Nýtt merki hjá lineup.is – NKD BODY

nkdbodylineupVörur sem fjallað er um voru sendar sem gjafir, óháð umfjöllun

Hæ! Ég fékk óvæntan pakka í póstkörfuna mína fyrir svolitlu síða  sem mig langar að segja ykkur frá. Stelpurnar hjá Lineup.is voru að taka inn nýtt vörumerki sem kallast NKD Body og sendu mér 2 vörur frá merkinu sem ég er búin að vera að prófa. Ég fékk bæði hármaska og body butter og ætla að segja ykkur mína skoðun en ég er búin að vera í miklum prófunum.

NKD Body er frekar nýlegt merki frá Ástralíu. Samkvæmt heimasíðu merkisins er framleiðslan áströlsk og allar vörur merkisins vegan-vænar. NKD Body hefur aldrei prófað á dýrum og á umbúðum eru merkingar sem gefa það til kynna en umbúðirnar eru endurvinnanlegar. Ég hafði bara rekist á þetta merki nokkrum sinnum á instagram áður en ég sá að Lineup væri að taka það inn en mér skilst að það sé vinsælt erlendis með yfir 44 þúsund followers á instagram. Lineup.is hefur tekið merkið í sölu og það er á mjög viðráðanlegu verði.

nkdbodylineup1

Ég ætla að byrja á hármaskanum en hann kallast NKD Hair og ég fékk vanillutýpuna. Ég var mjög sátt við lyktina en hún var mjög mild, ekki gervileg og eiginlega bara mjög góð. Það stóð á pakkanum að maskinn ætti að bíða í 5-15 mínútur og að það ætti að setja hann í rakt, nýþvegið hár. Maskinn beið alveg örugglega í klukkutíma á meðan ég horfði á sjónvarpið en ég hafði litlar áhyggjur því innihaldslýsingin gefur til kynna að varan sé mjög náttúruleg.
Þegar að ég var búin að skola maskann úr var hárið mjög mjúkt og auðvelt að losa flókana úr. Alexander prófaði maskann líka og var jafn ánægður og ég með útkomuna. Maskinn inniheldur argan olíu, þara, kamillu og fleira sem hefur jákvæð áhrif á hárið og ég bjóst svosem alveg við því að hárið yrði fljótt skítugt eftir notkunina en mitt hár virðist oftast vera hjúpað með smjöri daginn eftir að ég nota djúpnæringu (ég held ég sé búin að prófa svona 12 mismunandi og ég er alltaf eins og smjörstykki). Mér til mikillar ánægju var hárið mjúkt en ekkert fitugt og ég komst upp með að þvo það ekki í 4 daga (ég þvæ hárið frekar sjaldan því það er svo þurrt). Næsti þvottur eftir notkunina var líka extra þægilegur því hárið var enn svo mjúkt. Samkvæmt framleiðanda þarf að nota maskann innan 3 mánaða frá því að maður opnar hann og hver maski er 100 ml.
Myndi ég kaupa þessa vöru sjálf/aftur? Já ég held það, maskinn hentar mínu hári vel en það er mjög viðkvæmt og þurrt eftir aflitanir og þarf þennan mikla raka. Ég reikna með að þessi 3 mánaða notkunargluggi sé fullkominn því ég held ég verði einmitt um það leiti að klára maskann.

Hin varan er body-butter með kókoslykt. Formúlan inniheldur apríkósukjarnaolíu, kókosolíu, shea butter og fleira og nærir húðina og gefur henni raka. Ég átti von á því að þetta væri frekar “greasy” á húðinni en hún kom á óvart því hún smýgur mjög hratt inn og skilur ekki eftir fitufilmu yfir húðinni. Kremið er frekar þykkt en dreifist vel þegar að það hitnar. Ég hef verið að reyna að muna eftir líkamskremum í haust því húðin þornar svo mikið og þetta body butter hefur verið að gera góða hluti þegar að ég man eftir því að nota það. Mér finnst það gefa góðan raka og svo finnst mér lyktin ekki yfirþyrmandi. Ég er búin að fá mömmu og Alexander til að prófa líka og þau hafa bæði verið sátt með útkomuna.
Myndi ég kaupa þessa vöru sjálf/aftur? Ég gæti hugsað mér það já. Ég er mjög léleg í að muna eftir kremum á líkamann og nota oftar líkamsolíuna frá Nuxe en gæti hugsað mér að nota þetta krem á þurrari staði eins og olnboga og hné.

NKD Body eru að mínu mati mjög vandaðar og góðar vörur og ég ætla að kaupa mér fleiri til að prófa. Það eru til andlitsmaskar, annar hármaski og nokkrir skrúbbar ásamt tei til hjá Lineup.is. Ég sá Katrínu Maríu prófa svarta maskann á snapchat og hann virtist vera góður svo ég held ég kaupi hann næst þegar að ég leyfi mér smá trít.

Þar til næst,
Þórunn

Uppáhalds hárvörur í júlí

uppahaldshar

Hæ! Mig langaði að skjótast hérna inn og segja ykkur frá hárvörunum sem ég er hrifnust af þessa stundina. Ég ætla ekki að raða þeim í sæti, það væri gjörsamlega ómögulegt, svo þið verðið bara að lifa með því. Svona til að segja ykkur smá frá hárinu mínu áður en ég byrja þá er ég með þurrt og mjög fíngert hár sem ég er búin að aflita í tætlur. Minn náttúrulegi hárlitur er brúnn með gylltum tónum og ef ég er ekki með litað hár (svolítið síðan það var síðast) þá er hárið mitt rennislétt.

Hárið er búið að vera í tómu tjóni í sumar, það er búið að vera skraufþurrt eins og eyðimörk og brotnar við minnsta álag ef ég gleymi mér. Ég er samt komin upp á lagið með að halda því nokkuð góðu en ég reikna með að tími ofurljósa silfurhársins sé liðinn í bili. Ég fór í litun í síðustu viku en þarf líklega að láta laga það áður en ég sýni ykkur það svo það bíður næsta looks eða eitthvað (sem ætti að fara að detta inn ef ég hætti einhverntíman að vera bóla, húðin og hárið er allt búið að vera í rugli).

Uppáhalds hárburstinn minn er “paddle brush” frá Aveda. Paddle brush nuddar hársvörðinn og örvar þar með blóðflæðið til hans svo hárið vex hraðar. Ég veit ekki hvort það er burstanum að þakka að hárið síkkar mjög hratt og rótin er mjög heilbrigð og fín (það er bara aflitaði hlutinn sem er ekki alveg að vinna með mér). Burstinn nær að leysa alla flóka og hárið er glansandi og mjúkt eftir að ég greiði það. Tip frá hárgreislukonunni minni: EKKI GREIÐA HÁRIÐ ÞEGAR AÐ ÞAÐ ER BLAUTT!

Dry remedy olían frá Aveda. Ég hef sagt ykkur frá henni áður en hún er sílíkonlaus og smýgur inn í hárið og gefur því mikinn raka. Hárið er heilbrigðara og rakinn helst í hárinu allan daginn.

Damage remedy djúpnæringin frá Aveda. Ég er búin að elska þessa djúpnæringu í mörg ár og mun eflaust elska hana það sem eftir er. Kínóaprótein ásamt öðrum náttúrulegum innihaldsefnum byggir upp hárið og gerir það sterkara og heilbrigðara. Ef þið eruð með aflitað og þurrt hár þá er þetta eins og að hafa undo-takka á skemmdirnar á hárinu. Ég gleymdi að ég ætti smá eftir og var að fara í gegnum skúffur þar sem ég fann næstum því tóma túpu sem ég var ekki lengi að gluða í hárið á mér og núna er það silkimjúkt. Allar vörurnar frá Aveda fást í Aveda búðinni í Kringlunni og á Aveda hárgreiðslustofum (t.d. Unique hár og spa sem er stofan sem ég fer á).

Invisibobble hárteygjur eru mesta snilldin. Ég keypti mér 4 pakka á þýska Amazon síðasta sumar á klink, gaf einn og á enn allar hinar. Þær slitna ekki, flækja ekki hárið og skemma það ekki. Ég er með nokkra stutta lokka í hárinu eftir “venjulegar” teygjur sem festust í og ég varð á endanum að rífa úr og ef ég stelst til að nota þannig teygjur þá enda þær alltaf fastar í hárinu og það slitið í tætlur. Ég mæli 100% með Invisibobble, þær kosta held ég um 600 kall pakkinn með 3 teygjum og fást á mörgum stöðum. Ég hef séð þær í Lyfjum og heilsu, á hárgreiðslustofum og mögulega í Hagkaup (ekki viss með það).

Perfect Hair Day (heitir Healty Hair í Evrópu) frá Living Proof er hárlína sem ég kynntist í Boston og varð ástfangin af. Ég keypti prufupakka úti og keypti mér svo full size um daginn. Ég keypti prufupakkann í Sephora og hafði svo samband við Living Proof til að komast að því hvar ég gæti fengið sent til Íslands. Þau bentu mér á heimasíðuna www.spacenk.com sem sendir til Íslands (Space NK er með vildarklúbb þar sem maður safnar punktum OG selur allskonar fín merki eins og t.d. Becca). Hárið er mýkra og það er er miklu auðveldara að vinna með það. Ég nota sjampóið, hárnæringuna og “5-in-1 styling treatment” og saman gerir þetta hárið mikið meðfærilegra og fallegra og sem bónus þá þarf að þvo það sjaldnar þegar að maður notar þessar vörur.

Wella SP silfursjampóið! Ég var komin með gult og ljótt hár og fór á Modus í Smáralind til að plata hana Elísabetu Ormslev (sem er meistari) til að hjálpa mér að finna eitthvað til að bjarga hárinu. Hún benti mér á silfursjampóið úr SP línunni frá Wella og ég ákvað að stökkva bara á það. Hárið varð strax fallegra og meira silfrað og næstum því glitrandi. Ég nota það núna í svona þriðja til fjórða hvert skipti sem ég þvæ hárið því mér finnst öll litasjampó þurrka hárið svolítið. Ég mæli með þessu sjampói fyrir alla sem vilja halda köldum tónum í hárinu, ég keypti það á miðnæturopnun og borgaði að mig minnir undir 3000 krónur sem er mjög fínt verð og sérstaklega því maður þarf ekki mikið.

Jæja, þetta varð aðeins lengra en ég ætlaði mér en það hlýtur að vera í lagi. Þessi langi listi hefur vonandi gefið einhverjum ykkar hugmyndir að vörum til að prófa ef þið eruð með þurrt og erfitt hár. Ég mæli með þeim öllum og hef keypt þær allar sjálf (olíuna fékk ég einu sinni að gjöf og ég er búin að kaupa aðra).

Þar til næst,
Þórunn

Hárrútínan mín

Screen Shot 2016-02-08 at 17.47.19.png

Halló halló!
Ég er ekki búin að gleyma ykkur enn en ég er umtalsvert virkari á snapchat en hér inni þessa dagana, þið finnið mig þar undir thorunns. Ég er búin að vanrækja allt undanfarið, skólann, sjálfa mig og ykkur en nú er það að breytast því ég er loksins komin með plan (það verður skrautlegt að reyna að fylgja því 100% en ég ætla að reyna).

Ég fæ mikið af fyrirspurnum frá ykkur í gegnum alla miðla (nema símanúmerið mitt, ég er frekar þakklát fyrir að það sé ekki í notkun) og margar þeirra snúa að hárinu mínu og hvaða vörur ég nota helst í hárið. Ég er eins og þið flest vitið með sítt silfurlitað hár sem þarf mikla ást og umhyggju, þessi litur er mjög erfiður í viðhaldi og sífelldar aflitanir taka sinn toll á hárinu sjálfu. Ég hef náð að halda hárinu (oftast) frekar góðu með hjálp Aveda sem ég byrjaði að nota fyrir löngu síðan, fyrsta varan sem ég kynntist var Damage Remedy djúpnæringin sem er enn alltaf til heima hjá mér. Ég ákvað að sleppa við að svara á samfélagsmiðlunum þessum fyrirspurnum og henda hárrútínunni minni hingað inn. Hún breytist reyndar stundum en þá er ég oftast að skipta einu sjampói út fyrir annað eða hárnæringu eða eitthvað svoleiðis.

Ég þvæ hárið þessa dagana upp úr Color Conserve sjampói sem hjálpar til við að viðhalda litnum í hárinu, grár litur vill “renna úr” frekar hratt en þetta sjampó nær einhvernvegin að halda honum frekar vel í mér. Það er mjög góð lykt af því og það þvær hárið vel og ertir ekki hársvörðinn né þurrkar hárið sem mér þykir mikill kostur.

Ég nota nokkrar hárnæringar til skiptis, í sturtunni er núna stór brúsi af Dry Remedy hárnæringu sem ég nota oftast en inn á milli nota ég Damage Remedy djúpnæringu eða Blue Malva bláa hárnæringu. Dry Remedy gefur hárinu mikinn raka og gerir það silkimjúkt en Dry Remedy línan er í miklu uppáhaldi hjá mér því maður sér strax mun eftir eina notkun. Damage Remedy djúpnæringin gerir við skemmt hár og inniheldur quinoa prótein sem styrkja einnig hárið svo það verður strax raunverulega heilbrigðara en áður. Damage Remedy djúpnæringin bjargaði mér alveg þegar að ég var hætt að geta greitt í gegnum hárið á því tímabili sem ég var alltaf með svona “ombre” litun, aflitaða hárið var orðið þannig að það myndaði einn hnút sem ómögulegt var að losa. Ég er alltaf þakklát henni Hrönn hjá Aveda sem benti mér á þessa djúpnæringu (það eru komin nokkur ár síðan) því hárið varð mun heilbrigðara. Blue Malva er svo blá hárnæring sem gefur lit, það eru til nokkrar litanæringar en þessi bláa kælir hárlitinn og dregur úr “brassy” tónum í hárinu. Ég nota Blue Malva reglulega og set hana í þurrt hárið og læt bíða í smá stund, hún fjarlægir alla óæskilega tóna og stundum hef ég hana extra lengi og fæ bláan tón yfir hárið.

Eftir sturtu nota ég alltaf Damage Remedy Daily Hair Repair sem er eiginlega hárnæring sem maður skilur eftir í hárinu, ég nota dropa á stærð við 1 krónu og set í hárið. Daily Hair Repair gerir við hárið, gefur því raka og það verður leikur einn að greiða í gegnum hárið. Ég var einmitt að kaupa nýja túpu af því áðan því ég get bókstaflega ekki án þess verið. Ef hárið er extra þurrt set ég svo nokkra dropa af Dry Remedy hárolíunni frá sirka miðju hári að endum sem gefur endunum þetta boost sem þeir þurfa. Ég mæli sérstaklega með olíunni núna í þessum kulda sem er ALLTAF núna, hárið á skilið smá dekur. Ég nota olíuna líka á þeim dögum sem ég þvæ hárið ekki og nota hana alveg eins, ég gleymdi að setja hana í hárið í morgun og endarnir mínir eru eins og ull.

Þá daga sem ég þvæ hárið ekki er Shampure þurrsjampóið minn bjargvættur, hársvörðurinn minn verður nefnilega stundum feitur og þetta þurrsjampó sogar í sig allar olíurnar svo hárið virðist nýþvegið og ilmar vel. Það er léttur ilmur af Shampure vörunum og mér þykir hún mjög góð. Ég sagði ykkur frá þessu þurrsjampói nýlega svo ég ætla ekki að skrifa of mikið um það.

Þegar að ég þarf að gera eitthvað við hárið nota ég oftast Brilliant hárspreyið sem gefur smá hald en á sama tíma gljáa. Ég hef átt alltof mörg hársprey sem gera hárið matt svo ég var alsæl að finna þetta sprey sem nær að temja hárið án þess að það sé stíflakkað.

Ég ætla að enda þetta á uppáhalds burstanum mínum en það er Paddle Brush frá Aveda. Ég fékk þennan í kaupauka í Bandaríkjunum og hef verið ástfangin frá fyrstu notkun. Hann nær að greiða í gegnum hárið og á sama tíma nuddar hann hársvörðinn sem er ólýsanlega þægilegt. Mæli með því að þið prófið hann, ég er alltaf með minn nálægt mér. Hann er líka ágætis bakklóra en það er annað mál.

Þá vitið þið allt um það, ég vil taka það sérstaklega fram að ég er bara svona klikkaður aðdáandi Aveda að ég kaupi endalaust. Ég fékk þurrsjampóið og olíuna frá Aveda á Íslandi en restina hef ég keypt sjálf (margoft). Þetta er ekki kostuð færsla eða nokkuð slíkt heldur bara blaður um það sem ég nota og vil mæla með fyrir aðra.

Hjá Aveda geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi og því mæli ég eindregið með því að gera sér ferð í búðina hjá þeim í Kringlunni eða á næstu Aveda hárgreiðslustofu og fá ráðgjöf við val á hárvörum. Þær mæla oft með einhverju sem maður hafði ekki einu sinni tekið eftir og þær eru endalaus uppspretta “tips and tricks” þegar að kemur að hári.

Þar til næst,
Þórunn

Þurrsjampó 101

Hæ hæ! Ég er búin að vera hrikalega löt í janúar, þessi mánuður er að mínu mati aaalveg glataður því ég dett alltaf í svakalegt skammdegisþunglyndi og leti (ef það er grátt úti þá fúnkera ég bara ekki, ég ætla samt ekki að fara út í einhver leiðindamál). Ég hef því lítið sem ekkert gert nema skrifa niður lista yfir það sem mig langar að segja ykkur frá og er loksins að koma mér í að skrifa þessar greinar. Í þessari færslu langar mig að segja ykkur frá þurrsjampóum og af hverju þið ættuð að prófa þurrsjampó.

Screen Shot 2016-01-20 at 23.32.07

Hvað er þurrsjampó og af hverju þarf ég það í líf mitt? Ég ætla að reyna að svara þessari spurningu eftir bestu getu en þurrsjampó komu inn í líf mitt líklegast fyrir svona þremur árum og fyrst um sinn verð ég að segja að ég var ekki heilluð (ég er það samt núna), ég hafði verið að nota Batiste þurrsjampó sem hentaði mér ekki og ég fann fyrir miklum óþægindum í augum og hársverðinum eftir að hafa notað það.
Maður spreyjar semsagt þurrsjampóinu í hársvörðinn þar sem duftagnirnar úr sjampóinu soga í sig fituna sem safnast fyrir svo hárið hættir að vera fitugt og verður aftur “fresh”. Oftast greiðir maður hárið með bursta eftir að þurrsjampóið er búið að fá að liggja í smá stund en það er engin regla. Það eru til margar mismunandi gerðir, til að henta öllum húðtýpum ásamt því að það eru til mismunandi “litasjampó”. Það er fátt betra en að geta sofið aðeins lengur og frestað hárþvottinum um 1 eða 2 daga með því að spreyja smá yfir hárið og nudda hársvörðinn og verið ferskari og fínni á svona 2 mínútum.

Ég fékk fyrirmæli frá hárgreiðslukonunni minni að hætta að þvo hárið svona oft (ég þvoði það annan hvern dag með sjampói og hárið var bæði þurrt og feitt á sama tíma og grái liturinn rann alltof hratt úr) og þá fór ég að nota þurrsjampóin aftur og er nú hæstánægð, ég hef prófað nokkrar týpur og ætla að segja ykkur frá þeim hér. Því miður eru þessi sem ég segi ykkur frá ekki öll fáanleg í verslunum hér á landi en það er tiltölulega auðvelt að nálgast þau. Ég skal merkja þau sem fást hér sérstaklega og hvar þau fáist.

1. Aveda Shampure Dry Shampoo fæst í Aveda búðinni í Kringlunni og á hárgreiðslustofum sem selja Aveda vörur (t.d. Unique Hár & Spa). Það er gaslaust þurrsjampó, þ.e. að maður kreistir brúsann til að búa til úðann og mér finnst það betra en að nota gas. Þegar að maður klárar brúsann færir maður toppinn bara yfir á áfyllingu sem kostar minna en brúsinn með spreytoppnum. Ég elska þetta þurrsjampó og skrifaði færslu um það hér en það er með góðri lykt, virkar sjúklega vel og það er auðvelt að nota það.

2. Klorane þurrsjampó fyrir feitt hár. Fæst því miður ekki hér en hægt að nálgast það á netinu. Þetta er létt þurrsjampó sem inniheldur netlu-extrakt sem hjálpar við hreinsun hársins. Formúlan er eldgömul, Klorane hafa framleitt þurrsjampó í rúm 40 ár og þau eru laus við paraben, silíkon, súlföt og sodium cloride. Ég er mjög hrifin af þessu til að hreinsa hárið extra vel.

3. Klorane þurrsjampó með höfrum fyrir allar hárgerðir. Fæst eins og hin týpan ekki hér en fæst á netinu. Þetta sjampó finnst mér með sterkari lykt en er meira rakagefandi og róandi fyrir hársvörðinn og hárið þornar ekki eins mikið. Ég nota þetta oftar en þurrsjampó númer 2 en lyktin pirrar mig svolítið. Ég mæli samt með því fyrir alla því þetta er milt, virkar vel og gefur hárinu fallega lyftingu.

4. Bumble & Bumble Prêt-à-Powder fæst því miður ekki hér á landi. Það hreinsar hársvörðinn, gefur lyftingu og lætur hárgreiðsluna endast lengur. Þetta er gaslaust þurrsjampó og virkar ofur-vel, ég finn duftið soga í sig fituna úr hársverðinum og hvað hárið lyftist og verður fallegra. Ef ég er að fara eitthvað fínt þá nota ég þetta alltaf og sama ef ég er að gera hárgreiðslur í aðra, hárið helst fallegt í svo langan tíma. Þetta hentar öllum hárgerðum en mér finnst það best í sítt hár sem á það til að verða frekar flatt.

5. Síðasta týpan sem ég ætla að segja ykkur frá er Freshen Up þurrsjampóið frá Eva NYC og fæst í Hagkaup. Það er létt og með ávaxtailm, það hentar Alexander betur en mér svo hann á það núna. Það hreinsar vel umframfituna í hárinu og skilur eftir léttan ilm af hárinu. Brúsinn er frekar stór svo maður fær mikið fyrir peninginn í þessu.

Þurrsjampó er alveg jafn mikið fyrir karlmenn eins og konur, ég skil ekki af hverju snyrtivöruheimurinn er ekki farinn að rúlla út þurrsjampóum fyrir karlmenn (ekki það að þau þurfi að vera kynbundin, það væri bara hægt að hafa kannski meira “manly” lykt en jarðarber). Ég mæli með þurrsjampói fyrir alla, við þvoum hárið alltof oft og höfum gott af því að minnka þvottinn.

Nú er ég hætt að röfla og babla og ætla að hætta áður en þið gefist alveg upp á mér. Þar til næst,
Þórunn

Fyrsta þurrsjampóið frá Aveda er komið!

DSC_0115

Þegar að mér bauðst að prófa nýja Shampure þurrsjampóið frá Aveda var ég ekki lengi að segja já og brunaði að sækja það. Ég var nefnilega svo heppin að fá þurrsjampóið í byrjun október og er búin að sitja á mér að skrifa um það síðan þá, en sjampóið fór ekki í sölu fyrr en um miðjan október í Bandaríkjunum og því fáir sem höfðu fengið að prófa. Það kom í sölu á Íslandi nýlega og því fullkominn tími til að segja ykkur frá því!

Ég er búin að vera í basli að finna “rétta” þurrsjampóið, ég er búin að prófa flest og enn sem komið er hef ég fundið tvö sem henta mér en það eru Klorane þurrsjampóið og svo þessi elska, Shampure Dry Shampoo frá Aveda. Það sem heillaði mig strax við þessa nýjung er að það er ekkert gas og maður getur keypt áfyllingar, það er eitthvað sem mér finnst skipta máli en ég vel helst gaslausar vörur (með pumpu sem maður pumpar eða svona kreistibrúsa eins og þetta er) því þær eru umhverfisvænni. Lyktin er sú sama og af öllum Shampure vörunum en hún er einhverskonar blanda af blómum og jurtum og mér finnst hún mjög góð og fersk. Sumir hafa miklað fyrir sér hvernig maður notar sjampóið ef það er ekki svona sprey en það er mjög einfalt, maður hvolfir brúsanum til að koma duftinu á hreyfingu, snýr honum svo upp og svo á að kreista brúsann til að koma duftinu út. Mér finnst gott að geta stýrt því hversu mikið ég nota en ég nota og kreisti stundum með brúsann á hvolfi til að fá meira duft í rótina. Þegar að ég er búin að setja það magn sem mér finnst passlegt þá nudda ég hársvörðinn og hárið verður strax mjög flott og líflegt. Ég skal reyna að taka myndir af því hvernig á að nota það og setja inn sér færslu um það við tækifæri.

DSC_0118

Þurrsjampóið er 99,8% unnið úr náttúrulegum afurðum og þurrkar upp olíuna sem myndast í hársverðinum milli þvotta. Mín reynsla er að þurrsjampóið virkar í tvo daga, ég þvæ hárið eins sjaldan og ég get til að halda litnum fallegum og svo hef ég tekið eftir því að hárið er bara mikið heilbrigðara eftir að ég fór að þvo sjaldan. Ég set það oftast í mig annaðhvort daginn eftir að ég fer í sturtu eða daginn eftir það (fer eftir ástandi hársins) og ég fæ tvo þvottalausa daga í viðbót með aðstoð þessa góða vinar. Stundum set ég það þó í hárið um leið og það er þurrt eftir sturtu því það gerir bara allt fyrir hárið mitt sem er fíngert og frekar leiðinlegt, lyftir því og gefur því flotta áferð sem helst lengi. Ég set sjaldnast eitthvað meira en þurrsjampó í hárið áður en ég fer út að skemmta mér því það gefur hárinu allt sem það þarf, það gefur líka flotta messy áferð ef maður tekur hárið upp í snúð eða tagl.

Shampure þurrsjampóið er orðið mitt uppáhalds og ég mun kaupa mér áfyllingu þegar að þetta klárast (held það sé samt langt í það, sér varla á brúsanum þrátt fyrir mikla notkun). Ég nota aðallega hárvörur frá Aveda en þær eru að mínu mati með þeim allra bestu sem hægt er að fá, þær virka vel og eru náttúrulegri en margir aðrir valkostir. Ég gef þurrsjampóinu frá þeim fullt hús stiga og mæli með að sem flestir prófi, bæði konur og karlar! Þið fáið þurrsjampóið á öllum sölustöðum Aveda, ég er ekki viss með verðið þar sem mér var gefið það en ég skal athuga verðið við fyrsta tækifæri.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem er fjallað um í þessari grein voru sendar sem sýnishorn, greinin endurspeglar samt sem áður hreinskilið álit greinarhöfundar á vörunum.

1 2 3