoman úr þessu öllu saman er í miklu uppáhaldi hjá mér, maskarinn er orðinn ómissandi í alla förðun hjá mér. Sléttu augnhárin mín lengjast og fá bæði lyftinguna og krulluna sem þau virkilega þurfa til þess að sjást. Maskarinn er auðveldur í ásetningu, hann klessist ekki og augnhárin verða bara svo falleg. Hann heldur augnhárunum fullkomnum allan daginn, hann er alltaf alveg eins þegar að ég tek hann af eins og þegar að ég setti hann á, jafnvel þótt ég leggi mig aðeins eða nuddi augun eins og brjálæðingur. Sorrý mygluna á myndunum hérna að ofan en ég vildi sýna ykkur fyrir og eftir mynd með hann svo þið sæuð hvað ég væri að tala um, ég er að kafna úr ofnæmi og virðist alltaf vera hálf veik maskaralaus og allslaus. Eini ókosturinn við maskarann finnst mér þó vera að ég vildi að hann væri með aðeins mjórri enda svo ég gæti náð í köngulóalappirnar í ytri krókunum hjá mér.

Mascara Effet Faux Cils fæst á öllum sölustöðum YSL á Íslandi og er mjög oft á tilboði eða í gjafakössum svo ég mæli með að fylgjast vel með facebook-síðunni hjá merkinu. Þessi er frábær og ætti að henta flestum ef ekki öllum, maskarinn er til í fleiri en einum lit og því eitthvað til fyrir alla!

Þar til næst,
Þórunn

P.S. Ég ætti að geta bloggað aðeins oftar núna, ég byrjaði í sumarfríi klukkan 18:00 á föstudaginn og hef ótal hluti á lista sem mig langar að segja ykkur frá. Við turtildúfurnar erum aalveg að klára íbúðina (það er ótrúlegt hvað þetta er búið að taka langan tíma) og ég ætla að skella mér í stutta ferð til Þýskalands í sumarfríinu. Óskalistinn fyrir þá ferð er allt allt alltof stór og lengist með hverjum deginum, ef ykkur langar að heyra um einhverja vöru eða viljið benda mér á einhverja snyrtivöru sem fæst í Þýskalandi/Frakklandi þá endilega sendið á mig línu eða skiljið eftir komment!

Vörur sem er fjallað um í þessari grein voru sendar sem sýnishorn, greinin endurspeglar samt sem áður hreinskilið álit greinarhöfundar á vörunum.

Himneskur ilmur fyrir heimilið

123465

Ég hef lengi verið spennt fyrir vörunum frá Voluspa og hef á seinustu vikum loksins látið verða af því að kaupa mér smá fínerí frá þeim. Fyrir þá sem ekki þekkja Voluspa er þetta fyrirtæki sem framleiðir lúxus-ilmvörur fyrir heimilið. Að kveikja á kerti frá Voluspa er upplifun, kertin eru falleg og allir ættu að geta fundið ilm við sitt hæfi.

Voluspa var stofnað af Troy og Traci Arntsen árið 1999 þegar að þau bjuggu til fyrsta ilmkertið í eldhúsinu heima. Traci með sérstaklega gott lyktarskyn og þekkingu á plöntum og Troy með verkfræðibakgrunn þróuðu vöruna sem við sjáum í dag, kerti úr kókosvaxi með ilmefnablöndu sem brenna hreint og gefa mikinn ilm. Umbúðirnar eru sérstaklega fallegar og vekja athygli hvar sem þær eru. Voluspa hefur komið sér rækilega á kortið en tísku- og lífstílstímarit um allan heim hafa fjallað um vörurnar.

IMG_6531

Minn uppáhalds ilmur er Crisp Champagne sem einkennist af þurru kampavíni, vanillu- og eikartónum. Ég keypti mér bæði tveggja kveikja kerti og svokallaðan “diffuser” (ég bara get ekki fundið nógu gott orð), kertið keypti ég í Kastaníu í Kringlunni en diffuserinn keypti ég af sérstaklega skemmtilegri netverslun sem kallast Heimshornið og ég get sagt strax að hann var á mjööög góðu verði. Kertið á að brenna í 50 klukkustundir (ég hef ekki enn kveikt á því, ætla að kveikja á því daginn sem ég flyt inn) og diffuserinn á að duga í 4-6 mánuði. Ég er alveg veik fyrir umbúðunum en þær eru klassískar og passlega skrautlegar og kertadósina má til dæmis endurnýta fyrir allskonar smádót þegar að kertið er búið. Mig dauðlangar að kaupa mér fleira fínt frá Voluspa en læt þetta dúó duga í bili.

IMG_6538

Myndirnar hérna að ofan eru teknar í íbúðinni okkar Alexanders en við erum að reyna að losna við málningarlyktina og ákváðum að opna diffuserinn til að aðstoða okkur. Það er enn málning á gluggum og allt útum allt (enn ekkert baðherbergi) en þetta mjakast og við vonumst til að geta flutt inn á næstu vikum. Það verða virkileg viðbrigði að flytja úr rólega úthverfinu mínu niður í 101 en þetta hlýtur að venjast, ég er búin að stressa mig á þessu síðan í desember og íbúðin hefur átt hug (og tíma) okkar allan síðan þá. Húsið er frá 1930 og því margt sem þarf að huga að en ég fæ draumagluggana í stofunum sem eru risastórir og fallegir.
Seinustu vikur hef ég þó verið húsgagna- og skrautmunasjúk (svo slæmt að þetta hefur yfirtekið smá snyrtivörubrjálæði) og fór einmitt að hugsa til þess að einhverjir lesendur vildu kannski sjá og fá hugmyndir út frá því sem við erum búin að vera að vesenast í og ætla að reyna að deila smá með ykkur á næstunni. Ég mun þó algjörlega halda áfram að sýna ykkur snyrtivörur og allskonar fínerí fyrir fésið og líkamann en húðin mín hefur verið í tómu tjóni undanfarið og því hefur verið sérlega óspennandi að taka myndir af henni.

Vörur frá Voluspa veit ég að þið fáið meðal annars í Maia á Laugavegi, Kastaníu í Kringlunni og Heimshorninu á facebook.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem fjallað er um í þessarri grein voru keyptar af greinarhöfundi eða aðilum tengdum honum. Greinin endurspeglar hreinskilið álit greinarhöfundar á vörum.

1 2 3