Ofursápan frá Dr. Brönner

Screen Shot 2016-01-31 at 20.05.21

Ég var að versla í Kosti (eins og svo oft áður) um daginn og rakst á sápurnar frá Dr. Brönner sem ég hafði lesið mikið um á netinu. Sápurnar eru bæði til fljótandi (ég keypti þannig með sítruslykt) og í stykkjaformi og það eru til ýmsar mismunandi lyktir sem og lyktarlaus útgáfa. Ástæðan fyrir að ég kveikti á perunni og stökk á sápuna var sú að ég hafði lesið að þetta væri ein besta burstasápa í heimi og ákvað að nú væri kominn tími á að sannreyna það. Já ég veit líka að ég er búin að vera mikið að gera svona plain myndir fyrir færslurnar mínar (sem eru sorglega fáar í janúar, ég er í miklum vetrarblús) en mér finnst þær samt svo fínar að ég held ég haldi því áfram að einhverju leiti, ég er samt alveg að fara að setja hringljósið mitt á stand svo ég geti verið duglegri að taka myndir.

Sápuna má nota samkvæmt framleiðanda á allt frá sem hreinsa þarf. Ég hef bara notað hana á burstana en ég veit að mamma prófaði að þvo hárið á sér og alla hundana með sápunni og fannst hún mjög fín í allt. Sápan er blanda af hinum ýmsu olíum en meðal annars má finna kókosolíu, pálmaolíu (fair trade útgáfan, hún er umtalsvert betri fyrir heiminn heldur en hin), ólífuolíu, appelsínuolíu, hampolíu, jojobaolíu, sítrónuolíu og lime-olíu en allar þessar olíur eru lífrænar. Kókosolían, ólífuolían og pálmaolían eru allar vottaðar fair-trade vörur. Allar þessar olíur ásamt örfáum innihaldsefnum í viðbót leysa upp óhreinindi án nokkurar fyrirhafnar. Einnig er vert að taka fram að sápan er ekki prófuð á dýrum og hentar fólki sem lifir vegan-lífsstíl.

Ég setti smá sápu í glas, bara svona 15 dropa eða eitthvað, til að þrífa rúmlega 20 bursta. Ég bleytti burstana með volgu vatni, rétt dýfði þeim í glasið svo það kæmi smá sápa á hárin og nuddaði burstanum svo í lófann. Sápan inniheldur ekki freyðiefni svo hún freyðir mjög lítið en ég sá óhreinindin leysast upp á methraða sem ég skolaði svo í burtu, ég var að hreinsa hyljara, farða, augnskugga, eyeliner og allskonar óhreinindi úr burstunum og það rann allt í burtu. Hvítu hárin urðu aftur hvít (þau sem gátu orðið það, hvítir MAC burstar verða aðeins gulari með árunum en ég fríska upp á mína með bláum hreinsi sem fer ekkert alltof vel með þá við og við) og öll hár urðu silkimjúk. Ég hef sjaldan verið eins fljót að þvo burstana mína og þið sem eigið marga förðunarbursta vitið að það er fátt sem gleður mann meira en að vera fljótur að þvo þá.
Mér finnst oft erfitt að ná sápunni úr burstunum þegar að ég nota t.d. uppþvottalög eða sjampó en ég mér finnst ég ekki finna fyrir því með Dr. Brönner, ég þurfti bara rétt svo að skola þá með volgu vatni til að hreinsa sápuna í burtu. Það kom mér á óvart að það var enn sápa í glasinu þegar að ég var búin að þrífa alla burstana.

Ég mæli með sápunum frá Dr. Brönner fyrir alla, sama hvort það er burstaþvottur, hundabað eða hárþvottur. Ég er með það á listanum að vaska upp úr sápunni, ég vaska bara eiginlega alltof sjaldan upp svo ég kannski bið Alexander um að prófa að vaska upp með henni. Ég borgaði um 1.300 krónur fyrir fljótandi sápuna í Kosti og sá um daginn að þær fást líka í Lyfjum og heilsu en ég kíkti ekki á verðið.

Bætt við: Ég fékk ábendingar um að þið fáið sápurnar líka hjá Maia á Laugavegi og Gló í Fákafeni (þar fást líka stærri umbúðir). Þær fást bæði í Apótekaranum og Lyfjum og Heilsu. Ég bæti við fleiri sölustöðum ef ég finn fleiri!

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem fjallað er um í þessarri grein voru keyptar af greinarhöfundi eða aðilum tengdum honum. Greinin endurspeglar hreinskilið álit greinarhöfundar á vörum.

Ég elska: Eames stóla

Eins og ég hef sagt ykkur áður þá er ég húsbúnaðarsjúk og þar af leiðandi húsgagnasjúk. Hjartað tekur kipp við að sjá Ikea-, Húsgagnahallar- eða Ilvabækling (og svo auðvitað eru vefverslanir hættulegar slóðir sem ég er að reyna að forðast). Eames DSR, DAR, RAR, DAW og svo framvegis hafa lengi verið miklu uppáhaldi hjá mér og ég hugsa að ég verði allavega að fá mér einn svona gullfallegan stól, jafnvel fleiri. Þeir eru bæði fallegir og þægilegir og efst á óskalistanum yfir svona pjatthluti í íbúðina er einn DAR stóll (skel með örmum og málmfótum). Stólarnir frá eru framleiddir af Vitra og eru alltaf passandi, í svefherbergið, á skrifstofuna, í stofuna og í eldhúsið (og bílskúrinn ef þú fílar það).

1 12 13 14 e0a86c5bfe42f583116fa1b478b414da

 

Þið getið keypt þessa stóla og svo ótal marga aðra í Pennanum, ég sá að einhverjir þeirra eru meira að segja á tilboði þessa dagana (getið séð tilboðsbæklinginn hér). Auðvitað þarf ég virkilega að hemja mig að stökkva ekki á svona tilboð en með þessa stóla er það ótrúlega erfitt, það er mikið skemmtilegra að eyða peningum í falleg húsgögn og hluti heldur en flísalím, fúgu og gólflista.

Þar til næst,
Þórunn

Himneskur ilmur fyrir heimilið

123465

Ég hef lengi verið spennt fyrir vörunum frá Voluspa og hef á seinustu vikum loksins látið verða af því að kaupa mér smá fínerí frá þeim. Fyrir þá sem ekki þekkja Voluspa er þetta fyrirtæki sem framleiðir lúxus-ilmvörur fyrir heimilið. Að kveikja á kerti frá Voluspa er upplifun, kertin eru falleg og allir ættu að geta fundið ilm við sitt hæfi.

Voluspa var stofnað af Troy og Traci Arntsen árið 1999 þegar að þau bjuggu til fyrsta ilmkertið í eldhúsinu heima. Traci með sérstaklega gott lyktarskyn og þekkingu á plöntum og Troy með verkfræðibakgrunn þróuðu vöruna sem við sjáum í dag, kerti úr kókosvaxi með ilmefnablöndu sem brenna hreint og gefa mikinn ilm. Umbúðirnar eru sérstaklega fallegar og vekja athygli hvar sem þær eru. Voluspa hefur komið sér rækilega á kortið en tísku- og lífstílstímarit um allan heim hafa fjallað um vörurnar.

IMG_6531

Minn uppáhalds ilmur er Crisp Champagne sem einkennist af þurru kampavíni, vanillu- og eikartónum. Ég keypti mér bæði tveggja kveikja kerti og svokallaðan “diffuser” (ég bara get ekki fundið nógu gott orð), kertið keypti ég í Kastaníu í Kringlunni en diffuserinn keypti ég af sérstaklega skemmtilegri netverslun sem kallast Heimshornið og ég get sagt strax að hann var á mjööög góðu verði. Kertið á að brenna í 50 klukkustundir (ég hef ekki enn kveikt á því, ætla að kveikja á því daginn sem ég flyt inn) og diffuserinn á að duga í 4-6 mánuði. Ég er alveg veik fyrir umbúðunum en þær eru klassískar og passlega skrautlegar og kertadósina má til dæmis endurnýta fyrir allskonar smádót þegar að kertið er búið. Mig dauðlangar að kaupa mér fleira fínt frá Voluspa en læt þetta dúó duga í bili.

IMG_6538

Myndirnar hérna að ofan eru teknar í íbúðinni okkar Alexanders en við erum að reyna að losna við málningarlyktina og ákváðum að opna diffuserinn til að aðstoða okkur. Það er enn málning á gluggum og allt útum allt (enn ekkert baðherbergi) en þetta mjakast og við vonumst til að geta flutt inn á næstu vikum. Það verða virkileg viðbrigði að flytja úr rólega úthverfinu mínu niður í 101 en þetta hlýtur að venjast, ég er búin að stressa mig á þessu síðan í desember og íbúðin hefur átt hug (og tíma) okkar allan síðan þá. Húsið er frá 1930 og því margt sem þarf að huga að en ég fæ draumagluggana í stofunum sem eru risastórir og fallegir.
Seinustu vikur hef ég þó verið húsgagna- og skrautmunasjúk (svo slæmt að þetta hefur yfirtekið smá snyrtivörubrjálæði) og fór einmitt að hugsa til þess að einhverjir lesendur vildu kannski sjá og fá hugmyndir út frá því sem við erum búin að vera að vesenast í og ætla að reyna að deila smá með ykkur á næstunni. Ég mun þó algjörlega halda áfram að sýna ykkur snyrtivörur og allskonar fínerí fyrir fésið og líkamann en húðin mín hefur verið í tómu tjóni undanfarið og því hefur verið sérlega óspennandi að taka myndir af henni.

Vörur frá Voluspa veit ég að þið fáið meðal annars í Maia á Laugavegi, Kastaníu í Kringlunni og Heimshorninu á facebook.

Þar til næst,
Þórunn

Vörur sem fjallað er um í þessarri grein voru keyptar af greinarhöfundi eða aðilum tengdum honum. Greinin endurspeglar hreinskilið álit greinarhöfundar á vörum.