Nýjung fyrir augabrúnir frá YSL

DSC_0052
Höfundur fékk vöruna að gjöf

Loksins má ég segja ykkur frá nýrri vöru sem er að lenda í búðum á allra næstu dögum en það er augabrúnapalletta frá YSL sem er fullkomin í snyrtibudduna. Ég fékk pallettuna að gjöf í sumar en komu hennar til Íslands seinkaði aðeins og því ætti hún að fara að sjást í YSL stöndum fljótlega. En nú skulum við vinda okkur í þetta!

DSC_0058

Hér sjáið þið pallettuna en mín er í lit 1 af tveimur, hin er dekkri. Ég hafði áhyggjur af því að hún væri of ljós fyrir mig en grábrúni liturinn er hands-down besti augabrúnapúðurlitur sem ég hef prófað! Ég nota hann oftast, tek svo stundum miðjulitinn og gef augabrúnunum smá hlýju og meiri fyllingu og svo nota ég neðsta litinn oft hversdags sem “highlight” undir augabrúnina. Pallettan inniheldur þægilegan skáskorinn bursta og lítinn plokkara sem er gott að grípa í ef maður verður var við auka hár sem mega fjúka. Eina sem mætti vera í pallettunni til viðbótar er “spoolie” greiða en hún væri ef til vill alltof stór. Litirnir haldast vel á húðinni, ég set oftast lit í brúnirnar um 8 leitið á morgnanna og þær eru nákvæmlega eins þegar að ég þvæ mér á kvöldin svo ég er alltaf jafn ánægð.

DSC_0061

Umbúðirnar eru klassískar YSL umbúðir, gylltar og fágaðar með spegli í lokinu. Þær lokast vel og haldast þannig (hef enn ekki lent í að svona YSL “compact” opnist í tösku, vona að það gerist aldrei).

Mér finnst gott að vera með þessa pallettu í snyrtibuddunni því hún inniheldur allt sem maður þarf til að augabrúnirnar virðist veglegri og þéttari. Maður þarf mjög lítið í einu svo ég reikna með að þessi endist mér í langan tíma, ég rétt snerti yfirborðið og það er nóg fyrir heila augabrún. Það er gaman að toppa þetta svo með Couture Brow augabrúnagelinu sem gefur auka dýpt og heldur augabrúnunum pikkföstum allan daginn, þið sem eruð með löng og strjál hár í augabrúnunum eins og ég gætuð viljað nota svona kombó.
Ég mæli með augabrúnapallettunni fyrir alla sem vilja fallegri augabrúnir án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því.

Þið fáið vörurnar frá Yves Saint Laurent í Hagkaup Kringlu, Smáralind og Holtagörðum, Lyfjum og heilsu í Kringlu, Debenhams Smáralind, Jöru á Akureyri og versluninni Bjargi á Akranesi.

Þar til næst,
Þórunn

 

Primer í spreyformi frá Skindinavia

DSC_0043höfundur keypti vöruna sjálfur – færslan er ekki kostuð

Hæ! Mig langaði að segja ykkur frá vöru sem ég keypti fyrir rúmum mánuði og er búin að vera að prófa en það er The Makeup Primer Spray frá Skindinavia. Ég keypti spreyið hjá Lineup.is en þær flytja inn Skindinavia á Íslandi. Spreyið er eins og nafnið gefur til kynna farðagrunnur sem maður spreyjar á húðina áður en farði er settur á sem eykur endingartíma farðans og gerir alla farðaásetningu auðveldari.

Skindinavia er leiðandi framleiðandi allskyns “farða”-spreyja í heiminum, þeir framleiða t.d. spreyin frá Urban Decay og eru með sína eigin línu sem þeir selja undir sínu nafni. Tæknin sem þeir nýta sér er að formúlan myndar filmu yfir húðinni sem leyfir húðinni samt að anda, kælir húðina pínulítið (ekki þannig að maður finni fyrir því) og hjálpar henni að halda rakanum inni yfir daginn. Formúlan er olíu-, parabena- og sílíkonlaus en sílíkon-primerar virka ekki fyrir alla. Formúlan er einnig ofnæmisprófuð og sökum þess að hún er olíulaus hentar hún fólki sem glímir við acne. Það er líka til primer sprey með “oil-control” fyrir þá sem eru með feita húð en ég hef ekki prófað það, hef samt íhuga að kaupa og eiga þannig í kittinu mínu.

DSC_0050

Mér finnst spreyið ná að láta farðann haldast betur á og kemur í veg fyrir að hann byrji að brotna niður yfir daginn t.d. í kringum nefið og á enninu. Hann hentar mér allavega sama hversu þurr húðin er (ég er búin að spanna allan skalann í sumar) og mér finnst mjög þægilegt að þurfa bara að spreyja létt yfir andlitið áður en ég set á mig farða og ég virðist þurfa aðeins minna af farðanum en annars. Ég hef verið að nota spreyið líka í farðanir á aðra og það hafa allir verið mjög ánægðir með það.

Ég mæli með The Makeup Primer Spray frá Skindinavia og ætla að kaupa fleiri sprey frá merkinu á næstunni. Það eru líka til 3 mismunandi “finishing spray” sem “læsa” farðann á húðinni og ég hef augastað á einu þeirra. Það eru einnig seld kit hjá lineup.is með bæði primer og finishing spreyjum fyrir þær sem vilja eignast bæði í einu.

Þar til næst,
Þórunn

Verslunarmannahelgarfærslan 2016

Screen Shot 2016-07-26 at 23.26.54

Hæ! Ég er hrikalega léleg að setjast niður með tölvuna eftir vinnu og skrifa færslur hingað inn og ætla bara að afsaka mig strax, ég er alltaf að reyna að bæta mig en þetta sumar er ofurvinnusumar. Ég sit við tölvuna allan daginn í vinnunni og kem heim uppgefin og nenni bara ekki að opna tölvuna en er samt alltaf að hugsa um næstu færslur sem ég ætla að skrifa (þetta er líka smá frestunarárátta, eiginlega ekki smá heldur bara rosa mikil). Mér fannst samt mikilvægt að henda í smá verslunarmannahelgarfærslu með þeim vörum sem ég mæli með fyrir helgina.

Ég ætla að byrja á mikilvægasta hlutnum til að taka með en það er sólarvörn! Húðin er Ég er hrifnust af Proderm því mér finnst þægilegt að hún sé í froðuformi og svo finnst mér ekki mikil lykt af henni. Aðrar sólarvarnir sem mér finnst góðar og eru ekki með vondri lykt eru Hawaiian Tropic og Piz Buin en þær eru ekki til í froðuformi og eru lengur að byrja að virka. Proderm fæst í apótekum og mögulega einhverjum matvöruverslunum, ég er ekki viss.

Næsta vara er þurrsjampó, mitt uppáhalds er Shampure frá Aveda. Það endist heila eilífð, er gaslaust og hægt að fá áfyllingar á það (umhverfisvænna) og hárið helst hreint lengur. Þurrsjampó er must, alveg sama á hvaða úti- eða tónleikahátíð maður fer, þar sem aðgangur að sturtu er ekki alltaf í boði. Aveda vörur fást í verslun Aveda í Kringlunni og á Aveda hárgreiðslustofum.

Anastasia Beverly Hills Dipbrow, vatnsheldar augabrúnir án fyrirhafnar. Það þarf svosem ekki að segja mikið meira. Þið fáið Anastasia Beverly Hills hjá nola.is og í verslun nola á Höfðatorgi.

Lancôme Hypnôse Doll Eyes maskari, mikilvægt að hann sé vatnsheldur! Ég mæli með honum við alla og hann er minn go-to brúðkaupsmaskari (ég er mikil grátkona þegar að kemur að brúðkaupum). Hann þolir allt, gerir augnhárin falleg og áberandi án þess að molna.

Biotherm Balm-to-oil hreinsirinn. Hreinsar allt af, þar á meðal vatnsheldu augabrúnirnar og vatnshelda maskarann. Hreinsirinn er hörð olía svo maður þarf aldrei að hafa áhyggjur af því að hún leki í töskunni manns. Olían verður að hálfgerðri hreinsimjólk þegar að hún kemst í snertingu við vatn og allt næst af. Ég er búin að eiga mitt lengi og það er komin smá dæld í dolluna.

Síðasta varan er góður varalitur, litur sem gerir mann sjálfsöruggari og ánægðari með lífið og tilveruna. Ég ákvað að setja YSL Rouge Volupte varalit á listann en í raun skiptir merkið, verðið og liturinn ekki máli. Bara hvað þér líður vel með!

Verslunarmannahelgin á að snúast um gleði og hamingju í góðra vina hópi. Látum gleðina ekki snúast upp í sorg og vanlíðan með fávitaskap og með því ætla ég að kveðja ykkur í bili og óska ykkur góðrar skemmtunar um helgina. Við sjáumst fersk í næstu viku!

Þórunn

Uppáhalds hárvörur í júlí

uppahaldshar

Hæ! Mig langaði að skjótast hérna inn og segja ykkur frá hárvörunum sem ég er hrifnust af þessa stundina. Ég ætla ekki að raða þeim í sæti, það væri gjörsamlega ómögulegt, svo þið verðið bara að lifa með því. Svona til að segja ykkur smá frá hárinu mínu áður en ég byrja þá er ég með þurrt og mjög fíngert hár sem ég er búin að aflita í tætlur. Minn náttúrulegi hárlitur er brúnn með gylltum tónum og ef ég er ekki með litað hár (svolítið síðan það var síðast) þá er hárið mitt rennislétt.

Hárið er búið að vera í tómu tjóni í sumar, það er búið að vera skraufþurrt eins og eyðimörk og brotnar við minnsta álag ef ég gleymi mér. Ég er samt komin upp á lagið með að halda því nokkuð góðu en ég reikna með að tími ofurljósa silfurhársins sé liðinn í bili. Ég fór í litun í síðustu viku en þarf líklega að láta laga það áður en ég sýni ykkur það svo það bíður næsta looks eða eitthvað (sem ætti að fara að detta inn ef ég hætti einhverntíman að vera bóla, húðin og hárið er allt búið að vera í rugli).

Uppáhalds hárburstinn minn er “paddle brush” frá Aveda. Paddle brush nuddar hársvörðinn og örvar þar með blóðflæðið til hans svo hárið vex hraðar. Ég veit ekki hvort það er burstanum að þakka að hárið síkkar mjög hratt og rótin er mjög heilbrigð og fín (það er bara aflitaði hlutinn sem er ekki alveg að vinna með mér). Burstinn nær að leysa alla flóka og hárið er glansandi og mjúkt eftir að ég greiði það. Tip frá hárgreislukonunni minni: EKKI GREIÐA HÁRIÐ ÞEGAR AÐ ÞAÐ ER BLAUTT!

Dry remedy olían frá Aveda. Ég hef sagt ykkur frá henni áður en hún er sílíkonlaus og smýgur inn í hárið og gefur því mikinn raka. Hárið er heilbrigðara og rakinn helst í hárinu allan daginn.

Damage remedy djúpnæringin frá Aveda. Ég er búin að elska þessa djúpnæringu í mörg ár og mun eflaust elska hana það sem eftir er. Kínóaprótein ásamt öðrum náttúrulegum innihaldsefnum byggir upp hárið og gerir það sterkara og heilbrigðara. Ef þið eruð með aflitað og þurrt hár þá er þetta eins og að hafa undo-takka á skemmdirnar á hárinu. Ég gleymdi að ég ætti smá eftir og var að fara í gegnum skúffur þar sem ég fann næstum því tóma túpu sem ég var ekki lengi að gluða í hárið á mér og núna er það silkimjúkt. Allar vörurnar frá Aveda fást í Aveda búðinni í Kringlunni og á Aveda hárgreiðslustofum (t.d. Unique hár og spa sem er stofan sem ég fer á).

Invisibobble hárteygjur eru mesta snilldin. Ég keypti mér 4 pakka á þýska Amazon síðasta sumar á klink, gaf einn og á enn allar hinar. Þær slitna ekki, flækja ekki hárið og skemma það ekki. Ég er með nokkra stutta lokka í hárinu eftir “venjulegar” teygjur sem festust í og ég varð á endanum að rífa úr og ef ég stelst til að nota þannig teygjur þá enda þær alltaf fastar í hárinu og það slitið í tætlur. Ég mæli 100% með Invisibobble, þær kosta held ég um 600 kall pakkinn með 3 teygjum og fást á mörgum stöðum. Ég hef séð þær í Lyfjum og heilsu, á hárgreiðslustofum og mögulega í Hagkaup (ekki viss með það).

Perfect Hair Day (heitir Healty Hair í Evrópu) frá Living Proof er hárlína sem ég kynntist í Boston og varð ástfangin af. Ég keypti prufupakka úti og keypti mér svo full size um daginn. Ég keypti prufupakkann í Sephora og hafði svo samband við Living Proof til að komast að því hvar ég gæti fengið sent til Íslands. Þau bentu mér á heimasíðuna www.spacenk.com sem sendir til Íslands (Space NK er með vildarklúbb þar sem maður safnar punktum OG selur allskonar fín merki eins og t.d. Becca). Hárið er mýkra og það er er miklu auðveldara að vinna með það. Ég nota sjampóið, hárnæringuna og “5-in-1 styling treatment” og saman gerir þetta hárið mikið meðfærilegra og fallegra og sem bónus þá þarf að þvo það sjaldnar þegar að maður notar þessar vörur.

Wella SP silfursjampóið! Ég var komin með gult og ljótt hár og fór á Modus í Smáralind til að plata hana Elísabetu Ormslev (sem er meistari) til að hjálpa mér að finna eitthvað til að bjarga hárinu. Hún benti mér á silfursjampóið úr SP línunni frá Wella og ég ákvað að stökkva bara á það. Hárið varð strax fallegra og meira silfrað og næstum því glitrandi. Ég nota það núna í svona þriðja til fjórða hvert skipti sem ég þvæ hárið því mér finnst öll litasjampó þurrka hárið svolítið. Ég mæli með þessu sjampói fyrir alla sem vilja halda köldum tónum í hárinu, ég keypti það á miðnæturopnun og borgaði að mig minnir undir 3000 krónur sem er mjög fínt verð og sérstaklega því maður þarf ekki mikið.

Jæja, þetta varð aðeins lengra en ég ætlaði mér en það hlýtur að vera í lagi. Þessi langi listi hefur vonandi gefið einhverjum ykkar hugmyndir að vörum til að prófa ef þið eruð með þurrt og erfitt hár. Ég mæli með þeim öllum og hef keypt þær allar sjálf (olíuna fékk ég einu sinni að gjöf og ég er búin að kaupa aðra).

Þar til næst,
Þórunn

Énergie de Vie frá Lancôme

lancomeenergie

vörurnar voru gjöf

Nýlega kom á markað ný húðvörulína frá Lancôme sem kallast Énergie de Vie. Énergie de Vie er lína sem er ætluð yngri viðskiptavinum sem vilja leggja áherslu á hreina og vel nærða húð. Línunni er ætlað að seinka einkennum öldrunar og gera húðina ferskari og rakafylltari en Lancôme leitaði í reynslubanka asískra kvenna sem eru þekktar fyrir fallega húð. Innblásturinn að þessu sinni er að mestu frá Kóreu en þar má segja að húðvöruunnendur finni himnaríki, þar eru spa sem eru opin allan sólarhringinn og áherslan er öll á húðina og áferð hennar.

Énergie de Vie leggur áherslu á ferskleika og græni liturinn í umbúðunum er sumarlegur og ferskur, 100% í anda línunnar. Hátt hlutfall rakagefandi efna, t.d. hyaluronic sýru í bland við glycerin gefur húðinni mikinn raka sem endist á meðan að önnur efni hafa önnur jákvæð áhrif á húðina. Þau efni eru French Melissa (hefur róandi virkni, andoxandi og bólgueyðandi áhrif, 100% náttúrulegt efni), Gojiberja extrakt (hefur andoxandi eiginleika, róar einnig og eyðir bólgum líkt og French Melissa) og Gentian extrakt (inniheldur sykrur sem næra húðina).

lancome-energie-de-vie-6-1024x361

Vörurnar í línunni eru þrjár, raka”krem”, maski og svokallað “pearly lotion” sem er klassísk vara undir asískum áhrifum. Við Alexander erum bæði búin að vera að prófa línuna og finnst báðum hún vera virkilega öflug og vönduð og mjög frískandi með góðri lykt.

Kremið Liquid Care er fljótandi rakakrem sem minnir meira á serum en krem. Maður þarf mjög lítið í einu, mér finnst hálf pumpa alveg nóg, og vökvinn verður enn þynnri og léttari þegar að maður byrjar að nudda honum inn í húðina. Húðin er fljót að drekka kremið í sig (mér finnst ég finna húðina drekka) og það má gluða kreminu yfir allt andlitið, líka í kringum augun (sem má ekki með öll krem). Ég er mjög ánægð með rakakremið og finnst sérstaklega gott hvað það er góður grunnur til að setja farða á, það er passlega létt en heldur rakanum vel í húðinni allan daginn.

Maskann má bæði nota sem rakaboost þar sem maður lætur hann liggja á húðinni í 10 mínútur og líka sem næsturmaska. Maskinn er algjör raka- og næringarbomba þar sem maður sér mun strax eftir eina notkun. Maskinn er passlega þykkur en um leið og hann hitnar virðist hann bráðna svolítið og verða meira fljótandi. Mér finnst hann bestur yfir nótt og elska að vakna með húðina silkimjúka og “djúsí” að morgni. Ég fékk bæði Alexander og góða vinkonu mína (þau eru bæði með húð sem þarf raka) og þau voru bæði mjög ánægð með maskann og fannst hann skila mikilli virkni eftir eina notkun.

Pearly lotion er mjög sérstök vara því ég get bara ekki fundið nokkuð sem líkist henni. Þetta er vökvi með pínulitlum perlum sem flokkast sem serum. Blandan vekur húðina og virkar hálfportinn eins og magnari því hún “festir” raka úr öðrum vörum í húðinni og þar af leiðandi virkar kremið betur en annars. Það er bæði hægt að setja bara í bómul og strjúka yfir húðina og setja smá í lófann, nudda höndunum saman og pressa vökvanum á andlitið.

Ég er mjög ánægð með Énergie de Vie og mun kaupa mér ný eintök af vörunum þegar að þessi klárast. Ég persónulega get ekki valið bara eina uppáhalds en ég veit að maskinn er uppáhald Alexanders. Þessi lína hentar líka fyrir karlmenn og við skötuhjúin mælum með henni fyrir alla sem vilja gefa húðinni raka og næringu. Þið fáið þessa línu ásamt öllum öðrum Lancôme vörum á sölustöðum Lancôme á Íslandi.

Þar til næst,
Þórunn

1 2 3 4 57